LKL taco að hætti Lindu Ben

Linda Ben

Það er alltaf gaman að fylgjast með Lindu Ben í eldhúsinu því maturinn hennar hefur þá merkilegu tilhneigingu að vera í senn afskaplega girnilegur og ákaflega fallegur. Hér gefur að líta lágkolvetna-taco sem ætti að æra óstöðuga og gott betur. Klárlega réttur sem allir verða að prufa.

Lágkolvetna-vefjur

 • 2 egg
 • 2 eggjahvítur
 • 140 g rjómaostur
 • 1 1/2 tsk malað psyllium husk duft
 • 1 msk kókos-hveiti
 • 1/2 tsk salt

Aðferð

1. Kveikið á ofninum og stillið á 200C.

2. Hrærið eggin og eggjahvíturnar saman þangað til blandan verður ljós og loftmikil, bætið þá rjómaostinum saman við varlega, 1 tsk í einu, og hrærið þangað til blandan verður kekklaus.

3. Í aðra skál: blandið saman salti, psyllium husk og kókos-hveiti, bætið þeirri blöndu svo saman við eggjablönduna, 1 tsk í einu, og hrærið saman við. Leyfið deiginu að taka sig í nokkrar mínútur eða þangað til deigið verður svipað á þykkt og amerískt pönnukökudeig.

4. Setjið smjörpappír á ofnplötu og setjið 2 msk af deiginu á plötuna og dreifið úr þannig það verði að þunnum hring, u.þ.b. 15 cm í þvermál. Ég gat gert 3 hringi á ofnplötu og endaði með 9 pönnukökur. Bakið ofarlega í ofninum í um það bil 5 mín eða þangað til úthringur vefjunnar er farinn að brúnast. Fjarlægið vefjuna af smjörpappírnum og endurtakið fyrir restina af deiginu.

Fylling

 • Hakk
 • Taco kryddblanda
 • sýrður rjómi (magn eftir smekk)
 • 2 stór avocadó
 • 250 kirsuberja
 • 1 lime
 • Ferskt kóríander
 • Rifinn ostur (má sleppa)

Aðferð

1. Kryddið hakkið vel með taco-kryddi (magn fer eftir smekk og týpu af kryddi) og steikið það í gegn á pönnu.

2. Skerið avocadóið niður í teninga, kreistið 1/2 lime yfir og blandið saman.

3. Skerið tómatana niður og kóríander, blandið saman við avocadóið.

4. Smyrjið vefjurnar með 1/2-1 tsk af sýrðum rjóma, setjið hakkið ofan á og svo grænmetið, hægt er að bæta rifnum osti og kreista lime yfir ef vilji er fyrir hendi.

Linda Ben
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »