„Eitt versta dæmi forræðishyggju sem við höfum séð lengi“

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, ræddi við mbl.is …
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, ræddi við mbl.is um frumvarpið. Samsett mynd

Samtök iðnaðarins og Samtök fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni lýsa þungum áhyggjum af frumvarpi um upplýsingar um birgðastöðu lyfja og lækningatækja, sem lagt hefur verið fram á Alþingi.

Samtökin tvö segjast mjög vonsvikin með vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins í tengslum við gerð frumvarpsins og leggjast alfarið gegn samþykki þess.

Með frumvarpinu er leitast við að tryggja að ekki komi til skortur á nauðsynlegum lyfjum og lækningatækjum hér á landi. Í því er gert ráð fyrir því að ríkið tryggi vöktun á mikilvægum lyfjum og lækningatækjum.

Kemur þar fram að öll lækningatæki og lyf séu talin mikilvæg því óljóst sé hvað teljist nauðsynlegt á hverjum tíma. Því standi til að koma upp upplýsingakerfi þannig að hægt sé að vakta birgðastöðu allra lyfja og lækningatækja í rauntíma, allt frá krabbameinslyfjum til plástra og smokka.

Óljóst hvernig þetta eigi að hjálpa í neyð

SI og SLH telja heilbrigðisráðuneytið ekki hafa sýnt fram á nauðsyn þessara krafa.

„Þarna eru íþyngjandi kröfur lagðar á tugi eða hundruð fyrirtækja, án þess að haldbær rök liggi fyrir um það hvernig þetta eigi að þjóna markmiðum um hvernig eigi að bregðast við neyð.“

Þetta segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í samtali við mbl.is. Frumvarpið skilar engum ávinningi að sögn Sigríðar. Alls óljóst sé hvernig reglur af þessu tagi eigi að hjálpa ef kæmi til neyðarástands. 

„Við munum berjast gegn þessu af fullum þunga,“ segir hún og bendir á að samtökin skilji vel þá afstöðu að tryggja birgðastöðu lyfja, en það sé ekki það sem þau setji sig upp á móti.

„Við skiljum markmiðin og erum ekki á móti þeim, en leiðin að þeim er alveg galin og mun ekki skila árangri.“ 

Frumvarpið fari út fyrir öll skynsamleg mörk

Sigríður segir að best væri ef málið færi aftur á byrjunarreit. Samtök iðnaðarins séu reiðubúin í samtal um hvernig hægt væri að tryggja öryggi landsmanna, kæmi til neyðarástands. 

„Iðnaðurinn mun ekki láta sitt eftir liggja ef upp kemur neyð. En það hvort við vitum nákvæmlega hve miklar birgðir af íbúfeni eða öðrum lausasölulyfjum eru í einhverju apóteki mun ekki skipta miklu þegar upp er staðið,“ segir hún.

„Framleiðendur og innflytjendur lyfja eru fyrstir til að bregðast við skorti, það þarf ekki stjórnvöld til að tjá þeim það. Þetta er eitt versta dæmi forræðishyggju sem við höfum séð í langan tíma. Frumvarpið fer í heild sinni langt út fyrir öll skynsamleg mörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert