Vinna að því að moka frá jarðvegsþjöppunni

Frá björgunaraðgerðum í Grindavík í dag.
Frá björgunaraðgerðum í Grindavík í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leitin að manninum sem féll niður í sprungu í Grindavík í gær hefur enn ekki skilað neinum árangri. Hún hefur staðið yfir sleitulaust frá því um hádegisbilið í gær.

Meðal þeirra sem taka þátt í björgunarstörfunum eru menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra.

„Þarna eru á ferðinni vanir sigmenn og þeir hafa einnig yfir að ráða þessum neðanvatnsdróna. Það er þeirra innkoma í þetta starf,“ segir Hjálmar Hallgrímsson lögreglumaður sem fer með aðgerðastjórn á leitarstaðnum í Grindavík, spurður hvert hlutverk sérsveitarinnar sé.

Vonandi frekari fréttir þegar líður á daginn

Hann segir að sérsveitarmennirnir fari niður í sprunguna til jafns við þá fagmenn sem fara niður, en það eru aðilar sem eru vanir hellamenn og að vinna á sprungusvæðum.

Hjálmar Hallgrímsson fer með aðgerðastjórn á leitarstaðnum í Grindavík.
Hjálmar Hallgrímsson fer með aðgerðastjórn á leitarstaðnum í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem leitað er að vann við jarðvegsþjöppun eftir sprungufyllingu í Grindavík í gær.

„Þetta eru erfiðar aðstæður sem er verið að vinna í. Þá er gott að geta skipt út mönnum sem fara niður. Nú stendur yfir vinna við að moka frá jarðvegsþjöppunni sem fannst í gær og það tekur tíma,“ segir Hjálmar.

„Ég vonast innilega eftir því að við fáum einhverjar frekari fréttir þegar líður á daginn, en ég veit ekki hvort þær verða góðar eða ekki. Við erum með það verkefni núna að hreinsa aðeins til. Leit að manninum er í fullum gangi en gengur hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert