Kjúklingaborgarinn sem þykir sá allra besti

Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Þið vitið að þegar fyrirsagnirnar lofa einhverju lífsbreytandi þá er það uppskrift sem þið verðið að prófa. Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari snilld — eða öllu heldur Þórunn vinkona hennar en upp á hann var boðið í húsmæðraorlofi í Húsafelli. Þetta er sumsé svona borgari sem konur fá sér þegar á að gera vel við sig. Meira þurfum við ekki að vita!!!

Kjúklingaborgarinn sem þykir sá allra besti

Fyrir 4

 • 4 litlar kjúklingabringur
 • 4 hamborgarabrauð
 • 2 egg
 • Hveiti til að velta upp úr
 • Brauðraspur til að velta upp úr
 • Þunnt skorið rauðkál
 • Rifinn cheddar ostur
 • Kóríander
 • 8 msk. majónes
 • ½ lime (safi og börkur)
 • 1 hvítlauksrif
 • 2 msk. smátt saxað jalepeno úr krukku
 • Salt, pipar og kjúklingakrydd
 • Franskar/annað meðlæti

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Setjið eina kjúklingabringu í senn í poka og merjið niður með buffhamri/öðru til að þynna og stækka bringuna.
 3. Pískið eggin og kryddið brauðraspinn eftir smekk.
 4. Veltið hverri bringu síðan fyrst upp úr hveiti, þá eggi og að lokum raspi og bakið í ofni í um 30 mínútur á meðan annað er útbúið. Munið eftir að bæta frönskum kartöflum í ofninn ef þið eruð með slíkt meðlæti.
 5. Skerið rauðkálið niður og takið til ost og kóríander ásamt brauðum.
 6. Útbúið jalapeno-majónes með því að blanda saman majónesi, lime, smátt söxuðu jalapeno, rifnu hvítlauksrifi og kryddið til með salti og pipar.
 7. Setjið síðan vel af majónesi á hvern borgara og það meðlæti sem ykkur þykir gott.
Ljósmynd/Berglind Hreiðars
mbl.is