Grunuð um að hafa ráðið barni sínu bana

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Konan sem er í haldi í tengslum við andlát sex ára barns á Nýbýlavegi er móðir drengsins. Þá er málið rannsakað sem manndráp að sögn Gríms Grímssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

„Konan er grunuð um að hafa ráðið drengnum bana,“ segir Grímur.

Konan bjó á Nýbýlavegi ásamt tveimur barna sinna. Faðir þeirra er einnig búsettur á Íslandi en býr annars staðar. Þau njóta hér alþjóðlegrar verndar og hafa verið á Íslandi í 3-4 ár að sögn Gríms. Engar upplýsingar eru gefnar um þjóðerni þeirra. 

„Þegar lögregla kemur á staðinn þá er eldra barnið farið í skólann,“ segir Grímur. Er barnið nú í viðeigandi úrræði hjá barnaverndaryfirvöldum. 

Dánarorsök ekki gefin upp

Grímur tjáir sig ekki um það hvernig grunur leikur á að barninu hafi verið ráðinn bani. 

„Við viljum ekkert staðfesta um slík nákvæmnisatriði í rannsókninni,“ segir Grímur. 

Grímur tjáir sig ekki um það hvort móðirin hafi tekið afstöðu til sakargifta. „Það má enginn vera lengur en 12 vikur í gæsluvarðhaldi og við höfum því næstu vikur til að rannsaka málið,“ segir Grímur. 

Sumir yfirheyrðir aftur 

Fjölmargir hafa verið yfirheyrðir vegna málsins. „Almennt er það þannig að allir sem geta gefið einhverjar upplýsingar um málið eru yfirheyrðir og í þessu tilfelli eru langflestir vitni,“ segir Grímur.  

„Ég geri ráð fyrir því að við munum yfirheyra fleiri og að sumir verði yfirheyrðir aftur. Það er viðbúið í svona rannsóknum,“ bætir Grímur við. 

Aðspurður segist Grímur ekki vilja tjá sig um það hvenær talið er að andlátið hafi átt sér stað. Einungis liggur fyrir að móðirin hafi haft samband við lögreglu á miðvikudagsmorgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert