„Veit í raun enginn hvað gerist inni á þessu svæði“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is að reynt sé að tryggja eins öruggar aðstæður og mögulegt er við leitina á manninum sem féll ofan í sprungu í Grindavík.

Miklar jarðhræringar eru á Reykjanesskaganum og þá ekki síst í og við Grindavík. Magnús Tumi Guðmundsson, prófessors í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði á dögunum við Vísi að ekki væri útilokað að gossprungur opnist innan bæjarmarkanna.

Tryggja öryggi eins og kostur er

Spurður hvort það sé of mikil áhætta fyrir viðbragðsaðila að leita að manninum miðað við hvernig að aðstæður séu á svæðinu, saga um jarðhræringar og hætta á grjóthruni segir Úlfar að reynt sé að tryggja öryggi björgunaraðila eftir fremsta megni.

„Við vinnum þetta bara með eins öruggum hætti og nokkur kostur er. Það veit í raun enginn hvað gerist inni á þessu svæði, þannig hefur staðan nú verið til margra vikna og mánaða,“ segir Úlfar og bætir við:

„Þannig vinna Íslendingar flest alltaf. Við reynum að tryggja öryggi þeirra sem koma að björgunarstarfi eins og nokkur kostur er.“

Leita fram eftir nóttu ef þess þarf

Úlfar segir að áfram verði leitað að manninum, sem er Íslendingur, og að búið sé að gera ráðstafanir til að halda þeirri vinnu gangandi fram eftir nóttu ef þess þarf.

„Það er bara stöðugt verið að vinna í niðri í sprungunni við það að leita af manninum. Það er bara stöðug vinna í gangi,“ segir Úlfar.

Þannig virkar aðgerðin að einn til tveir menn síga niður í sprung­una í einu og leita í 10-20 mín­út­ur í senn í krefj­andi aðstæðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert