Sósíalistar tali máli Marteins Mosdals

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir flokkinn fá góðar undirtektir í kosningabaráttunni þótt það endurspeglist ekki í skoðanakönnunum. Hann hefur áhyggjur af því að sá glundroði sem birtist á stjórnmálasviðinu muni leiða til þess að of miklar málamiðlanir þurfi að gera við stjórn landsins.

Hann segir „Reykjavíkurmódelið“ úr borgarstjórn ekki gott og að það hafi ekki skilað árangri.

„Í þessu ljósi hlýtur stærsti flokkurinn að geta boðið sig fram sem kjölfesta fyrir færri flokka stjórn en þetta sýður sig allt niður í það að ef við náum okkur ekki betur á strik, ef við náum ekki þeim markmiðum sem við erum að sækja í þessum kosningum, þá eru stórauknar líkur á að við fáum einmitt það. Það sem ég kalla einfaldlega glundroða á þingi og í ríkisstjórn.“

Bjarni Benediktsson situr fyrir svörum í Dagmálum í dag.
Bjarni Benediktsson situr fyrir svörum í Dagmálum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segist vona að fólk taki yfirvegaða ákvörðun í kjörklefanum og taki það hátíðlega að greiða atkvæði, sennilega meira svo en þegar svarað er í könnunum, hvort sem það er í gegnum síma eða á netinu.

„Okkar verkefni er að draga fram þá valkosti sem til staðar eru. Þeir eru mjög skýrir; annaðhvort erum við áfram í ríkisstjórn og höfum áhrif á þinginu og í stjórnarsáttmála og við stjórnarmyndunina, við ríkisstjórnarborðið, hvort sem það eru mál sem við sjáum fyrir okkur núna, önnur sem koma upp á kjörtímabilinu, eða þá að það verður stefnubreyting. Það verður stefnubreyting í átt til hærri skatta, meiri ríkisútgjalda og minni stöðugleika. Ég segi fullum fetum að slík stjórn muni missa tökin á efnahagsmálunum, því viðvörunarmerkin eru þegar komin, t.d. frá Seðlabankanum, um að menn verði að stilla opinberu fjármálin við stöðuna í hagkerfinu.“

Bjarni segir að þótt kjörtímabilið hafi einkennst af baráttunni við kórónuveiruna hafi réttar ákvarðanir verið teknar í stórum málaflokkum sem máli skipti.

Veikluleg stjórnarandstaða

En er ekki þægilegt að vera örlátur á ríkisfé, búa við fordæmalaust vaxtastig vegna faraldursins og að athyglin beinist að embættismönnum fremur en stjórnmálamönnunum og stjórnarandstaðan hefur í þokkabót verið mjög veikluleg?

„Stjórnarandaðan hefur verið léleg, ég get tekið undir það. Ég verð nú að segja að við erum annars vegar með heilsuvána, veiruna, og hins vegar efnahagslegar áskoranir. Af hverju gátum við gert þetta sem við gerðum? Af hverju var skuldastaðan svona góð? Það er búið að vinna að því baki brotnu í mörg kjörtímabil. Þegar ég kom í fjármálaráðuneytið á sínum tíma vorum við föst í höftum, vorum með slitabúin óuppgerð, vorum rétt að skríða í afgang og við vorum ennþá með marga mjög háa skatta. Við fórum í að láta auðlegðarskattinn renna út, raforkuskattinn renna út, afnema bankaskattinn, afnema vörugjöld á Íslendinga borguðu himinhá vörugjöld af alls konar heimilisvörum, húsbúnaði, fötum og skóm. Tókum um 1.800 vöruflokka í 0. Við slógum niður tolla, fórum svo í tekjuskattinn, tryggingagjaldið, örvuðum hagkerfið. Snerum við stöðu þjóðarbúsins.“

Bjarni Benediktsson er síðastur stjórnmálaleiðtoganna til að sitja fyrir svörum …
Bjarni Benediktsson er síðastur stjórnmálaleiðtoganna til að sitja fyrir svörum á vettvangi Dagmála í aðdraganda kosninganna. Á miðvikudag mætast leiðtogarnir í kappræðum á sama vettvangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gamlar kenningar í nýjan búning

Bendir hann á að staða Íslands við útlönd hafi aldrei verið jafngóð og nú og mikilvægt hafi verið að setja markmið um lág skuldahlutföll.

„Menn eru oft að boða einhverjar nýjar kenningar um hvernig við getum náð árangri í efnahagsmálum, t.d. að skuldsetja okkur meira og að það sé bara hið besta mál. Það sé allt saman misskilningur að það þurfi að reka hér ábyrg ríkisfjármál af varúð og festu. Það sé bara gamli tíminn. Nú leyfa menn sér að tala svona vegna þess að vaxtastigið er lágt. Þetta er bara stórhættuleg pólitík. Nú leyfa menn sér að boða sósíalisma að nýju. Sósíalistaflokkurinn gaf upp öndina 1968, en er mættur aftur og segir að Marteinn Mosdal hafi haft rétt fyrir sér allan tímann! Við hlustuðum bara ekki nægilega vel á hann. Þetta er stórundarleg þróun, sérstaklega þegar við erum að ná jafnmiklum árangri í landsmálunum og við höfum verið að gera.“

Viðtalið við Bjarna má sjá í heild sinni hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina