Konur geta gert allt sem þeim sýnist

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir fjárfestir.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir fjárfestir.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir, stjórnarmaður og eigandi CrossFit XY, borðar yfirleitt ekki morgunmat og reynir að hugsa eins vel um sig og hún getur. Hún segir að „girlpower“ sé að hafa nægt sjálfstraust til að láta drauma sína rætast. 

Hvað er góð heilsa?

„Góð heilsa skilar sér best að mínu mati með góðu jafnvægi á andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu þar sem þessir þættir ná að rækta hver annan. Gott líkamlegt form hefur skilað sér til mín í auknum lífsgæðum og ánægju. Ég hreyfi mig til þess að geta leikið mér og notið lífsins í frítíma með vinum og fjölskyldu á fjallaskíðum, snjóbretti, hjóli eða öðru sem mig langar að gera. Það nærir mig persónulega og veitir mér ánægju. Það getur aftur á móti verið stutt á milli þess hvort líkamleg heilsumarkmið fólks skili jákvæðum eða neikvæðum áhrifum á andlega og félagslega heilsu. Sem fyrrverandi afrekskona í íþróttum og eigandi CrossFit XY þá hef ég oft orðið vitni að því hvernig öfgakennd þyngdar- og/eða árangursmarkmið geta orðið til þess að fólk þróar með sér kvíða og einangrar sig félagslega. Sömuleiðis getur tímaskortur vegna vinnu- og/eða fjölskylduaðstæðna orðið til þess að fólk á erfitt með að huga að líkamlegri heilsu og það virðist alltaf enda með að bitna á andlegri heilsu og jafnvel félagslegri þar sem fólki líður illa og á jafnvel erfitt með að hitta aðra.“

Hvernig hugsar þú um heilsuna?

„Allt er gott í hófi! Við þurfum að sofa, við þurfum að nærast, við þurfum að hreyfa okkur og við þurfum að hlæja með góðum vinum. Ég reyni að halda sem bestu jafnvægi á þessum þáttum án þess að það fari í einhverjar öfgar. Flesta daga reyni ég að borða hollt en þegar það stendur eitthvað til þá leyfir maður sér að borða góðan mat og fá sér eftirrétt. Sama með svefn og hreyfingu, ég reyni að halda reglu á þessu, en það er nauðsynlegt að gefa sér smá sveigjanleika.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég vakna um 7:30 og vek strákana mína og kem þeim af stað í skólann. Ég fer svo yfirleitt sjálf upp í CrossFit XY þar sem ég tek æfingu með þjálfurum í stöðinni. Að lokinni æfingu kem ég mér svo á skrifstofuna að vinna.“

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Síðustu átján mánuði hef ég að öllu jöfnu fylgt 16/8 föstu og því ekki borðað morgunmat en ég blanda mér alltaf Unbroken í vatn. Unbroken er undraefni sem inniheldur amínósýrur, steinefni og vítamín og mér finnst þetta efni nýtast mér mjög vel sem bætiefni og fyrir „recovery“ milli æfinga.“

Hvernig æfir þú?

„Ég æfi CrossFit 5-7 daga vikunnar. CrossFit er frekar fjölbreytt æfingakerfi sem gerir æfingarnar mjög breytilegar. Suma daga er mikið af lyftingum á meðan aðra daga eru þetta hlaup og fimleikaæfingar. Ég æfi yfirleitt á morgnana og stundum bæti ég við æfingu seinni partinn en oftar reyni ég að fara út á fjallahjólið, fjallaskíðin, snjóbrettið eða bara í góðan göngutúr með hundana mína.“

Hver er þinn uppáhaldsheilsustaður?

„Það eru ekki margir heilsustaðir eftir á Íslandi en sem betur fer eigum við marga mjög góða veitingastaði þar sem er hægt að fá góðan og heilsuríkan mat. Mér finnst gott úrval af léttum réttum á Rok og Duck and Rose. Fyrir grænmetis/vegan-mat þá eru Zumac og Hosiló mínir uppáhalds. Sem gott millimál verð ég að benda á keto-barina frá Goodgood. Rasberry collagen-barinn er mitt uppáhald og svo er ég alltaf með Hleðslu í töskunni.“

Uppáhaldssnjallforrit?

„Wodify fyrir CrossFit, WhatsApp fyrir viðskipti, Instagram/Facebook fyrir vinasamskipti.“

Hvað er „girlpower“ í þínum huga?

„Að hafa sjálfstraust til að fylgja eftir þínum skoðunum, hugmyndum og verkefnum án þess að láta aðra hafa áhrif á þig. Smá svona „I don‘t give a fuck“-viðhorf.“

Hvað geta konur gert til að komast áfram?

„Það komast flestir áfram á því að leggja inn vinnu og skara fram úr á sínu sviði. Ég hef engar áhyggjur af því að konur komist ekki áfram á næstu árum. Það eru svo margar flottar og frambærilegar konur að vinna sér inn víðtæka reynslu á mismunandi sviðum innan atvinnulífsins, í stjórnmálum, fjölmiðlum og á fleiri stöðum. Á réttum tíma munum við sjá konum fjölga. Ég hef frekar áhyggjur af því að það fari að halla á karlmenn eftir nokkur ár. Við þurfum að tryggja ákveðið jafnvægi því við erum misjöfn og það er mín skoðun og reynsla að við erum sterkari saman.“

Uppáhaldsfatamerki?

„Balmain og Saint Laurent í lúxusmerkjum, Selected og Tommy Hilfiger í skrifstofuklæðnaði, Nike og Lululemon í íþróttafatnaði.“

Hvað er í snyrtibuddunni þinni?

„Ég passa að það sé ekkert of mikið því ég týni henni reglulega og þá fer ég í MAC og þær hjálpa mér að velja saman vörur og leggja mér línurnar í förðunarrútínu.“

Hvað værir þú að gera ef þú værir ekki í þínu starfi?

„Örugglega eitthvað mjög skemmtilegt!“

Hvað dreymir þig um að eignast?

„Ég er glöð með allt sem ég á og óska þess helst að sjá strákana mína stækka og fullorðnast og lifa innihaldsríku lífi. Strákarnir mínir skilja hins vegar ekki af hverju mig dreymir ekki um að eignast Teslu. Draumarnir breytast líklega eitthvað með aldrinum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál