Trampólín á ferð og flugi í hvassviðrinu

Samkvæmt dagbók lögreglu voru fimm mismunandi mál á borði lögreglu …
Samkvæmt dagbók lögreglu voru fimm mismunandi mál á borði lögreglu í tengslum við trampólín á ferð og flugi í dag. Myndin er úr safni. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Trampólín og aðrir lausamunir hafa verið á ferð og flugi á höfuðborgarsvæðinu í dag. Svo segir að minnsta kosti í dagbók lögreglunnar. 

Lögreglan hefur fengist við um 90 mál frá því klukkan sjö í morgun. Veðrátta dagsins hefur spilað þar inn í en lögreglunni hefur borist ýmsar tilkynningar vegna fjúkandi byggðarefnis og annarra muna.

Veðrið hefur greinilega komið aftan að trampólíneigendum en að því er fram kemur í dagbók lögreglu voru lögreglumenn kallaðir út víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu til þess að bjarga trampólínum á ferð og flugi.

Réð ekkert við trampólínið í vindinum

Lögreglustöð 2 sem sinnir Hafnafirði og Garðabæ fékk tilkynningu um trampólín sem hefði fokið og hékk í tré. Lögreglumenn kölluðu eftir aðstoð slökkviliða sem tók trampólínið niður. 

Eigandi í hverfi 221 varð vitni að trampólíninu sínu fjúka í átt að húsi nágranna síns og kallaði eftir aðstoð lögreglu.

Eigandi kvaðst ekkert ráða við trampólínið í vindinum. Lögregla fór á vettvang en gat ekki fært það sökum veðurs þó var talið að það myndi ekki ferðast lengra.

Eigandinn sagðist ætla að hafa samband við maka sinn og biðja hann um að taka það í sundur. 

Mikið lá á hjá lögreglustöð 4

Lögreglustöð 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, fékk einnig hringingu í tengslum við trampólín á ferð og flugi, en að þessu sinni hafði það endað í runna. Lögregla mætti á vettvangi og tókst að bjarga málum. 

Mikið lá á þegar lögreglustöð 4 sem sinnir Grafavogi, Árbæ og Mosfellsbæ barst tilkynning um trampólín á ferð og flugi.

Lögregla fór á vettvang á forgangi og staðsetti trampólínið á hvolfi. Lögreglumenn notuðu lögregluborða til að festa trampólínið í stað svo það ylli ekki tjóni á til dæmis fólki, fasteignum og bifreiðum. 

Þá barst lögreglustöð 4 einnig tilkynning um trampólín í eigu húsfélags í Mosfellssveit sem hafi fokið til vesturs. Lögregla fór á vettvang og stöðvaði för trampólínsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert