4 leiðir til að IKEA eldhúsið virðist sérsmíðað

mbl.is/Reform

Flestir eru mjög meðvitaðir um verðmuninn sem er á IKEA eldhúsi annars vegar og sérsmíðuðu eldhúsi hins vegar. IKEA eldhúsin eru umtalsvert ódýrari og hægt er með fremur einföldum aðferðum að láta IKEA eldhús virka sérsmíðuð.

Engir opnir endar. Það sem einkennir oftar en ekki sérsmíðuð eldhús er frágangurinn. Engir opnir endar, allt passar fullkomlega og er eins og það á að vera. Hér getur þurft að draga fram sög og sérsníða skápa utan um heimilistæki. Ekki síst þvottavél og þurrkara sem margir í litlum íbúðum vilja hafa í eldhúsinu en IKEA framleiðir ekki skápa utan um. Eins ef ísskápurinn er í óhefðbundinni IKEA stærð. Listar og sökklar skipta líka máli. Loka öllum götum og passa upp á að frágangur sé upp á tíu.

mbl.is/Reform

Borðplatan. Hægt er að taka IKEA eldhús á næsta stig með því að splæsa í forláta marmaraplötu eða eitthvað annað. Trixið er að velja efni sem er ólíkt því sem almennt tíðkast í IKEA. Mundu bara að setja eldhúsið upp fyrst og láta svo mæla fyrir plötunni. 

Höldur. Veldu öðruvísi höldur og splæstu í eitthvað sem ekki hefur áður sést. 

Skiptu um framhliðar. Það eru fjöldamörg fyrirtæki sem sérhæfa sig í framhliðum á IKEA skápum. Fyirtæki á borð við Reform, Semihandmade og Superfront eru með stórkostlegt úrval ofursvalra framhliða.

mbl.is/Reform
mbl.is