Pazíur með Dulce de leche eða Karamellu Sörur

Ljósmynd/María Gomez

María Gomez galdrar hér fram einar þær rosalegustu sörur sem sést hafa. María ákvað að gera sínar eigin útgáfur af hinum heimsfrægu sörum og það verður að segjast eins og er að útkoman er mögulega betri en frumgerðin en þær hafa hlotið nafnið Pazíur í höfuðið á Maríu sem alla jafna er kennd við uppskriftarvefinn sinn Paz.is

Pazíur með Dulce de leche eða Karamellu Sörur

Botn

  • 400 g marsípan
  • 2,5 dl strásykur
  • 3 eggjahvítur

Dulce de leche krem

1 stig

  • 1 stk. af 397 g dós af niðursoðinni mjólk (Condenced milk, fæst í Hagkaup, Fjarðarkaup og víðar og er oftast hjá Kínamatnum bara alls ekki kaupa Condenced coconut milk)
  • 90 g smjör
  • 100 g púðursykur
  • 1/2 tsk. fínt borðsalt
  • 1 msk. bökunarsíróp eða Golden-síróp

2 stig

  • 400 g mjúkt smjör
  • 4 dl flórsykur
  • 3 tsk. vanilludropar
  • 4 eggjarauður
  • 3 tsk. gróft salt

Súkkulaði til að dýfa í

  • 150 g rjómasúkkulaði dropar
  • 150 g hvítir súkkulaðidropar
  • 1 msk. lyktar og bragðlaus kókósolía eða 1 msk. palmínfeiti (má sleppa en gerir súkkulaðið meira glansandi og stökkara)
  • pínu gróft salt ein klípa c.a

Aðferð

Botn

  1. Rífið niður marsípanið í skál og blandið við sykrinum og eggjahvítunum.
  2. Þeytið þar til deigið er kekkjalaust.
  3. Sprautið deiginu í kringlóttar sléttar kökur ofan á ofnskúffu með bökunarpappír (um 4 cm í þvermál).
  4. Bleytið fingurgóminnn á vísifingri og sléttið með honum úr kökunum svo þær verði jafnari.
  5. Látið kökurnar bíða á bökunarplötunni við stofuhita í 30 mínútur og byrjið að gera kremið á meðan.
  6. Þegar botninn er búinn að standa, bakið þá á 180°C blæstri í 13-15 mínútur eða þar til gyllinbrúnar.
  7. Látið þær svo kólna.

Dulce de leche krem

Stig 1

  1. Setjið dósina af niðursoðinni mjólk, smjör, púðursykur, bökunarsíróp og fínt borðsalt saman í pott og látið bráðna saman við vægan hita.
  2. Þegar allt er bráðnað vel saman hækkið þá hitann vel upp og látið byrja að bullsjóða.
  3. Lækkið þá ögn hitann aftur og látið sjóða saman og hrærið vel í á meðan svo brenni ekki, sjóðið þar til verður að þykkri karamellu eða ca. 5-7 mín.
  4. Takið svo úr pottinum og setjið í skál og leggjið til hliðar og látið kólna á borði.

Stig 2

  1. Setjið mjúkt smjörið í hrærivél og þeytið það ögn þar til það verður ljóst og létt.
  2. Bætið þá flórsykri, salti og vanilludropum út í og þeytið ögn áfram.
  3. Bætið þá einni eggjarauðu út í í einu meðan vélin er enn að þeyta kremið og þeytið áfram þar til kremið verður fallega létt og mjúkt.
  4. Þegar karmellan er búin að kólna bætið henni þá út í kremið hægt og rólega með vélina í gangi á hægum hraða, hrærið saman þar til karamellan er rétt búin að blandast vel saman við og ekki lengur.

Súkkulaði til að dýfa í

  1. Bræðið súkkulaðið og olíuna ásamt saltinu saman yfir vatnsbaði.
  2. Leyfið því rétt að kólna áður en á að dýfa pazíum út í það.

Samsetning

  1. Þegar botnarnir eru alveg kældir setjið þá dulce de leche kremið í sprautupoka án stúts og klippið framan af honum svo gatið verði eins og 1 cm.
  2. Sprautið svo kremi ofan á hvern botn svo það verði smá þykkt eins og þið sjáið á myndunum.
  3. Dýfið svo krempartinum ofan í brædda súkkulaðið og passið að láta umframsúkkulaði renna vel af.
  4. Setjið svo yfir á bökunargrind eða á disk og setjið í kælir þar til súkkulaðið er alveg storknað.

Punktar

  • Mér finnst langbest að geyma Pazíurnar í frystir og taka svo út 15 mín áður en þær eru bornar fram.
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert