Bjarni kvíðir ekki uppgjöri við framkvæmd sölunnar

Bjarni Benediktsson telur ekki ástæðu til að íhuga stöðu sína …
Bjarni Benediktsson telur ekki ástæðu til að íhuga stöðu sína vegna gagnrýni á sölu Íslandsbanka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist að sjálfsögðu bera pólitíska ábyrgð á sölu 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka með því að setja ferlið af stað. Hann standi með þeirri sannfæringu sinni að ríkið eigi að losa sig úr samkeppnisrekstri og sér ekki ástæðu til þess að íhuga stöðu sína eða segja af sér vegna málsins.

Bjarni er enn þeirrar skoðunar að salan hafi verið vel heppnuð þegar á heildina er litið, en spurningar um framkvæmdina varpi skugga á árangurinn. Hann telur ekki hafi verið farið á svig við lög á nokkurn hátt af hálfu fjármálaráðuneytisins og að mikið af þeirri gagnrýni sem komið hafi fram sé eftiráspeki.

Bankasýslunni hafi hins vegar mátt takast betur til við útboðið og það kunni að vera að þátttakendur í útboðinu hafi ekki uppfyllt skyldur sínar. Þá hafi sumt varðandi framkvæmdina orðið til þess að skapa tortryggni.

„Framkvæmdin skiptir auðvitað máli og nú erum við í uppgjöri við hana og ég kvíði því ekkert sérstaklega,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Ríkisendurskoðun er með söluna til skoðunar, að beiðni fjármálaráðherra, og fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur einnig hafið rannsókn á tilteknum þáttum tengdum sölunni.

Aðgerðin tekist með ágætum

Bjarni segir að þeim markmiðum sem lagt hafi verið upp með við söluna hafi flestum verið náð og það sé góður árangur.

„Við lögðum upp í upphafi með ákveðið markmið þegar við undirbjuggum það að losa ríkið úr eignarhaldi á bankanum. Þau markmið hafa að hluta til verið lögbundin en við höfum líka verið sammála um að ákveðin atriði hafi verið mikilvæg í ferlinu.“

Það hafi tekist að auka virði á bréfum ríkisins með að skrá bankann, fá dreift eignarhald og fjölbreyttan eigendahóp. Þá hafi virði bankans verið stóraukið en það hafi hækkað um 100 milljarða á síðastliðnu ári.

„Þannig já, ég er þeirrar skoðunar að þegar á heildina er litið hafi sú aðgerð að losa um eignarhald ríkisins á Íslandsbanka tekist með ágætum. Við höfum ná flestum okkar markmiðum. Hins vegar varpar það skugga á þennan árangur að það eru uppi spurningar um framkvæmdina á þessu útboði sem nú er nýafstaðið. Þeim þarf að svara og ég tel að þau mál séu í ágætis farvegi í augnablikinu.“

Ekki verið farið á svig við lög á nokkurn hátt 

Aðferðin við útboðsferlið og söluna hefur hlotið mikla gagnrýni og þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa sagt að verið sé að firra fjármálaráðherra ábyrgð með því að leggja til að Bankasýsla ríkisins verði lögð niður. Einhverjir hafa haldið því fram að mögulega hafi verið farið á svig við lög við söluna.

Aðspurður hvort hann beri ekki ábyrgð í málinu og hvort ekki sé verið að varpa ábyrgðinni yfir á aðra með því leggja niður Bankasýsluna, segir Bjarni mikilvægt að skilja á milli tveggja hluta. Annars vegar að það sé enn verið að ræða framkvæmdina á útboðinu og hins vegar sé það pólitísk ákvörðun um hvernig verði staðið að því til framtíðar að losa frekar um eignarhald ríkisins.

„Það sem við formenn flokkanna höfum sagt í þeim efnum er að við teljum rétt að hinkra með frekari sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka, staldra við og ræða þetta fyrirkomulag í heild sinni. Við sjáum fyrir okkur að leggja til við þingið að fara aðra leið en að nýta Bankasýsluna í framtíðinni. Þetta snýr að framtíðinni og er pólitískt mál.“

 En er ekki ábyrgðin fjármálaráðherra, er ekki ábyrgðin þín á þessu klúðri?

„Hin pólitíska ábyrgð er að sjálfsögðu fjármálaráðherra að setja ferlið af stað, ég stend með því. Ég stend með þeirri sannfæringu minni að ríkið eigi að losa sig úr samkeppnisrekstri og er til í að takast á við pólitíska andstæðinga um það mál hvenær sem er. Það er allskonar hlutum fleygt fram í umræðunni. Sumir halda því fram að lög hafi verið brotin. Ég hef sagt að ég vilji láta kanna það til hlítar og ríkisendurskoðun hefur tekið það til skoðunar. Við þurfum að sýna þolinmæði við að bíða eftir þeirri niðurstöðu en ég held við þurfum ekki að bíða lengi. En ég sé ekki af hálfu fjármálaráðuneytisins að það hafi verið farið á svig við lög á nokkurn hátt.“

Auðvelt að skapa andrúmsloft tortryggni

Bjarni segir pólitíkina í málinu ekki síst snúast um þá pólitísku stefnumörkun að losa ríkið úr samkeppnisrekstri.

„Það er hins vegar alveg ljóst af opinberri umræðu á Íslandi að það er mjög auðvelt að skapa andrúmsloft mikillar tortryggni vegna aðkomu einkaaðila að fjármálafyrirtækjum og það á sér sögulegar skýringar. Það má segja að sumt varðandi framkvæmdina á þessu útboði hafi orðið til þess skapa slíka tortryggni og þess vegna sögðum við í þessari yfirlýsingu sem kom í gær að okkur finnist sem það hafi skort nokkuð að upplýsingagjöf af hálfu Bankasýslunnar og kynningu á fyrirkomulaginu,“ segir Bjarni og vísar þar til yfirlýsingar ríkistjórnarinnar þar sem fram kom að lagt yrði til að Bankasýslan yrði lögð niður.

Hann segir allar ákvarðanir hafa verið teknar að mjög víðtæku samráði við ráðherranefnd, þar sem samstaða hafi verið um að fara þá leið sem var farin. Eftir samtal við Alþingi hafi tvær þingnefndir jafnframt mælt með umræddri leið

„Tillaga Bankasýslunnar um að fara þessa leið lá fyrir i margar vikur áður en útboðið var framkvæmt, en það breytir því ekki að þessi skammi tími og það að útboðið er framkvæmt á örfáum klukkustundum, þar sem erfitt getur reynst að tryggja fullt jafnræði allra, það getur verið mjög viðkvæmt þegar um er að ræða sölu á ríkiseign. En þau atriði áttu öll að liggja fyrir,“ segir Bjarni.

Bankasýslan hafi margoft komið fyrir þingið og fyrir ráðherranefnd og útskýrt hvernig fyrirkomulagið myndi ganga fyrir sig.

„Sumt af þessu sem fram hefur komið er í mínum huga er eftiráspeki en ég tel ekki að framkvæmdin sé hafin yfir gagnrýni, langt því frá. Það eru gallar við þetta sölufyrirkomulag sem hafa birst okkur núna en það þýðir ekki að lög hafi verið brotin.“

Þannig þú lítur ekki á þetta sem klúður?

„Ég er ánægður með heildarniðurstöðuna í þessu verkefni að losa um eignarhald ríkisins á Íslandsbanka, en á sama tíma mjög meðvitaður um að það eru ákveðin atriði varðandi framkvæmdina varðandi framkvæmdina sem þurfa nánari skoðun og svo skoðun er í gangi núna. Ég lít svo á að rétt sé að bíða eftir niðurstöðu úr því áður en menn fara að stóra dóma um hvort einhver beri ábyrgð eða hver.“

Kann að vera að þátttakendur hafi ekki uppfyllt skyldur sínar 

Eftir að greint var frá því í gær að ríkistjórnin hefði ákveðið að leggja það til við Alþingi að Bankasýslan yrði lögð niður sendu starfsmenn og stjórn Bankasýslunnar frá sér yfirlýsingu, þar sem fram kom að orðalag yfirlýsingar stjórnarflokkanna um annmarka við framkvæmd útboðsins, hafi komið á óvart.

Bjarni segist virða það sjónarmið stofnunarinnar að hún telji sig í einu og öllu hafa farið að lögum.

„En annars vegar hefur komið fram hjá forstjóra Bankasýslunnar að það kunni að vera að það hafi verið hagsmunaárekstrar hjá söluaðilum. Það eitt og sér er ekki gott mál. Annað er að það hafa verið uppi spurningar hvort nægilega hafi verið tryggt að eingöngu hæfir fjárfestar hafi getað fengið úthlutun. Það er annað mál sem mér sýnist að Seðlabankinn sé að skoða. Ég var ekki ánægður með að það tæki heila viku fyrir Bankasýsluna einfaldlega að afhenda mér niðurstöðu úthlutunar. Mér fannst það mjög mikill seinagangur og allan þann tíma var ákall um frekari upplýsingar. Þannig ég held að yfirlýsing okkar standi bara fyllilega um að það hafi verið krafa um meira gagnsæi og betri upplýsingagjöf heldur en varð niðurstaðan og meðal annars valdið því að ákveðin tortryggni hafi skapast.“

Hann segir Bankasýsluna því auðvitað bera einhverja ábyrgð.

„Auðvitað ber stofnunin sem falið er að framkvæma útboðið ábyrgð á því að framkvæmdin heppnist vel. Það er ekki spurning. Henni er falið sérstakt hlutverk um að tryggja gagnsæi og góða upplýsingagjöf og ég held að þar hefði mátt takast betur til. En ég er ekki að fullyrða að það hafi verið farið á svig við lög. Það kann að vera að aðrir aðilar, þátttakendur í útboðinu, hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningum. Þetta eru allt þættir sem er ekki tímabært að úttala sig um, heldur eru til skoðunar.“

Bjarni segist hafa upplýst stjórnarformann Bankasýslu ríkisins um að það mætti eiga von á yfirlýsingu þar sem fram kæmi að lagt yrði til við Alþingi að stofnunin yrði lögð niður.

 Stoltur og tilbúinn að mæta í umræðu 

„Ekkert af þessu breytir því að þegar við skoðum það hvað við ætluðum okkur að gera þegar við losuðum eignarhlut ríkisins í bankanum, þá höfum við verið að ná þeim markmiðum skref fyrir skref,“ segir Bjarni.

Aðspurður hvort hann sjái ástæðu til að íhuga sína stöðu og jafnvel segja af sér, segist hann ekki gera það. Hann telji margt af því sem sagt hafi verið um þetta mál sé einfaldlega rangt.

„Ég hef haft aðkomu að þessu máli alveg frá því við því við vorum að vinna að því að losa höftin. Þá tókum við þennan banka yfir endurgjaldslaust, 95 prósent hlut í honum, og höfum í millitíðinni skapað 300 milljarða virði fyrir ríkissjóð. Það eru hlutir sem ég er mjög stoltur af og er tilbúinn að mæta í umræðu um það hvar og hvenær sem er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert