Óttast áhrif hitabylgju á Grænlandsjökul

Bráðnun Grænlandsjökuls, líkt og sjá má merki um á þessari …
Bráðnun Grænlandsjökuls, líkt og sjá má merki um á þessari mynd, gæti verið afdrifarík fyrir loftslag heimsins. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Hitabylgjan sem gengur yfir Evrópu virðist nú vera á leið í átt að Grænlandi. Norska ríkisútvarpið NRK segir þetta vekja áhyggjur sérfræðinga Alþjóðaveður­fræðistofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna (WMO) sem óttist að ísinn í Grænlandsjökli bráðni þá enn hraðar en áður.

„Veðurstraumarnir í andrúmsloftinu gera það að verkum að hlýja loftið hreyfir sig nú í átt að Grænlandi og það er áhyggjuefni,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir Clare Nulles, talskonu WMO.

Heita loftið á uppruna sinn í Norður-Afríku og hefur á ferð sinni um Evrópu orðið til þess að fjöldi hitameta hafa fallið undanfarna daga. Hafa met jafnvel verið slegin dag eftir dag. Í París mældist hitinn á fimmtudag 42,5°C og í belgíska bænum Begijnendijk féll hitamet á fimmtudag, þriðja daginn í röð og mældist hitinn þá 41,8°C. Í Bergen í Noregi féll hitamet borgarinnar þrisvar í dag með skömmu millibili.

Ekki slegin heldur rústað

Segir Nullis það „hreint ótrúlegt“ hvernig hitamet í Evrópu hafa verið slegin jafnvel um tvær, þrjár og fjórar gráður og bætir við að aukna tíðni hitabylgja og ákafa þeirra megi skrifa á loftslagsbreytingar af mannavöldum.

„Það sem við höfum séð núna er að hitamet eru ekki bara slegin, þeim er rústað,“ segir Nullis.

Þegar hitabylgjan kemur yfir Grænland, líkt og búist er við að hún geri í næstu viku þá verður hitastigið á austurströnd Grænlands helmingi hærra en venjulega, að því er fram kemur á vef norsku veðurstofunnar YR.

„Það leiðir til hærra hitastigs og þar með aukinnar bráðnunar á íshellunni yfir Grænlandi,“ útskýrir Nullis. Íshellan þekur um 80% af Grænlandi og hefur byggst upp yfir nokkur þúsund ára tímabil. Íshellan er um 1.500 metra þykk að meðaltali, en nær þó á nokkrum stöðum yfir 3.000 metra þykkt.

Færi svo að íshellan í heild sinni bráðnaði myndi það þýða að yfirborð sjávar hækkaði um 7,2 metra.

Löngu fyrir komu hitabylgjunnar mátti sjá að Grænlandsjökull bráðnaði hraðar en venjulega þetta sumar. Nullis sýnir mælingar frá dönsku Polar Portal stofnunninni sem fylgist með daglegum breytingum á íshellunni.

„Bara nú í júlí hafa 160 milljarðar tonna horfið fyrir tilstilli yfirborðsbráðnunar. Það samsvarar 64 milljónum sundlauga í ólympískri stærð. Það er bara í júlí. Og það er bara yfirborðsbráðnunin og tekur ekki til bráðnunar á ís í hafinu,“ segir hún.

mbl.is