Alvöru íslensk kjötsúpa

mbl.is/Ragna Björg

Ást okkar á kjötsúpum er mikið og til eru allskonar uppskrifir sem eru eðlilega misjafnar. Við rákumst á þessa uppskrift hjá Rögnu Björg matarbloggara og hún er það sem við myndum kalla algjöra neglu!

Dásamlega bragðmikil og góð og klikkar aldrei!

Alvöru íslensk kjötsúpa

  • 3 lítar vatn
  • 1,5-2 kg súpukjöt
  • 1/2 dl hrísgrjón (má sleppa)
  • 2 msk salt (og örlítill hvítur pipar)
  • 5-8 gulrætur
  • 8-10 kartöflur
  • 1-2 rófur (smáar)
  • 1/4 hvítkálsshaus
  • 1 laukur
  • 1 dl súpujurtir

Aðferð: 

  1. Skolið af kjötinu og setjið í pottinn ásamt 3 lítrum af vatni. Á meðan suðan er að koma upp er eðlilegt að brún froða myndist ofan á. Takið hana í burtu með skeið eða ausu jafn óðum og hún myndast. Sjóðið í 45 mínútur
  2. Á meðan kjötið sýður undirbúið grænmetið. Reynið að hafa í huga að hafa grænmetið í þeirri stærð svo það passi í skeið.  Skerið gulrætur í ca 5 mm þykkar sneiðar (ef gulræturnar mjög sverar skerið þær þá til helminga eða í fjórðunga fyrst), rófurnar í teninga, kartöflurnar skræliði og skerið í teninga, laukinn skerið þið í litla bita (mun smærri en annað grænmeti) og hvítkálshausinn í teninga.
  3. Þegar 45 mín eru liðnar af suðunni á kjötinu setjið þið þá 1 dl af súpujurtum útí, laukinn, kartöflur, rófur, gulrætur, salt, örlítinn hvítan pipar og ef þið viljið, 1/2 dl hrísgrjón (þau voru oft sett til þess að drýgja súpuna en margir eru vanir því að hafa hrísgrjón í súpunni sinni)
  4. Súpan soðin áfram í ca 15-20 mínútur.
  5. Að  suðutímanum liðnum hef ég vanalega tekið kjötið uppúr og dundað mér við að tína það af beinunum, hreinsa í burtu sinar og fitu, rífa í smærri bita og set þá svo aftur ofaní.
  6. Það er ekkert leyndarmál að súpan sé betri daginn eftir. Hún er það svo sannarlega... og hún er líka góð 3-4-5 daga eftir að hún hafi verið útbúin. Geymið hana bara í ísskáp í lokuðu íláti og hitið bara upp þá skammta sem þið ætlið að taka af henni. Sem sagt, reynið að hita hana ekki alltaf alla og kæla svo aftur (svo má alltaf setja súpuna í smærri skammta í box og frysta)
mbl.is/Ragna Björg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka