Troðfullar sorptunnur ekki „dularfullt vandamál“

Troðfullar sorptunnur í borginni eru ekki dularfullt vandamál heldur eiga …
Troðfullar sorptunnur í borginni eru ekki dularfullt vandamál heldur eiga þær sér einfalda skýringu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hirða á plast- og papparusli er á eftir áætlun í Vesturbæ og Miðborg hjá Reykjavíkurborg. Aukið álag er yfir jól og áramót hvað sorphirðu varðar en ekki er talið að um dularfullt vandamál sé að ræða. 

Þetta kemur fram í skriflegum svörum frá Reykjavíkurborg um sorphirðu í borginni. 

Í spjallþræði á Facebook í gær veltu íbúar því fyrir sér hvers vegna tunnurnar væru svo fljótar að fyllast og töldu einhverjir eitthvað dularfullt á seyði, eins og að ferðamenn sem dvelja yfir hátíðirnar í íbúðum í skammtímaleigu fylltu tunnurnar af rusli. 

Í svari frá Gunnari Hersveini Sigursteinssyni, verkefnastjóra miðlunar hjá Reykjavíkurborg, segir að sorphirðubílar séu nú á ferð um Vesturbæinn og fari því næst í miðborgina og Hlíðar. 

Fjöldi ferðamanna og mikil umferð

Segir hann álagið geta skýrst af fjölda gesta á svæðinu, bæði innlendra og erlendra ferðamanna, yfir hátíðirnar. 

„Gisting eins og í Airbnb og fleira gæti skýrt notkun óviðkomandi á tunnum við heimili. Önnur skýring gæti verið vörusendingar af netinu, vörur sem oft eru í töluverðum umbúðum,“ segir í svari hans og ítrekar hann að mikilvægt sé að brjóta pappa vel saman. 

Tafir á sorphirðu á pappa og plasti yfir hátíðirnar rekur hann til mikillar umferðar á götum fyrir jól.

„Sorphirða Reykjavíkur vill minna á að endurvinnslustöðvar Sorpu eru opnar í dag, gott að fara með stærri umbúðir þangað,“ segir í svari hans enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert