„Það hefur ekkert verið gert“

Vöru- og fólksflutningabifreiðum er ekki lengur heimilt að aka yfir …
Vöru- og fólksflutningabifreiðum er ekki lengur heimilt að aka yfir brúna við Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Kinn. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Mér þykir óskiljanlegt að samgöngum á svæðinu sé svona að komið,“ segir Örlygur Hnefill Jónsson, lögmaður, fyrrverandi varaþingmaður og fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, um stöðu samgangna á Norðausturlandi, í samtali við Morgunblaðið.

Þann 1. júní síðastliðinn tóku nýjar reglur gildi um akstur yfir brúna sem liggur yfir Skjálfandafljót við Ófeigsstaði í Köldukinn. Brúin er nú einungis opin fólksbílum, en vöru- og fólksflutningabifreiðum er óheimilt að aka yfir brúna og þurfa þess í stað að aka hringveginn, um Fljótsheiði og Aðaldalsveg, en sú leið er 5,5 kílómetrum lengri.

Örlygur telur mikilvægt að Skjálfandafljót sé vel brúað, og þá sérstaklega með vegstyttingu að leiðarljósi. „Brúin var reist árið 1935 að undirlagi Jónasar frá Hriflu en síðan þá hefur lítið breyst. Í dag höfum við ekkert nema ónýta brú sem er verið að loka. Þessi brú þjónar því mikilvæga hlutverki að tengja Akureyri við Húsavík, sem og aðra byggð austan Húsavíkur. Með því einu að draga beina stefnu frá Ljósvetningabúð til Húsavíkur væri hægt að stytta leiðina frá Akureyri til Húsavíkur um sjö kílómetra.“

Verklok áformuð 2028

Þungaflutningar höfðu áður verið takmarkaðir um brúna á meðan hún var styrkt, í framkvæmdum árin 2015 til 2016. Nú eru framkvæmdir við hana á dagskrá hjá Vegagerðinni árið 2026 og er undirbúningur verksins í gangi. Er stefnt að því að ný brú verði tekin í notkun árið 2028. Þeim áformum fylgja hugmyndir um vegstyttingu og að færa brúna norðar.

Örlygi þykir umbætur á innviðum Norðausturlands orðnar tímabærar fyrir löngu síðan.

„Greiðar samgöngur um land allt spila lykilhlutverk í ábyrgri byggðastefnu og sjálfbærri nýtingu auðlinda og atvinnutækifæra. Það hefur ekkert verið gert í vitrænni vegstyttingu fyrir norðurleiðina. Ég hef vakið athygli á málinu í áratugi, m.a. í formi fyrirspurna á Alþingi sem snúa að samgönguumbótum á svæðinu.

Með vitrænni vegstyttingu væri hæglega hægt að stytta leiðina um 50-60 kílómetra. Ábyrg byggðastefna í landshluta eins og Norðausturlandi skiptir sköpum fyrir íslensku þjóðina.Tekjumöguleikar af Demantshringnum einum ættu að nægja til að sannfæra fólk um mikilvægi þess að styrkja innviði á svæðinu,“ segir Örlygur.

Við Demantshringinn, sem er 250 kílómetra langur, eru fimm lykiláfangastaðir; Goðafoss, Mývatn, Dettifoss, Ásbyrgi og Húsavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert