Verkfall hafið og flug raskast

„Við höfðum samband við alla farþega í gær varðandi þessar breytingar en fólk hafði auðvitað vitneskju um þetta úr fjölmiðlum svo það urðu engar afbókanir vegna þessa,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Dagsverkfall slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna hófst núna klukkan átta og mun standa yfir í 16 klukkutíma.

Af þeim sökum verður ekki varðstaða slökkviliðsmanna á Akureyrarflugvelli og munu því flugvélar frá Flugfélagi Íslands lenda og taka á loft á Húsavíkurflugvelli.

Árni segir að þeir sem hafi haft á því tök hafi farið með flugi í gærkvöldi en aðrir þáðu að fara með morgunfluginu sem var flýtt svo farþegar hafi frekar reynt að hnika til ferðum sínum frekar en að sleppa því að fljúga.

Flugfélag Íslands flýtti tveimur fyrstu ferðum sínum til Akureyrar svo flugvélarnar gætu lent á Akureyri og fóru þær norður fyrir klukkan sjö í morgun.

Þær fóru svo í loftið frá Akureyri klukkan 7:35 og 7:55. Önnur norðurflug dagsins munu lenda á Húsavík þaðan sem hópferðabílar aka farþegum til Akureyrar.

Þá þurfa farþegar á leið til Reykjavíkur að mæta í innritun á Akureyrarflugvelli rúmri klukkustund fyrr en áætlað hafði verið og verða svo fluttir með hópferðabílum til Húsavíkur.

Að sama skapi seinkar í raun komutíma farþega til Akureyrar frá því sem áætlað var.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert