Óréttlátt að flokka sorgina eftir meðgöngulengd

Ingunn Sif Höskuldsdóttir formaður Gleym mér ei.
Ingunn Sif Höskuldsdóttir formaður Gleym mér ei. Ljósmynd/Aðsend

Gleym mér ei styrktarfélag fagnar ákvörðun heilbrigðisráðherra um að tryggja foreldrum sem verða fyrir fósturmissi á öðrum þriðjung meðgöngu kost á heimavitjun frá ljósmóður. Um er að ræða mikla bót fyrir þennan hóp foreldra sem fær að öðru leyti lítinn stuðning eftir missi.

Félagið var stofnað haustið 2013 með það að markmiði að styðja betur við foreldra sem missa á meðgöngu og í eða eftir fæðingu. Þá er tilgangur félagsins að styrkja málefni tengd missi barna svo að lítil ljós fái að lifa áfram í minningunni.

Stóru markmiði náð

Ingunn Sif Höskuldsdóttir, formaður Gleym mér ei, segir stóru markmiði hafa verið náð, enda um að ræða málefni sem félagið hefur barist fyrir í mjög langan tíma. Er það vegna þess að hingað til hafa foreldrar og fjölskyldur sem missa á öðrum þriðjung meðgöngunnar verið sendir heim af spítala eftir fæðingu án eftirfylgni, segir Ingunn.

Hins vegar hefur það verið þannig að ef foreldrar missa eftir 22. viku þá hefur þeim boðist heimaþjónusta, auk þess sem Landspítalinn býður upp á stuðningshóp í framhaldinu, segir hún og undirstrikar hversu gríðarlega mikill munur hafi verið þar á.

„Við sem lifum og hrærumst í þessum heimi vitum að flokkun á missi eftir meðgöngulengd, þetta með að þú sért komin svona langt og þá sé þetta svona erfitt eða sorgin svona djúp, að það er ekki staðreyndin,“ segir Ingunn en bætir við að vitaskuld sé það persónubundið og allskonar hvernig fólk upplifir sorgina. Langoftast sé þó um að ræða erfiðustu reynslu sem foreldrar ganga í gegnum.

Viðmiðið gripið úr lausu lofti

Þótt stórum áfanga hafi verið náð er Gleym mér ei hvergi nærri hætt í sinni baráttu. Samhliða hefur félagið unnið að því að ná í gegn öðru verklagi, hugsað fyrir þá sem missa enn þá fyrr, og lítur jafnframt að eftirfylgni.

Verklagið snýr að því að ljósmóðir hafi samband símleiðis eftir missi fyrir 12. viku, en Ingunn segir eftirfylgnina grundvallast af því að foreldrar séu komnir í tengsl við heilsugæsluna vegna meðgöngunnar.

Auk þess bindur félagið miklar vonir við að sorgarorlof verði miðað við missi allt frá tólftu viku, en í dag miðast leyfið við missi frá 18. viku.

„Viðmiðið 18 vikur var á sínum tíma gripið úr lausu lofti. Við lítum svo á að sorgarleyfið eigi að minnsta kosti að miðast við 12 vikur, en eftir þá meðgöngulengd þarf fólk að ganga í gegnum fæðingu,“ segir Ingunn sem bætir við að félagið hafi fundað með viðeigandi ráðherrum í vor og mætt mjög jákvæðum viðhorfum.

Mikilvægt að úrvinnslan fái að vera heilbrigð

Hún segir málefnið lýðheilsumál og að öll vinna sem Gleym mér ei vinni miðist að því að fólk fái að ganga í gegnum erfiða sorgarreynslu og áföll á sem heilbrigðastan hátt.

„Þetta verður ekkert minna erfitt, við getum ekki komið í veg fyrir að þetta verði hræðilega erfitt, en það er markmiðið að úrvinnslan fái að vera heilbrigð og til þess þar fólk stuðning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert