Magnús Þór framkvæmdastjóri hjá Flokki fólksins

Magnús Þór Hafsteinsson (lengst t.h.) ásamt þremur þingmönnum Flokks fólksins.
Magnús Þór Hafsteinsson (lengst t.h.) ásamt þremur þingmönnum Flokks fólksins. mbl.is/Golli

Magnús Þór Hafsteinsson verður framkvæmdastjóri þingflokks Flokks fólksins. Frá þessu er greint á facebooksíðu flokksins í dag. 

Magnús Þór var þingmaður Frjálslynda flokksins 2003-2007 og bauð sig fram fyrir Flokk fólksins nú í haust, en komst ekki á þing.

Segir í færslunni að Magnús Þór muni starfa náið með þingflokknum sem hafi nú hafið störf og fengið úthlutað þingflokksherbergi.

Enn liggur hins vegar ekki fyrir hvar þingflokkurinn fái skrifstofur í húsakynnum þingsins.

„Skrifstofum verður ekki úthlutað til þingflokka fyrr en ljóst er hvaða flokkar mynda næstu ríkisstjórn. Þingflokkur Flokks fólksins lætur þetta þó ekki standa í vegi fyrir því að ganga til verka. Fundað er nokkrum sinnum í viku þar sem gestum er meðal annars boðið að koma til skrafs og ráðagerða við þingflokkinn. Þetta er liður í því að undirbúa þingstörfin sem hefjast af fullum krafti þegar þing verður boðað saman. Á sama tíma eru þingmenn óðum að kynnast hinum nýja vinnustað,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert