Hvenær „smitast“ vanhæfi yfir á aðra dómara?

Davíð Þór Björgvinsson, starfandi forseti Landsréttar, tekur nú til ákvörðunar …
Davíð Þór Björgvinsson, starfandi forseti Landsréttar, tekur nú til ákvörðunar hvort allur Landsréttur sé vanhæfur í málinu. Á stærstu myndinni er Jón Þór Ólason, lögmaður Lyfjablóms, í forgrunni, en í bakgrunni eru þeir Ragnar Hall og Arnar Már Stefánsson í skikkjum. Er myndin úr aðalmeðferð málsins við héraðsdóm árið 2022. Samsett mynd

Óvenjulegt þinghald átti sér stað í Landsrétti seinni partinn á föstudaginn. Var þar, að frumkvæði þriggja dómara við Landsrétt, farið yfir mögulegt vanhæfi allra Landsréttardómara í máli einu vegna vanhæfis dómara við dómstólinn sem þó var ekki dómari málsins. Tengist þetta störfum dómarans fyrir rúmlega 15 árum síðan, en velt var upp þeirri spurningu hvort upp gæti komið sú staða að dómarar gætu fyllst óhlutdrægni og staðið vörð um starfsheiður dómarans.

Málið sem um ræðir er einkamál sem höfðað var af félaginu Lyfjablómi ehf. gegn fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, en hún situr í óskiptu búi eiginmanns síns heitins, Kristins Björnssonar. Snýr málið í raun að meintum gjörðum Þórðar og Kristins. Í forsvari fyrir Lyfjablóm er svo systursonur Kristins, en þetta er eitt nokkurra mála sem hann og foreldrar hans hafa staðið í vegna örlaga fjölskyldufjárfestingafélagsins sem kennt var við Björn Hallgrímsson.

Þórður og Sólveig voru sýknuð í héraðsdómi fyrir tæplega tveimur árum af samtals 2,3 milljarða kröfu Lyfjablóms, en félagið áfrýjaði málinu til Landsréttar.

Smitast vanhæfi yfir á dóminn í heild?

Þegar loks málið var komið til kasta Landsréttar fengu dómararnir Eiríkur Jónsson, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson það á sitt borð. Fram kom við þinghaldið í dag að lagt hafi verið fram talsvert af nýjum gögnum fyrir Landsrétti. Stuttu fyrir aðalmeðferðina, sem átti að vera nú í janúar, ákváðu dómararnir hins vegar að fresta aðalmeðferð þar sem óljóst var hvort allur Landsréttur gæti mögulega verið vanhæfur í málinu.

Þinghaldið á föstudaginn var því ekki af kröfu málsaðila, heldur fékk Davíð Þór Björgvinsson, starfandi forseti Landsréttar, málið á sitt borð þar sem það sneri að meintu vanhæfi alls Landsréttar. Hann sagði við upphaf þinghalds að þetta væri um margt óvenjuleg staða. Dómararnir hefðu komið með málið til sín með þeim rökstuðningi að kanna þyrfti hvort ástæða væri til, vegna afskipta Aðalsteins Jónassonar, núverandi Landsréttardómara, og aðkomu hans að málinu að Landsréttur þyrfti allur að víkja. Spurningin væri „hvort vanhæfi Aðalsteins smitist yfir á dómara og dóminn í heild.“

Teygir sig aftur til áranna fyrir hrun

Ástæða þess að afskipti Aðalsteins eru dregin upp má rekja til þess að hann var á tíma lögfræðingur fjárfestingafélagsins Gnúps, en í málinu er tekist á það hvort háar upphæðir hafi verið teknar út úr félaginu af Þórði og Kristni á árunum 2006 til 2007. Var forveri Lyfjablóms annar af stærstu eigendum Gnúps og í eigu Kristins og þriggja systra hans, áður en Glitnir tók félagið yfir árið 2007. Þórður var hins vegar forstjóri Gnúps á þessum tíma.

Það sem flækti þinghaldið nokkuð var að hvorki lögmaður Lyfjablóms né verjendur þeirra Þórðar og Sólveigar höfðu fengið að sjá rökstuðning fyrir því af hverju dómararnir þrír höfðu óskað eftir því að Davíð Þór myndi úrskurða um mögulegt vanhæfi alls Landsréttar í málinu. Leitaði Davíð Þór eftir afstöðu lögmannanna án þess að þeir gætu í raun tjáð sig nákvæmlega um hvað lægi þar á bak við, enda voru allir málsaðilar nokkuð sammála um hversu óvenjulegt málið væri.

Björn Thorsteinsson er forsvarsmaður Lyfjablóms.
Björn Thorsteinsson er forsvarsmaður Lyfjablóms. mbl.is/Árni Sæberg

Varðar möguleg vinnubrögð Aðalsteins á sínum tíma

Aðalsteinn bar vitni í málinu fyrir héraðsdómi og er þar með sjálfkrafa vanhæfur sem dómari í málinu. Um það var ekki deilt í þinghaldinu. Davíð Þór upplýsti við þinghaldið að dómararnir þrír hafi lagt málið í hendur sínar þar sem uppi væru vafaatriði sem vörðuðu vinnubrögð Aðalsteins á þessum tíma, „að hann hefði ekki staðið sig í stykkinu,“ sagði Davíð Þór varfærnislega.

Tók Davíð Þór fram að rökin væru nokkuð óljós, en því væri haldið fram að dómarar gætu fyllst óhlutdrægni og staðið vörð um starfsheiður Aðalsteins. Verjandi Lyfjablóms, Jón Þór Ólason, tók síðar í þinghaldinu fram að í málinu væri byggt á mögulegri saknæmri og refsiverðri háttsemi þeirra Þórðar og Kristins. 

Margoft var tekið fram við þinghaldið að Lyfjablóm ætti ekki sök við Aðalstein og sagði lögmaður félagsins ítrekað að Aðalsteinn væri maður góður og taldi að hann hefði gert neitt af sér á hlut umbjóðanda síns. Hins vegar fór hann yfir nokkurn fjölda atriði sem gerðu Aðalstein vanhæfan í málinu. Hann hefði í fyrsta lagi verið lögfræðingur Gnúps og komið að fléttunni sem málið snýst um, Þúfubjargsfléttunni, og komið að samningagerð þegar Glitnir yfirtók Gnúp, en þar var sett fram friðhelgi á alla stjórnendur Gnúps. Hann hafi einnig verið lögmaður Þórðar Más þegar slitastjórn Glitnis fór á eftir honum á sínum tíma, án þess að hafa erindi sem erfiði.

Þá sagði lögmaðurinn að framburður Þórðar Más og Aðalsteins í héraði hafi ekki verið í samræmi og því hefði framburður hans gildi í málinu. Deilt er um 1,6 milljarða greiðslur sem Lyfjablóm telur að Þórður hafi fengið úr félaginu án þess að greiða neitt fyrir, en krafan er sem fyrr segir um 2,3 milljarðar.

Það mátti því lesa úr þessu að þó að lögmaður Lyfjablóms teldi sig ekki eiga sök við Aðalstein, þá gæti komið upp sú staða að dómarar stæðu frammi fyrir því að ef þeir dæmdu málið á ákveðinn hátt, þá væru þeir í raun að tengja Aðalstein, samdómara sinn við Landsrétt, við saknæma háttsemi fyrir meira en 15 árum síðan.

Forseti dómsins tekinn sem dæmi

Verjendur Þórðar og Sólveigar, þeir Arnar Þór Stefánsson og Ragnar Hall, töldu báðir að ekkert hefði komið fram sem kallaði á að vanhæfi Aðalsteins myndi „smitast“ yfir á aðra dómara Landsréttar og töldu upp nokkur tilfelli þar sem vanhæfi eins dómara gerði aðra dómara ekki vanhæfa. Vísaði Arnar til þess að Aðalsteinn hafi verið innanhúslögmaður Gnúps, annast fundarstjórn og sent tölvupósta, en að í fljótu bragði gerði hann ekki alvarlegar athugasemdir við störf hans sem leiddu til vanhæfis.

Þá rifjaði Arnar upp fordæmi frá árinu 2019 þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Davíð Þór hafi sjálfur ekki verið vanhæfur til að dæma sem Landsréttardómari í öllum málum íslenska ríkisins, en lögmaður hafði farið fram á að Davíð yrði gert að víkja vegna ráðgjafar sem hann veitti ríkislögmanni á sínum tíma í tengslum við Landsréttarmálið svokallaða, en Davíð Þór var þá ekki Landsréttardómari. Fékk hann 1,5 milljónir greiddar fyrir ráðgjöfina.

Í rökstuðningi Arnar kom einnig fram að ef talið væri að allur Landsréttur væri vanhæfur vegna mögulegs smits út frá vanhæfi annars dómara, þá væri verið að opna Pandóru-box í þessum efnum.

Þórður Már Jóhannesson fjárfestir er annar þeirra sem stefnt er …
Þórður Már Jóhannesson fjárfestir er annar þeirra sem stefnt er í málinu.

Skiptir máli hvernig málið lítur út gagnvart almenningi

Jón Þór var ekki sáttur með afstöðu þeirra Arnars og Ragnars og taldi upp fleiri atriði tengd Aðalsteini og vanhæfi hans. Þannig sagði hann að Aðalsteinn hefði sent ranga tilkynningu, að beiðni Þórðar Más, til ríkisskattstjóra á sínum tíma um lækkun hlutafjár Gnúps og að það sé eitt af þeim atriðum sem tekist er á í málinu. „En það er ekki verið að bera fyrir að Aðalsteinn, hinn góði maður og dómari, hafi gert eitthvað rangt,“ ítrekaði samt.

Sagði Jón Þór að að svo komnu máli væri ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en að skipaðir verði utanaðkomandi dómarar (ad hoc dómarar). Það væri ekki vegna þess að dómararnir þrír sem væru með málið, væru ekki hæfir til að takast á við það, heldur skipti máli hvernig það liti út á við gagnvart almenningi. Vísaði hann þar til forsenda Mannréttindadómstóls Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Vammsemi en á sama tíma frábær

Ragnar taldi skrítið að Jón Þór væri að útlista vammsemi Aðalsteins, en væri á sama tíma að útlista hversu frábær maður hann væri. Ítrekaði hann sjónarmið sín um að hann teldi ekkert komið fram um að mögulegt vanhæfi Aðalsteins „smitaðist“ á aðra dómara.

Davíð Þór rifjaði við lok þinghaldsins upp nýleg dæmi þar sem dómarar hafi verið vanhæfir í sakamáli þar sem árás átti sér stað í héraðsdómi og dómari verið lykilvitni í málinu sem og einhverjir fleiri starfsmenn. Þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að dómarar væru vanhæfir og utanaðkomandi dómarar fengnir.

Davíð Þór boðaði úrskurð í málinu í komandi viku, en bæði Jón Þór og Arnar gáfu til kynna að þeir myndu mögulega kæra niðurstöðuna til Hæstaréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert