Sáttir við eigin smölun en ekki annarra

Píratar á fundi.
Píratar á fundi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir sem kvörtuðu yfir smölun voru alsælir með að þeirra eigin smölun bar tilætlaðan árangur og að þeirra maður varð sigurvegari,“ skrifar Lilja Magnúsdóttir, fyrr­ver­andi fulltrúi í kjör­dæm­is­ráði Pírata í Norðvest­ur­kjör­dæmi, í grein á Pressunni í dag. Þar ítrekar hún gagnrýni á prófkjör Pírata í kjördæminu og Birgittu Jónsdóttur, þingmann flokksins.

Lilja gagnrýndi prófkjör Pírata fyrr í mánuðinum í bréfi sem hún sendi á fjölmiðla. Þar sakaði hún Birgittu Jónsdóttur um að hafa beitt sér fyrir því að koma Gunn­ari Ingi­berg Jóns­syni, fyrr­ver­andi gjald­kera flokks­ins, ofar á framboðslistann í kjördæminu. Birgitta hefur hafnað þessum ásökunum. 

Frétt mbl.is: Sökuð um að reyna að koma Gunnari á lista

Pistillinn sem Lilja birti í dag ber yfirskriftina „Aðeins meira um prófkjör Pírata í NV kjördæmi.“ og er svar við skrifum Andrésar Helga Valgarðssonar, formanns Pírata í Reykjavík, í Kvennablaðið. Segist Lilja finna sig knúna til að „leiðrétta ýmsar villur sem fram komu í þessari grein og bæta við örlitlum fróðleik.“

Gerði kröfu á að komast ofar á lista

Lilja ítrekar gagnrýnina úr bréfinu og fer yfir atburðarásina, eins og hún lýsir henni, í kjölfar niðurstöðunnar úr fyrra prófkjörinu. Hún segir að óánægja meðal ýmissa innanbúðarmanna hafi fljótlega komið í ljós. 

„Þegar niðurstaða kosningarinnar varð ljós fór að bera á óánægju þeirra Vestfirðinga enda þeirra maður frekar svekktur með sinn hlut og vildi ofar. Kæra vegna smölunar fór í gang og símhringingar fóru að berast. Aðilinn í þriðja sæti sem og aðilinn í fjórða sæti fengu símhringingar frá kosningastjóra og meðlimum framkvæmdaráðs þess efnis að Gunnar Ingiberg gerði kröfu á að komast ofar á lista og menn voru beðnir um að færa sig til í hans þágu.“

Hlutdrægni í greiningu tölfræðinnar

Þá segir Lilja að gegndarlaus áróður hafi byrjað á Facebook-síðum, opinberum sem óopinberum, og að símtöl hafi borist um allt land. Úrskurðarnefnd hafi síðan valið hvaða áliti hún hafi farið eftir þegar tölfræði prófkjörsins var metin. 

Að lokum fór það svo eftir úrskurð úrskurðarnefndar að listinn var felldur. Þess má geta að samkvæmt lögum Pírata er úrskurðarnefnd til þess eins að fjalla um mál þar sem brotið er á lögum Pírata á landsvísu. Kæran snerist ekki um landslög flokksins og með ólíkindum að þar réði mestu, ef rýnt er í textann, álit forritara flokksins sem áður hafði komið sinni skoðun á þessari kosningu á framfæri. Ólafur B. Davíðsson tölfræðingur, sem einnig var fenginn til að meta gögnin, komst að annarri niðurstöðu en forritarinn en það var látið liggja á milli hluta.

mbl.is

Bloggað um fréttina