95 ár frá stofnun Sjálfstæðisflokksins

Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/Alþingi/mbl.is/Kristinn

Í dag eru 95 ár liðin frá stofnun Sjálfstæðisflokksins við sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins þann 25. maí 1929. Sjálfstæðisflokkurinn er næstelsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi og hefur frá stofnun almennt verið stærsti flokkur Íslands.

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði grein í Morgunblaðið í dag af því tilefni þar sem hann sagði flokkinn standa á tímamótum.

„Saga flokksins er samofin sögu lýðveldisins og þeirrar farsældar og framfara sem við höfum mátt lifa. Á fáeinum áratugum umbreyttist Ísland úr einu fátækasta ríki Vestur-Evrópu, sem þáði þróunaraðstoð, í eitt það ríkasta sem nú lætur gott af sér leiða víða um heim. Dugnaður þjóðarinnar og framsýni hafa þar mest að segja, en það voru ekki síður pólitískar áherslur sem lögðu grunninn,“ skrifaði Bjarni.

Flokkurinn mun standa vaktina

Hann sagði að flokkurinn hefði aldrei, og myndi aldrei, skorast undan ábyrgð „þótt oft kynni að vera auðveldara að sitja á hliðarlínunni“. Í greininni skrifar Bjarni að á þessum tímamótum sé hægt að horfa stolt á farinn veg og með bjartsýnum augum til framtíðar.

„Hér eftir sem hingað til mun Sjálfstæðisflokkurinn standa vaktina í íslenskum stjórnmálum af sömu festu, bjartsýni og trú á íslenskt samfélag. Leiðarljósið er ávallt að standa vörð um einstaklings- og athafnafrelsið, sem er grunnurinn að framúrskarandi lífskjörum okkar,“ skrifaði Bjarni.

Fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins var Jón Þorláksson og tók flokkurinn fyrst þátt í ríkisstjórn árið 1932.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert