Harissa-lambasteik úr nýjustu bók Nönnu

mbl.is/aðsend mynd
Hér gefur að líta uppskrift úr nýjustu bók Nönnu Rögnvaldar, Beint úr ofninum, en uppskriftin er í miklu uppáhaldi hjá Nönnu. Hún segir lambainnralæri henta ágætlega til fljótlegrar steikingar í ofni, nema hvað tíminn sem það þarf er svo stuttur að það nái varla að brúnast almennilega og liturinn getur orðið óspennandi. Hér sé brugðist við því með því að smyrja fagurrauðu harissamauki á kjötið, enda eigi það vel við þar sem meðlætið er á marokkóskum nótum – grænmeti, apríkósur og möndlur.

Skammtar

Ég var með tvo bita af innralæri, ekkert sérlega þykka, enda voru þeir aðeins um 200 g hvor, en ég hef líka notað þykkari bita, 400-450 g, sem ég skar þá í tvennt. Það hefði örugglega verið í lagi að hafa hann í heilu lagi en þá hefði hann þurft aðeins lengri tíma. Reyndar er mjög hentugt að hafa tvo bita ef fólk er ekki sammála um hvað kjötið eigi að vera mikið steikt, þá geta þeir farið inn á mismunandi tíma. Tíminn sem hér er gefinn upp er miðaður við að kjötið sé vel bleikt í miðju; ef þið viljið hafa það gegnsteikt mætti setja það 5-10 mínútum fyrr í ofninn. Magnið hentar fyrir tvo en svo má minnka eða stækka uppskriftina.

Undirbúningur

Það má smyrja kjötið með kryddmaukinu og láta það standa í kæli í hálfan til einn sólarhring en þá tekur það chilibragðið meira í sig og vissara að fara varlega. Það er líka alveg nóg að gera það rétt áður en kjötið fer í ofninn. Gulræturnar má skera niður og eiga í kæli en ef kartöflurnar eru skornar niður fyrirfram þarf helst að geyma þær í skál með köldu vatni svo að það borgar sig varla.

Tilbreyting

Það má nota annað meyrt kjöt, svo sem lambafillet, meyrt nautakjöt eða kjúklingabringur og haga steikingartímanum eftir þykkt stykkjanna og því hvað maður vill hafa kjötið mikið steikt. Harissamaukið er sterkt og best að fikra sig hægt áfram ef maður þekkir það ekki eða er ekki mikið fyrir sterkan mat. Það er líka hægt að nota milda chilisósu í staðinn, eða bara rautt pestó eða annað kryddmauk. Svo má nota sætar kartöflur, butternutgrasker eða nípur. Apríkósurnar og möndlurnar eru, ásamt harissamaukinu, það sem gerir réttinn marokkóskan og gefa honum sætt bragð og rétta áferð en það má líka sleppa þessu.

Fyrir hverja?

Þetta er óneitanlega kjötréttur, þótt nota megi þykk fiskstykki eins og þorskhnakka í staðinn og hafa þá skemmri tíma. Rétturinn er glútenlaus og án eggja og mjólkurafurða. Í honum eru hins vegar möndlur (sem mætti þó sleppa) og þótt hann innihaldi ekki viðbættan sykur eru þurrkuðu apríkósurnar býsna sætar.

Meðlæti

Grænmetið, möndlurnar og ávextirnir ættu að duga en svo má líka hafa kúskús með. Soðið í fatinu ætti að duga vel sem sósa.

Geymsla/afgangar

Leifarnar af réttinum má geyma í 2-3 daga eða frysta. Svo er hægt að skera kjötið í sneiðar, léttsteikja á pönnu með grænmetinu og dreifa yfir kúskús eða soðin hrísgrjón á fati; eða skera kjötið og grænmeti í litla bita, hita þetta í potti með maukuðum tómötum eða passata, þynna með vatni og krydda og bera fram sem súpu; eða skera allt í bita, setja í eldfast mót, strá söxuðu grænkáli yfir og baka í ofni þar til grænkálið er stökkt.

Harissa-lambasteik

 • 400-500 g lambainnralæri (2 bitar)
 • pipar og salt
 • 2 msk. harissa
 • 3 msk. ólífuolía
 • 400 g kartöflur, litlar, skornar í bita
 • 250 g gulrætur, skornar í stauta
 • 100 g þurrkaðar apríkósur
 • 50 g möndlur, heilar
 • 4-5 hvítlauksgeirar, léttkramdir
 • kóríanderlauf (má sleppa)

Aðferð:

 1. Hitaðu ofninn í 200°C.
 2. Kryddaðu kjötið með pipar og salti og blandaðu svo saman harissa og 1 msk. af olíu, smyrðu á það og láttu standa.
 3. Settu kartöflur og gulrætur á ofnbakka eða í stórt eldfast mót, ásamt 2 msk. af olíu, pipar og salti og settu í ofninn í um 15 mínútur.
 4. Ýttu þá grænmetinu út til hliðanna, settu kjötið í miðjuna, dreifðu apríkósum, möndlum og hvítlauk í kring og steiktu áfram í um 20 mínútur. Stráðu e.t.v. kóríanderlaufi yfir.
mbl.is/aðsend mynd
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »