Getur verið að þú sért með verki vegna álags?

Ljósmynd/Unsplash

„Um allan heim er talið að 1,5 milljarðar manna þjáist af verkjasjúkdómum. Þetta er heilsufarsvandamál sem að mestu hefur flogið undir radarinn og þarf meiri athygli og umræðu,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Oft er mjög erfitt að benda á orsakir krónískra verkja enda geta þær verið margar, svo sem erfðir, langtímaálag, áföll, kulnun (e. burnout), afleiðingar slysa og svona mætti lengi telja. Þegar er erfitt að benda á uppsprettu verkja er einnig erfitt að meðhöndla þá.

Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðingur og markþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðingur og markþjálfi.

Það er freistandi að tengja verki eingöngu við eitthvað líkamlegt en getur verið að tilfinningaleg úrvinnsla sé hluti af lausninni fyrir einhverja?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að verkir líkt og skyndilegir bakverkir, verkir í handlegg, grindverkir, liðverkir, mígreni, húðexem og verkir í þörmum geta komið til vegna spennu, reiði, ótta, kvíða eða sorgar. Einstaklingar sem eru með verki nú þegar geta upplifað meiri verki þegar ofantaldar tilfinningar bætast við.  

Dr. John Sarno var brautryðjandi rannsókna á sambandi krónískra verkja og TMS (e. Tension Myositis Syndrome). TMS er tiltölulega óþekkt innan heilbrigðisstéttarinnar og ekki samþykkt sem greining enn þann dag í dag. Þó hafa einhverjar rannsóknir leitt í ljós að margir einstaklingar hafa upplifað hjöðnun á verkjum eftir meðhöndlun TMS. 

En hvað er TMS? Jú, kenningin er sú að þegar einstaklingar verða fyrir áföllum líkt og kulnun, ofbeldi eða sorg sem dæmi getur oft myndast reiði, gremja, biturleiki, ótti eða kvíði.

Þegar við byrgjum inni neikvæðar tilfinningar þá spennum við oft líkamann sem verður til þess að blóðflæði til vefja og vöðva minnkar verulega. Þar sem blóðflæðið minnkar verulega þá geta verkir komið fram sem afleiðing.

TMS birtist oft sem sjúkdómur í vöðvum, liðböndum og taugum í baki og hálsi. Sársaukinn í TMS orsakast eða getur versnað vegna spennu. Í einhverjum tilvikum er hægt að minnka verki með því að einbeita sér að tilfinningalegum orsökum.

Rannsóknir hafa enn fremur sýnt fram á að þegar einstaklingar upplifa tilfinningalegan sársauka eru sömu heilastöðvar virkar og þegar einstaklingar upplifa líkamlegan sársauka.

En hvað er hægt að gera? Fyrsta skrefið er að opna hugann fyrir því að orsökin gæti verið af tilfinningalegum toga. Ertu í eyðileggjandi sambandi við maka, foreldri eða samstarfsfélaga? Einkennist líf þitt af miklu álagi eða áreiti? Ertu nýbúin(n) að upplifa sorg?

Þá er næsta skref að færa áhersluna á hugsanir og tilfinningar og fara að vinna úr tilfinningum á áhrifaríkari hátt, þ.e. hugsa sálrænt. Þetta felur í sér áherslu á tilfinningalega spennu og innri viðbrögð okkar við utanaðkomandi atburðum líkt og vinnunni eða fjölskylduaðstæðum sem dæmi.

Í lokin vil ég nefna að ef fólk þjáist af verkjum á læknir að sjálfsögðu að taka afstöðu til þess og ráðleggja hvað er best í stöðunni. Sé uppspretta verkjanna hins vegar af tilfinningalegum toga og orsakast jafnvel af TMS er enginn skaði skeður að athuga það frekar með sálfræðilegri nálgun. Í versta falli virkar það ekki en í besta falli getur það dregir úr verkjum.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þóreyju póst HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál