Hópsýking og minnst einn á spítala

Minnst einn aldraður einstaklingur var lagður inn á sjúkrahúsið á …
Minnst einn aldraður einstaklingur var lagður inn á sjúkrahúsið á Akureyri mbl.is/Þorgeir Baldursson

Að minnsta kosti einn var lagður inn á sjúkrahús eftir að nóróveirusýkingar varð vart á hóteli á Austurlandi á fimmtudag. Samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands eru minnst tólf sýktir.  

Verst kom sýkingin niður á tveimur hópum. Annars vegar eldri borgurum úr Skagafirði og frá Akureyri sem dvöldu á hótelinu og hins vegar hópi ferðamanna sem átti leið hjá áður en haldið var á Norðurland. 

Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga á HSA og umdæmislæknir sóttvarna á Austurlandi, segir að hótelið hafi gripið til viðeigandi ráðstafana og sótthreinsað staðinn. 

„Það vildi svo heppilega til að fáir höfðu bókað á hótelinu um helgina en margir eiga bókað eftir helgina,“ segir Pétur. 

Pétur Heimisson
Pétur Heimisson

Starfsfólk hótelsins smitaðist

Hótelstjórinn segir í samtali við mbl.is að hann viti ekki til þess að fleiri smit hafi komið upp síðastliðinn sólarhring.

Sýkingar varð fyrst vart á miðvikudag. Hann segir að veitingastað hótelsins hafi verið lokað tímabundið. Starfsmenn hótelsins hafi verið meðal þeirra sem veiktust.

Örn Ragnarsson, sóttvarnarlæknir úr Skagafirði, segir að ekki hafi komið upp fleiri smit síðasta sólarhringinn í Skagafirði. „Það voru einhverjar innlagnir á Akureyri,“ segir Örn sem þó var ekki með frekari upplýsingar um málið. 

Slæm veikindi

Að minnsta kosti einn einstaklingur úr hópi eldri borgara var lagður inn á spítala á Akureyri eftir að hann kom að austan. Samkvæmt upplýsingum mbl.is var um slæm veikindi að ræða. Ekki fengust upplýsingar frá sjúkrahúsinu um líðan sjúklingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert