Fjármagnið svo lítið að það breytir engu

Halla Tóm­as­dótt­ir kvaðst á forsetafundi Morgunblaðsins og mbl.is ekki vera hlynnt því að ís­lensk stjórn­völd styddu vopna­kaup til Úkraínu, sem verst áfram gegn ólög­legri inn­rás Rúss­lands. Hún vildi frek­ar að Ísland fjár­magnaði sáraum­búðir frá Kerecis og stoðtæki frá Öss­uri.

„Ég er hlynnt því að við tök­um alltaf af­stöðu með friði og nýt­um öll okk­ar áhrif til þess að fara fyr­ir friði. Við erum í varn­ar­banda­lagi – varn­ar­banda­lagi er lyk­il­orð – ekki sókn­ar­banda­lagi með Atlants­hafs­banda­lag­inu og það er mín skoðun að við get­um verið þátt­tak­end­ur í því og vest­rænu sam­starfi án þess að leggja fé til vopna­kaupa,“ sagði Halla á forsetafundinum sem var haldinn í Reykjanesbæ í gærkvöldi.

Halla Tómasdóttir á forsetafundinum í Reykjanesbæ í gær.
Halla Tómasdóttir á forsetafundinum í Reykjanesbæ í gær. mbl.is/Brynjólfur Löve

Ekki einfalt mál

Í mars greindi utanríkisráðuneytið frá því að Ísland myndi styðja við inn­kaup Tékk­lands á skot­fær­um fyr­ir Úkraínu og leggja fjár­muni í kaup á búnaði fyr­ir kon­ur í úkraínska hern­um.

„Fjármagnið sem við leggjum til í þessu tilfelli er svo lítið að það breytir engu. Við erum pínulítil þjóð og við getum látið miklu meira finna fyrir okkur með því að velja frið. Ég er ekki að segja að þetta sé einfalt,“ sagði Halla.

Halla er forstjóri B Team og sagði hún að fyrirtæki sem vinna með B Team hafi verið með fyrstu fyrirtækjunum til að yfirgefa Rússland eftir að þeir réðust inn í Úkraínu.

„Það er ekki sjálfsagt að kaupa vopn, það er ekki sjálfsagt og Íslend­ing­ar úti um allt land hafa tekið und­ir með mér,“ sagði Halla.

Getum lyft grettistaki með því að velja frið

Stefán sagði að það þyrfti vopn til að verj­ast Rúss­um og þá sagði Halla:

„Já og það eru marg­ar þjóðir – í raun­inni all­ar – að skipa sér í lið í þessu stríði, í Mið-Aust­ur­lönd­um, í sautján stríðum í Afr­íku og það eru stríð úti um all­an heim. Við get­um verið litla þjóðin sem lyft­ir grett­i­staki í heim­in­um með því að velja frið,“ sagði hún.

Á þriðja hundrað manns mættu á fund­inn.
Á þriðja hundrað manns mættu á fund­inn. mbl.is/Brynjólfur Löve

Horfðu á forsetafundinn í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert