Nýtt hús fyrir fatlað fólk í Kópavogi vígt

Frá vígslu húsnæðiskjarnans í dag.
Frá vígslu húsnæðiskjarnans í dag. Ljósmynd/Aðsend

Sjö íbúða húsnæðiskjarni við Fossvogsbrún í Kópavogi var vígður í dag. Auk íbúða er sameiginleg sólstofa í húsnæðinu og aðstaða fyrir starfsfólk en þar verður veitt sólarhringsþjónusta.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsbæ.

Ráðning starfsfólks í íbúðakjarnann stendur yfir

Með Fossvogsbrún bætist enn við þjónustu Kópavogsbæjar við fatlað fólk en alls rekur bærinn níu íbúðakjarna með sólarhringsþjónustu og hafa þrír verið teknir í notkun á undanförnum 10 árum og aðrir verið endurbættir. Auk þess úthlutar sveitarfélagið að jafnaði tveimur til fjórum félagslegum leiguíbúðum á ári til fatlaðs fólks sem þarf þjónustu.

Á næstu vikum munu íbúar flytja inn í Fossvogsbrún en ráðning starfsfólks stendur yfir.

„Við höfum unnið skipulega að uppbygginu á húsnæði fyrir fatlað fólk frá haustinu 2014 þegar samþykkt var áætlun um uppbyggingu í bæjarráði Kópavogs og hefur mikil samstaða verið um málefnið í bæjarstjórn. Við erum hvergi nærri hætt því næsti íbúðarkjarni verður tekinn í notkun í Kleifarkór árið 2024,“ er haft eftir Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs, í tilkynningunni.

Væntanlegir íbúar, starfsfólks, bæjarstjóri og bæjarfulltrúar í Kópavogi, voru viðstaddir vígsluna og afhenti Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs Þóru Ágústu Úlfsdóttur lykla að húsnæðinu. Guðlaug Ósk Gísladóttir, deildarstjóri velferðarsviðs stýrði dagskrá.

„Fagmennska og metnaður er okkar áhersla í velferðarmálum og ánægjulegt að það bætist við húsnæði fyrir fatlað fólk í Kópavogi en nú þegar Fossvogsbrún hefur verið tekin í notkun eru 60 íbúar í Kópavogi í sértæku húsnæði á vegum bæjarins,“ sagði Guðlaug við tækifærið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert