Fór úr flugfreyjunni í rafvirkjann

Harpa Katrín Aradóttir fór úr háloftunum í rafvirkjann.
Harpa Katrín Aradóttir fór úr háloftunum í rafvirkjann.

Harpa Katrín Aradóttir fór beint í Háskóla Íslands eftir að hún útskrifaðist sem stúdent. Hún fann sig þó ekki alveg í því námi og þegar hún var spurð hvort hún ætlaði ekki í meistaranám við háskólann kom í hana mótþrói og ákvað hún að fara í allt aðra átt. Í dag er hún löggiltur rafvirki, auk þess sem hún er með BS-próf í ferðamálafræði. Hún er móðir, unnusta og á von á sínu öðru barni í lok árs. 

Þegar Harpa byrjaði í rafvirkjanáminu hjá Fjölbrautarskólanum í Breiðholti vann hún sem flugfreyja hjá Wow Air. 

Hörpu langaði ekki að fara í meistaranám í háskóla og …
Hörpu langaði ekki að fara í meistaranám í háskóla og ákvað frekar að skrá sig í rafvirkjann.

„Ég hef alltaf verið mjög góð að vinna hluti í höndunum og haft mikinn áhuga á iðnaði og brasi almennt. Þannig datt mér í hug að fara að skoða iðnnám. Ég tók svo ákvörðunina um að fara í rafvirkjun eftir að hafa skoðað það sem var í boði. Rafvirkinn lá þokkalega vel við höggi þar sem ég hafði góðan grunn í eðlisfræði úr menntaskóla. Einnig sá ég fyrir mér að rafvirkinn gæti gefið mér mikið í framtíðinni, hvort sem það væri að vinna í iðninni eða að nota námið og reynsluna sem stökkpall eitthvert allt annað. Það er allt í kringum okkur að rafvæðast og ég sá fyrir mér að tækifærin lægju á þessari braut,“ segir Harpa. 

Harpa eignaðist margar góðar vinkonur þegar hún vann í háloftunum og segir þennan tíma hafa verið einstaklega skemmtilegan. Hún náði einnig að plata eina flugfreyjuvinkonu sína með sér í rafvirkjann og nú vinna þær aftur á sama stað.

Harpa Katrín og Sólrún unnu saman sem flugfreyjur og núna …
Harpa Katrín og Sólrún unnu saman sem flugfreyjur og núna sem rafvirkjar.

„Annars hef ég unnið við svo ótrúlega margt og komið víða við í atvinnulífinu, svolítið eins og í náminu. Ég hef til dæmis unnið í nánast öllum búðunum í Kringlunni, í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, sem aðstoðarkona á tannlæknastofu og í gestamóttöku á hóteli svona til að nefna eitthvað,“ segir Harpa.

Harpa Katrín ásamt syni sínum Vilmundi Hróa og sambýlismanni, Styrmi …
Harpa Katrín ásamt syni sínum Vilmundi Hróa og sambýlismanni, Styrmi Erni Vilmundarsyni.

Fannstu fyrir því að þú værir í minnihluta þegar það koma að náminu?

„Já og nei. Mér fannst aldrei talað örðuvísi við mig eða strákana í náminu. Þó svo að ég hafi oft heyrt jæja strákar eða álíka kynjaða frasa í skólanum fannst mér kennararnir mínir í FB alls ekki mismuna okkur. Ég er mjög skipulögð og vil skila öllu af mér eins vel og ég get þegar það kemur að námi. Kennarar fengu að finna aðeins fyrir því með endalausum tölvupóstum um verkefni og verkefna skil, sem er kannski ekki eitthvað sem meirihluti yngri nemenda þeirra eru vanir að gera.

Mesti munurinn sem ég fann var að ég fékk kannski meiri athygli eða aðstoð en það skrifast kannski líka á að ég var dugleg að spyrja og láta vita þegar mig vantaði aðstoð. Ekki það að strákar geri það ekki líka en það er meira í menningunni að þrjóskast sjálfur í gegnum þetta og að halda að þeir þurfi ekki aðstoð.

Ég var í allskonar minnihluta þegar ég var í náminu, ég er kona, ég var ólétt, ég var í fæðingarorlofi, ég var eldri og öllu þessu fylgja allskonar sérþarfir í kringum skil og skipulag. Kennararnir og stjórnendur rafvirkjadeildarinnar upp í FB voru ekkert nema frábær og skilningsrík í gegnum allan námsferilinn og ég get ekki mælt meira með þeim fyrir þá sem eru að hugsa um að fara í þetta tiltekna nám.“

Harpa Katrín hvetur konur til að kynna sér iðnnám.
Harpa Katrín hvetur konur til að kynna sér iðnnám.

Hvernig er að starfa sem kona á svo karllægum starfsvettvangi?

„Mér finnst það mjög gaman. Það getur auðvitað verið alveg óþolandi þegar maður lendir í því að einhver tekur ekki mark á þér eða lætur skoðanir eða hugmyndir þínar sem vind um eyru þjóta, en ég hef blessunarlega ekki lent oft í því. Mín reynsla er sú að það er skilningur fyrir því að fjölbreyttari hópur starfsmanna geri meira gott en slæmt. Hver einstaklingur kemur með sína kosti, hæfni og reynslu í verkið og það skiptir engu máli af hvaða kyni þú ert. Starfið er mjög fjölbreytt og því ætti að segja sig sjálft að fjölbreyttur hópur sinnir því best. Ég finn mikið fyrir því að ég er vel metin fyrir skipulag og snyrtimennsku á mínum vinnustað og hef fengið mörg verkefni sem snúa að því.“

Finnst þér fleiri konur vera að sækjast í starfið?

„Já mér finnst það. Það var metfjöldi kvenna sem tók sveinsprófin núna í ár, við vorum til dæmis fjórar konur á mínum vinnustað sem kláruðum sveinsprófin í febrúar á þessu ári. Ég vinn hjá Rafal ehf. sem rafvirki, í sumar voru margar ungar stelpur að vinna sem sumarstarfsmenn hjá okkur. Þetta var annað eða þriðja sumarið hjá nokkrum þeirra. Það gleður mig að sjá að stelpur eru að fara beint í innámið eftir grunnskóla og eru þannig að ryðja þessa menntabraut fyrir komandi kynslóðir og gera þetta meira norm. Það þurfa alls ekki allir að fara sömu leið og þessi gamla hefðbundna mennta leið er alls ekki fyrir alla.“

Harpa við vinnu.
Harpa við vinnu.

Hvaða ráð ertu með fyrir stelpur sem vilja fara í iðnnám?

„Kýla á það. Ef þú ert spennt fyrir iðnnámi og að vinna í iðnaði þá taparðu aldrei á því að drífa þig í námið. Það skiptir heldur ekki máli hvenær þér dettur það í hug, 16 ára, 24 ára eða 44,  aldur er bara tala. Ef þú hefur metnað og vilja fyrir námi sama hvaða nám það er þá erum að gera að drífa sig af stað. Klassísk klisja að segja menntun er máttur en það er mikill sannleikur í henni.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir í vinnunni?

„Mér finnst allt bras og hamagangur alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég nýt þess líka að klára verkefni sem ég hef unnið frá grunni í rólegheitum, skipulagt, smíðað, vírað upp, merkt og skilað fallega af mér. Þetta svo fjölbreytt starf og svo margt ólíkt hægt að gera sem hentar mér vel þar sem mér leiðist einsleit störf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál