Fyrst lögðust trén í eina átt og svo í hina

Fimm voldug reynitré í garðinum hjá Aðalheiði Borgþórsdóttur, íbúa á Seyðisfirði, lögðust á hliðina í aftakaveðri helgarinnar. Fyrst lögðust þau í eina átt, síðan breyttist vindáttin og þá lögðust þau í gagnstæða átt. Á tímabili óttuðust þau hjónin um húsið.

„Fyrst þá sneri áttin þannig, eins og við köllum það, út eftir, og þá lögðust þau á hliðina út eftir og svo meira og minna allan daginn þá rúlluðu þau um, sérstaklega eitt tréð. Maður áttaði sig ekki alveg á því hvar það ætlaði að enda. Við héldum að það ætlaði á húsið en það slapp nú og þá lagðist það inneftir á endanum og rifnaði alveg upp úr,“ segir Aðalheiður.

Á myndbandinu hér fyrir ofan má sjá hvernig trén hafa lagst á aðra hliðina. Í tísti sem sonur Aðalheiðar deildi má sjá hvernig þau færðust yfir á hina hliðina þegar líða fór á daginn.

Þrátt fyrir sérlega slæmt veður um helgina segist Aðalheiður hafa upplifað svipað áður. „Svona tvisvar sinnum áður fuku hús, gámar og bílar,“ segir hún og bætir við létt í bragði:

„Ég man alveg eftir svona veðri. Ég er orðin það gömul.“

Aðalheiður minnist á að einu sinni á áttunda áratugnum hafi lögreglustöðin fokið öll í heilu lagi. Þá sprakk einnig sjoppa á staðnum og sælgætið fauk um allar götur. Hún bætir við að stundum sé eins og hálfgerður hvirfilvindur komi inn í fjörðinn.

Aðspurð segist Aðalheiður sjá mjög mikið eftir trjánum. „Ef ég á að segja alveg eins og er, þegar ég kom niður um morguninn og horfði á trén og þetta mikla hvassviðri að þá var tilfinningin einhvern veginn að þeim liði illa.“

Hvassviðrið hafi varað lengi

Ólíkt fyrri óveðrum segir Aðalheiður veður helgarinnar hafa varað ansi lengi. „Það er kannski það eina sem er öðruvísi en maður þekkir að þetta ofboðslega mikla hvassviðri er búið að standa svo lengi,“ segir Aðalheiður og bætir við að hún hafi fyrr í dag farið út til að bjarga listaverki og hafi nánast tekist á loft með því.

Ummerki um aftakaveður helgarinnar má sjá hér og þar á Seyðisfirði. Aðalheiður segir talsvert mikið af brotnum trjágreinum úti um allan bæ og alls konar drasl. Þá séu sennilega mjög margar ruslafötur foknar út á sjó.

Aðalheiður segist ekki hafa orðið fyrir neinu öðru tjóni fyrir utan trén fimm sem lögðust á hliðina. „Við teljum okkur hafa sloppið mjög vel,” segir hún og bætir við að hún viti til þess að rúður hafi brotnað hjá mörgum. Svo hafi orðið stórkostlegt tjón á Angró, það sé það mesta sem hún viti um en aftur á móti sé „alls konar tjón út um allt”.

Trén í garði Aðalheiðar fóru upp með rótum.
Trén í garði Aðalheiðar fóru upp með rótum.
mbl.is