Sörurnar sem sagðar eru sælgæti

Linda Ben er að senda frá sér bókina Kökur og í henni er að finna girnilegar og stórglæsilegar kökur eins og sagt hefur verið frá.

Hér gefur að lita uppskrift að sörum úr bókinni en þessi uppskrift þykir ein sú allra besta.

Sörur

Flestir Íslendingar tengja sörur við jólin en að mínu mati má bera þær fram allan ársins hring. Í stað þess að útbúa botna úr möndlum og marengs baka ég marsípanbotna sem mér þykja hvort tveggja bragðbetri og auðveldari í framkvæmd.
  • Um 30 kökur
  • Tími: 15 mín. (framkvæmd) + 45 mín. (kæling og framkvæmd) + 10-12 mín. (bakstur) + 30 mín. (kæling) + 15 mín. (hjúpun) = um 2 klst.
  • Geymast vel í frysti

Hráefni

Krem

  • 4 eggjarauður
  • 100 g sykur
  • 100 g vatn
  • 200 g súkkulaði
  • 100 g smjör

Botnar

  • 200 g marsípan
  • 80 g flórsykur
  • 1 eggjahvíta

Hjúpur

  • 150 g suðusúkkulaði

Aðferð

  1. Byrjið á því að útbúa kremið. Þeytið eggjarauður í hrærivél þar til blandan er orðin létt og ljós.
  2. Hitið vatn og sykur í potti í um 3 mín. eða þar til sykurinn hefur náð að leysast upp í vatninu.
  3. Hellið sykurvatninu saman við eggjarauðurnar í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan.
  4. Þeytið þar til blandan er loftmikil og nánast hvít að lit.
    Bræðið súkkulaðið og smjörið saman. Hellið því næst súkkulaðibráðinni saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Stoppið reglulega og skafið hliðar skálarinnar með sleikju svo allt blandist vel saman.
  5. Geymið kremið inni í ísskáp í um 45 mín. eða á meðan verið er að útbúa botnana.
  6. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með yfir- og undirhita.
  7. Rífið marsípan í skál og hrærið eggjahvítunni saman við. Bætið flórsykrinum út í og hrærið öllu saman.
  8. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið um 2-3 cm breiðum kökum á smjörpappír á ofnplötu. Notið bakhlið á skeið til að slétta vel úr hverri köku svo þær verði um 3-4 cm breiðar og ½ cm þykkar.
  9. Bakið í 10-12 mín. eða þar til kantarnir á kökunum hafa tekið á sig gullinn lit. Leyfið botnunum að kólna á kæligrind og snúið þeim síðan við svo flata hliðin snúi upp.
  10. Smyrjið kremi á hverja köku svo það sé kúpt í miðjunni en þynnist út að köntunum. Kælið kökurnar í smá stund.

  11. Bræðið loks súkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið hverja köku með því að dýfa kreminu ofan í súkkulaðið. Leggið kökurnar á kæligrind á meðan súkkulaðið storknar.
Ljósmynd/Linda Ben
Linda Ben
Linda Ben
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert