Göngufólk ekki verið vandamál hingað til

Virkni í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið nokkuð stöðug síðustu …
Virkni í eldgosinu í Sundhnúkagígum hefur verið nokkuð stöðug síðustu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk sem hyggst ganga að gosstöðvunum við Sundhnúk hefur ekki verið til mikilla vandræða, að sögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum. Lokun Bláa lónsins verður endurskoðuð á morgun.

„Auðvitað kemur það fyrir en það hefur ekki verið vandamál,“ segir Úlfar spurður hvort viðbragðsaðilar hafi þurft að vísa mörgum frá eldgosinu. Hann segir að lokunarpóstarnir hafi haldið fólki frá svæðinu.

„Það er eitthvað sem hefur verið viðráðanlegt hingað til,“ bætir hann við. Hann bendir aftur á móti á að þegar Bláa lónið opnar aftur séu líkur á því að fleiri láti sér detta í hug að ganga að gígunum.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Til skoðunar að leyfa fólki að ganga að gosinu

Kemur eitthvað til greina að leyfa fólki að ganga að gosinu?

„Það er allt til skoðunar en ekki komið að því. Síðan þurfum við náttúrulega að velta fyrir okkar viðbragði. Við höfum staðið lengi í þessu og það gætir auðvitað ákveðinnar þreytu fyrir verkefninu,“ svarar lögreglustjórinn, sem segir að verkefni viðbragðsaðila sé ærið eins og það lítur út í dag:

„Það er gos í gangi, við erum með þessa lokunarpósta, við erum með eftirlit inni á hættusvæðinu og sérstaklega inni í Grindavíkurbæ. Þetta er auðvitað mikil starfsemi, þarna eru píparar að störfum og fleiri sérfræðingar, það er búið að vera mikið í gangi og margir inni í bænum á hverjum tíma frá 10. nóvember. Bærinn er auðvitað mjög laskaður eins og við þekkjum.“

Undanfarið hafa kviknað gróðureldar í kringum hraunbreiðuna en Veðurstofan segir að viðvarandi hætta sé á slíku á meðan þurrt er í veðri.

Endurskoða opnun lónsins á morgun

„Bláa lónið er lokað í augnablikinu. Það er auðvitað til skoðunar eins og margt annað í augnablikinu,“ segir hann.

„Við höfum áhyggjur af gasmengun, gasmengun sem getur truflað starfsemi og veru fólks inni í Grindavík og eins inni í Svartsengi. Viðbragðsaðilar og þeir sem starfa í bænum, fyrirtækjaeigendur, eru auðvitað með hugann við að það verði enginn fyrir alvarlegri gasmengun inni á svæðinu.“

Á vef Bláa lónsins segir að starfstöðvar þess verði lokaðar út fimmtudaginn 4. apríl, sem er á morgun.

Má búast við einhverri ákvörðun um opnun Bláa lónsins á næstu dögum?

„Ég held að Bláa lónið, þeir eru með opið í dag og á morgun. Síðan verður það endurskoðað þá eftir hádegi á fimmtudag. Síðan er það fyrir þann sem stendur í rekstri að vera klár á þessum öryggisatriðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert