Nær stærðargráðu Holuhrauns heldur en Geldingadala

Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði við Há­skóla Íslands …
Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði við Há­skóla Íslands og Sundhnúkagígaröðin. Samsett mynd

Þær miklu færslur og kvikuhreyfingar sem mælst hafa í nágrenni Grindavíkur í gær og nótt benda ekki til eldgoss af svipaðri stærðargráðu og var í kringum Fagradalsfjall síðustu þrjú ár, heldur mun frekar einhvers af þeirri stærðargráðu sem sást í Holuhrauni árið 2015. Þetta segir Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla- og berg­fræði við Há­skóla Íslands.

Í gær hófst á ný mikil skjálftahrina og miklar jarðskorpuhreyfingar. Sást það hvað best þegar Grindavíkurvegur fór í sundur. Síðar í gærkvöldi var ákveðið að rýma Grindavík eftir að gögn úr mælitækjum og gervitunglum sýndu að allar líkur væru á að það væri að myndast öflugur og nokkuð stór kvikugangur frá því svæði þar sem skjálftarnir voru að myndast og í áttina til Grindavíkur. Er það frá Sundhnúkagígaröðinni norðan við Grindavík og suðvestur og út í sjó.

„Þetta eru mjög stór­ar færsl­ur, þetta eru færsl­ur sem við sjá­um ekki oft,“ sagði Benedikt Gunnar Ófeigsson, sér­fræðing­ur Veður­stof­unn­ar í jarðskorpu­hreyf­ing­um, við mbl.is í gær og bætti við: „Lík­lega eini sam­an­b­urður­inn sem við get­um gert núna er Bárðarbunga. Það er eini at­b­urður­inn sem við höf­um séð með svona stór­ar færsl­ur.“

„Gæti verið af svipaðri stærðargráðu og Holuhraun“

Þorvaldur tekur í svipaðan streng í samtali við mbl.is. „Það sem er verið að hugsa núna og menn eru að átta sig á. Þetta gæti verið eitthvað af svipaðri stærðargráðu og Holuhraun 2015.“ Til upprifjunar var Holuhraunsgosið stærsta hraungos á þessari öl og annað hvort það stærsta eða næst stærsta hraungos frá Skaftáreldunum 1783 að sögn Þorvalds. Minnir hann á að þeim fylgdu svokölluð Móðuharðindi.

Þorvaldur tekur fram að þetta sé versta sviðsmyndin, en samt eitthvað sem þurfi að hafa í huga.

Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík.
Sundhnúkagígaröðin liggur í suð-suðvestur að Grindavík. Ljósmynd/Siggi Anton

„Frekar flókin sprunga“

Sundhnúkagígaröðin er gígaröð sem er yfir 7-10 km kafla, en syðsti hluti hennar er ekki nema um 800 metra norður af Grindavík. Þorvaldur segir að ekki sé alveg vitað hvort hún hafi myndast í einu gosi eða fleirum, en að fræðimenn hafi hingað til talið að hún hafi myndast í einu gosi. Þetta sé hins vegar „frekar flókin sprunga.“

„Ég er ekki að segja að þessi sprunga opnist öll í einu núna, en það er ein sviðsmyndin. Og ef hún opnast eins og skjálftarnir eru að dreifast, þá mun þetta lengjast út í sjó,“ segir Þorvaldur. „Þá er næsta víst að við fáum öskugos, en ekki það að það verði mjög aflmikið,“ bætir hann við um hvað gerist ef gossprungan væri á grunnsævinu. Segir hann að í slíku gosi yrði gjóskufall á landi, en að gjóskan yrði þéttust við gíginn og þynnist svo mjög hratt.

Sprunga frekar en einn gígur

„Gefum okkur að allir þessir skjálftar hafi orðið vegna kviku á hreyfingu, þá er þetta náttúrulega orðið sprunga,“ segir Þorvaldur um þá þróun sem hefur átt sér stað síðasta sólarhringinn. „Kvikan geti því verið að flæða bæði upp, en einnig lárétt. Farið frá þeim stað þar sem hún hafi safnast saman undanfarnar vikur við Þorbjörn og suður undir Grindavík og undir grunnsævið.“

Til að lýsa þessu nánar segir hann: „Ef þú hugsar þér geymslutank sem þú safnar í og svo opnast úr honum sprunga sem er bæði upp á við og lárétt, þá hefur hún verið að færa sig þarna suður eftir og kvika kemur inn í sprunguna og fyllir hana jafnt og þétt.“

Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að …
Horft úr norðri yfir Sundhnúkagígaröðina, sem liggur til suðurs að Grindavík. Stóra-Skógfell, Sýlingafell og Þorbjörn hægra megin við miðju. Sundhnúkagígaröðin er samtals 7-10 km löng. Ljósmynd/Siggi Anton

Samanburður milli Holuhrauns og Geldingadala

Spurður nánar út í samanburðinn við Holuhraunsgosið segir Þorvaldur að í stærri gosum séu fyrstu dagarnir jafnan mun öflugari. Nefnir hann að í Holuhraunsgosinu hafi framleiðnin fyrstu 10 dagana verið frá 200 upp í næstum því 600 rúmmetra á sekúndu. Til samanburðar var framleiðnin í Geldingadalsgosinu 4-8 rúmmetrar á sekúndu. „Það væri því hundraðföld aukning í afli,“ segir hann.

Varðandi stærðina hafi Holuhraun orðið 1,2 rúmkílómetrar á móti 0,1 rúmkílómetra í Geldingadölum. Þar spili samt mest inn lengd gossins.

„Þetta er það sem menn eru að velta fyrir sér. Það er líklegt að ef þetta gos verði aflmeira verði það einhverstaðar á þessu bili og mín ágiskun er 300-400 rúmmetrar á sekúndu og stærðin í kringum 0,5 rúmkílómetra. En það færi allt eftir lengd gossins.“ Þetta lesi hann út úr gögnunum  landris, skjálftavirkni og kvikusöfnun undanfarið.

Bendi Þorvaldur á að landris á Þorbjarnarsvæðinu hafi verið 8 mm á dag þegar það var upp á sitt mesta, en í Kröflu hafi það verið 5 mm á dag þegar það var upp á sitt mesta. „Þetta er því aðeins meira en það,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert