Hlaup hafið og gæti náð hámarki á morgun

Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls.
Í forgrunni sjást Grímsvötn og þverhníptir hamrar Grímsfjalls. mbl.is/RAX

Hlaup er yfirstandandi undir Grímsvötnum en ekki er búist við því að það komi fram undan jöklinum fyrr en seinnipartinn á morgun eða aðfaranótt föstudags þegar það nái hámarki.

Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, var þetta niðurstaða fundar vísindamanna Veðurstofunnar og Háskóla Íslands í morgun.

Lengri tíma að finna sér farveg

Einar segir hlaupið ekki vera næstum því jafnstórt og flæddi í desember í fyrra og getur það því tekið lengri tíma að finna sér farveg undir jöklinum.

GPS-mælir Veðurstofunnar í Grímsfjalli hefur lækkað um sjö metra en íshellan sjálf hefur lækkað meira þar sem mælirinn er ekki í miðri bungunni.

Fluglitakóðinn yfir Grímsvötnum verður áfram gulur á meðan þessi staða er uppi. „Við sjáum engar breytingar á jarðskjálftavirkni eða jarðvirkni á svæðinu eins og er en við vöktum þetta náið,“ segir Einar og bætir við aðspurður að ekki sé hægt að útiloka gos.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert