Það liggur í loftinu að sleppa nöglunum

Mengunarský yfir höfuðborginni.
Mengunarský yfir höfuðborginni. mbl.is/Árni Sæberg

Reykjavíkurborg hvetur ökumenn til að hugsa sig tvisvar um áður en nagladekk fara undir ökutæki og leita fremur að góðum vetrardekkjum.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að það sé ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það sé óæskilegt á götum borgarinnar.

Ónegld dekk fá háa einkunn

Settur hefur verið í loftið upplýsingavefur um nagladekk í Reykjavík þar sem meðal annars kemur fram að ónegld dekk fái háa einkunn á vetrardekkjaprófum.

Í vetrardekkjakönnun sem unnin var af NAF í Noregi, systurfélagi Félags íslenskra bifreiðaeigenda, hefur komið fram að ónegld vetrardekk séu fullgildur kostur með tilliti til aksturseiginleika, hraða (grips), hemlunar, hávaða, rásfestu og aksturstilfinningar.

Tilteknar eru sérstaklega nokkrar tegundir naglalausra vetrardekkja sem hafa skorað hátt í könnuninni eða frá 83-89 stigum af 100 mögulegum.

  • Continental Viking- Contact 7
  • Goodyear ultragrip artic 2
  • Michelin x-ice snow.

Nagladekk slíta malbiki hraðar

Nagladekk slíta malbiki margfalt meira en naglalaus vetrardekk og flýta fyrir djúpum raufum í malbikið sem getur skapað hættu að því er fram kemur í tilkynningunni. Nagladekk skapa einnig hávaða sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að velja góð vetrardekk í staðinn og þá auka þau eldsneytiskostnað bifreiða eins og segir í tilkynningunni.

„Mikilvægt er því að draga úr hlutfalli slíkra nagladekkja á götum borgarinnar, því þau valda svifryki sem leggst í öndunarfæri og lungu fólks.“

Vikið er að dýpt mynsturs sem hefur áhrif á hversu gott grip dekkja er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða og segir í tilkynningunni að það dugi mjög vel í Reykjavík.

  • Bíll á nagladekkjum slítur malbiki og myndar svifryk allt að 40 sinnum hraðar en bíll á ónegldum vetrardekkjum.
  • Allt að 67 ótímabær andlát árlega má rekja til svifryks. Nagladekkjanotkun vegur einna þyngst í myndun þess.

Það liggur því í loftinu að sleppa nöglunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert