Eiginmaðurinn henti brúðarkjólnum

Ásdís Halla Bragadóttir.
Ásdís Halla Bragadóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ásdís Halla Bragadóttir, framkvæmdastjóri Sinnum heimaþjónustu, reynir að láta það ekki trufla sig þótt eiginmaður hennar hafi „óvart“ hent brúðarkjólnum hennar þegar hann tók til í geymslunni.

Ertu byrjuð að skipuleggja vorverkin?

„Miðjubarnið, Bragi Aðalsteinsson, fermist laugardaginn 16. mars og þar sem hann er forfallinn golfari ætlum við að vera með létt og skemmtilegt Fermingar-Par-Tee um hádegisbilið. Það kallar á að vorverkunum hefur verið flýtt um nokkra mánuði og nú er t.d. að bresta á gluggaþvottur í frosti! Ég efast um skynsemi þess að drífa í vorverkunum í þessu frosti en mér hefur verið sagt að mæður fermingarbarna missi alla heilbrigða skynsemi og ég er að reyna að lifa mig inn í það. Við ætlum samt ekkert að týna okkur í vorverkunum heldur aðallega einbeita okkur að því að gefa gestunum ljúffengan fallegan mat með golfþema sem við erum að skipuleggja með Lukku í Happi sem er algjör snillingur.“

Er geymslan full af drasli? 

„Neibb – ekkert drasl í geymslunni en fullt af ýmiss konar gersemum.“

Áttu erfitt með að losa þig við gamalt dót?

„Ég á ekki erfitt með að losa mig við gamalt dót en ég á mjög erfitt með að henda. Þess vegna reyni ég alltaf að finna einhvern sem vantar einmitt það sem ég er að losa mig við og yfirleitt tekst það.“

Hefurðu hent einhverju sem þú sérð rosalega eftir?

„Eiginmaðurinn var einu sinni svo duglegur að taka til í bílskúrnum að hann setti brúðarkjólinn í poka sem fór í fatagám Sorpu. Ég hef látið eins og ég sjái ekkert eftir kjólnum til að draga ekki úr dugnaði eiginmannsins í bílskúrstiltektum en einhvern veginn kemur þessi kjóll upp í hugann þegar ég svara þessari spurningu … hmmm skrýtið þar sem engar líkur eru á því að ég muni nota hann aftur.“

Hvað langar þig mest í fyrir sumarið (föt/fylgihlutir)?

„Mig langar í föt og fylgihluti í björtum fallegum litum fyrir sumarið. Fataskápurinn minn er alltof svartur og skyndilega er komin upp löngun til að breyta því. Mig langar í meiri birtu, meiri gleði og meiri stemningu í litavalið. Lífið er of stutt til að vera svart. Svo langar mig líka í nýjan sófa í stofuna en ég hef verið að leita að hinum fullkomna sófa í mörg ár og ekki getað fundið hann. Vonandi fer hann að birtast mér.“

Hvernig eru plönin í sumarfríinu?

„Við skipuleggjum sumarfríið aðallega í kringum golf-ferðalög unglingsins og verðum því innanlands meira og minna í allt sumar. Verðum í viku á Akureyri og víðar með fullt af frábæru fólki. Svo förum líka alltaf á Þingvelli með tengdafjölskyldunni sem er eiginlega hápunktur sumarsins fyrir krakkana. Svo hafa vinir okkar boðið okkur að dvelja með sér á Snæfellsnesi í nokkra daga og ég hlakka mikið til þess. Mér finnst alltaf þægilegast að hafa ekki of stíft plan og geta svolítið spilað sumarið eftir eyranu.“

Hvað er ómissandi í sumarfríið? „Fjölskyldan!“

Ertu dugleg að láta drauma þína rætast?

„Já, og sumir segja að ég sé jafnvel of dugleg við það.“

Ertu a-manneskja eða b?

„Hvorugt – meira svona æ eða ö …Ég fer alltaf snemma á fætur en ég á mjög erfitt með að fara að sofa – ég elska að vaka fram eftir og þarf beinlínis að reka sjálfa mig í rúmið.“

Borðarðu morgunmat?

„Lengi vel borðaði ég aldrei morgunmat en fyrir nokkrum árum áttaði ég mig á því að hollur morgunmatur væri eitt mikilvægasta skrefið inn í heilbrigðan lífsstíl. Eftir að ég las fína grein í Smartlandinu þá byrja ég daginn alltaf á því að fá mér sítrónusafa í heitu vatni og svo borða ég morgunmatinn sem er yfirleitt full skál af ferskum ávöxtum með ab-mjólk og svo strái ég yfir All-Bran og fræjum, t.d. hörfræjum. Eftir það tek ég fjórar tegundir af vítamínum og fæðubótarefnum og svo kemur hinn fullkomni cappuccino sem Aðalsteinn töfrar fram eins og þaulæfður Baristi. Ég veit að þetta hljómar væmið eða jafnvel yfirlætisfullt fyrir suma en einhvern tímann áttum við okkur þann draum að byrja daginn alltaf í rólegheitum yfir hollum morgunverði og fullkomnum kaffibolla og við ákváðum að láta hann rætast.“

Ertu dugleg að elda?

„Ég myndi eiginlega frekar segja að ég væri dugleg að föndra. Ég elda og baka nokkuð reglulega þegar mig langar að gera eitthvað skemmtilegt og skapandi. Ég er ekki mikið fyrir það að elda mat bara til að hafa mat en mér finnst mjög gaman að elda framandi og helst dálítið krefjandi mat eftir góðum uppskriftum. Ég get verið mjög nákvæm og jafnvel með fullkomnunaráráttu í eldhúsinu. Á bolludaginn gerði ég t.d. þrjár tilraunir til að baka hinar fullkomnu vatnsdeigsbollur, allar voru þær góðar en engin fullkomin og nú bíð ég eftir næsta bolludegi til að halda þróunarstarfinu áfram.“

Linsubaunabuff eða steik? „Oftar linsubaunabuff en kannski steik einu sinni í mánuði.“

Áttu líkamsræktarkort? „Já, í Heilsuborg og ég nota það tvisvar í viku.“

Notarðu hjól?

„Hjólið er ein af gersemunum í geymslunni sem er of lítið notað en ég ætla mér alltaf að nota meira.“

Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum?

„Fatastíllinn stjórnast af því hvað ég er að bralla frá degi til dags. Í vinnunni hjá okkur í Sinnum er stílinn almennt frekar afslappaður og dálítið margbreytilegur en stundum finnst mér gaman að vera extra fín og á föstudögum er alltaf kjóladagur. Ég er þó almennt í þægilegum og hlýjum fötum. Ég kaupi mér ekki mikið af fötum en ég kaupi frekar vönduð föt. Ég á það til að ofnota föt, jafnvel mörgum árum eftir að þau eru úr sér gengin og þá sérstaklega skó sem ég tek ástfóstri við.“

Tekurðu áhættu þegar útlitið er annars vegar?

„Já, ég hef ítrekað tekið alls konar áhættu og stundum hefur hún alls ekki borgað sig en þá hugga ég sjálfa mig með uppáhaldsmottóinu: Það besta við að vera ófullkomin er gleðin sem það veitir öðrum.“

Ertu með eða á móti fegrunaraðgerðum?

„Mér hefur aldrei tekist að hafa sterka skoðun á fegrunaraðgerðum. Ef fólk vill nota þær þá er það fínt en ef fólk vill ekki nota þær þá er það bara ljómandi gott líka. Aðalmálið að þær séu uppi á yfirborðinu og að það séu hæfir og góðir læknar eða fagaðilar sem annast þær því það felst alltaf ákveðin áhætta í hvers kyns inngripi í líkamann og ýmiss konar hugsanlegar aukaverkanir. Til lengri tíma hef ég meiri trú á því að hollur matur, hreyfing, vítamín og vandaðar snyrtivörur, sérstaklega húðkrem og serum með öldrunarvörn, geri meira fyrir vellíðan og útlit en fegrunaraðferðir.“

Finnst þér útlitsdýrkun ganga út í öfgar?

„Útlitsdýrkun er eins og allt annað í lífinu. Sumir ráða við hana en aðrir ekki. Sumir eru svo uppteknir af útlitinu af það dregur úr lífshamingju þeirra en aðrir vanrækja svo eigið útlit, heilsu og jafnvel hreinlæti að það skaðar sjálfsmyndina. Ég held að aðalmálið sé það að sjálfsmynd barna og unglinga má ekki um of stjórnast af útliti þeirra og þar höfum við öll verk að vinna en þá sérstaklega foreldrar, skólinn og fjölmiðlar.“

Ræktarðu vini þína?

„Ég er almennt mjög dugleg að hitta vini mína og skemmtilegast finnst mér að borða góðan mat með góðum vinum. En þó koma tímabil þar sem ég vildi að ég hefði enn meiri tíma til að sinna vinum mínum.“

Ertu háð fjölskyldu þinni?

„Ég er hrikalega háð fjölskyldunni og svo háð að ég á stundum mjög bágt, t.d. þegar ég þarf að fara ein til útlanda í vinnuferðir.“

Áttu gæludýr?

„Við eigum yndislegan hund sem heitir Tinni og hann er elskaður og dáður af öllum í fjölskyldunni.“

Uppáhaldshlutur?

„Uppáhaldshlutirnir mínir eru þeir sem hafa tilfinningalega skírskotun eins og t.d. listaverk sem úr má lesa einhver skemmtileg skilaboð eða lífsgildi. Uppáhalds verkið mitt núna er Hjartarfi eftir tvo merka nútímalistmenn þá Birgi Andrésson heitinn og Eggert Pétursson. Í verkinu sem þeir unnu saman eru þeir báðir að túlka hjartarfa, hvor með sínum hætti, og mér finnst þetta verk undirstrika með svo dásamlegum hætti hvað tveir frábærir einstaklingar geta séð sama hlutinn með gerólíkum hætti.“

Besta bókin og eftirminnilegasta myndin?

„Ég elska bækur og finnst fátt skemmtilegra en að lesa bók eða horfa á góða mynd í faðmi fjölskyldunnar en mér er algjörlega lífsins ómögulegt að nefna eina bók eða eina mynd.“

Helsta fyrirmynd þín í lífinu?

„Ég hef átt margar fyrirmyndir en sem betur fer er enginn einstaklingur svo fullkominn að manni langi að vera nákvæmlega eins og hann eða hún.“

Hverju myndirðu breyta í lífi þínu ef þú gætir?

„Daglega minni ég mig á mikilvægi þess að lifa í núinu og gleðjast yfir öllu því góða og jákvæða sem umlykur okkur. Það að eignast þriðja barnið þegar maður er komin nokkuð yfir fertugt hjálpaði mér að skerpa enn frekar á öllu því sem mestu máli skiptir en ef það er eitthvað sem ég myndi vilja breyta þá er það að finna enn betur taktinn í núinu.“

Hefurðu gert eitthvað sem þú sérð eftir?

„Ég reyni að lifa eftir prinsippinu: „Ekki gera það sem þú sérð eftir. Ef þú gerir það ekki sjá eftir því.“ Ég er ekki að segja að það takist alltaf en viðleitnin er til staðar.“

Gætirðu hugsað þér að búa annars staðar í heiminum?

„Engin spurning og ég hef notið þess að búa erlendis en þó gæti ég ekki hugsað mér annað en eiga alltaf heimili á Íslandi líka.“

Það besta við Ísland? „Ættingjar og vinir.“

Það versta við Ísland? „Kuldinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál