Ertu tilfinningalega dofin/n?

Ljósmynd/Unsplash

„Þegar tilfinningalegur doði kemur upp, þar sem einstaklingar eiga erfitt með að finna fyrir gleði og eru meira eins og dofnir, þá vilja flestir vita af hverju þeim líður svona og hvað er hægt að gera.

Ef þú ert ekki að taka þunglyndislyf þar sem þetta gæti verið hugsanleg aukaverkun þá er þess virði að skoða aðrar ástæður,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.

Í fyrsta lagi getur líkamleg heilsa verið orsökin, t.d. ef mataræðið er ekki upp á sitt besta. Ertu að borða mikið af næringarlitlum mat? Neysla á einföldum kolvetnum líkt og sykri og hvítu hveiti getur haft slappleika og þreytu í för með sér. Unnar kjötvörur eiga heima í sama hópi. Reyndu að borða meira af lifandi mat með háu næringargildi og því fjölbreyttara mataræði því betra.

Önnur einföld leið til að hrista af sér doðann er að hreyfa sig og fá þar með náttúrulegu gleði hormónin í gang. Það er alltaf pláss fyrir hreyfingu á einhverjum tímapunkti dags eða viku. Ef þér finnst virkilega erfitt að troða inn hreyfingu í amstri dagsins, þá er alltaf hægt að fara fyrr að sofa og byrja daginn fyrr. Varla til betri leið að byrja daginn en með líkamann fullan af endorfínum.

Í þriðja lagi þá er það andlega hliðin. Ertu að lifa lífi þínu í samræmi við þín gildi? Hver eru þín gildi og hversu mikilvæg eru þau fyrir þig? Vinna, fjölskylda, ástarsambönd, andlegur þroski eða heilsa eru dæmi um algeng gildi. Ef vinnan er mikilvægur hluti af þínum gildum en ekki nógu fullnægjandi þá hefur það meiri áhrif en ef vinnan væri bara ill nauðsyn. Það er til eitthvað sem heitir „bored out“ og snýr hreinilega að því að einstkalingum leiðist í vinnunni sinni. Hvað með sambönd þín? Hvernig er samband þitt við maka? Er það frekar að draga þig niður en að gefa þér orku og gleði? Hvað með félagslífið? Ertu að vanrækja vinina? Hvatningin og gleðin í daglegu lífi minnkar ef við erum ekki að lifa okkar lífi í samræmi við gildi okkar. Þá getur þessi tilfinningalegi doði komið þar sem einstaklingar finna ekki fyrir neinni sérstakri gleði heldur eru meira fljótandi með lífinu án nokkura sterkra tilfinninga.

Það sem gerist einnig þegar að einstakingar eru ekki nógu sáttir við líf sitt er að hugsanirnar geta farið að taka yfir. Þegar að ofhugsanir taka völdin getur það tekið mikla orku frá okkur sem leiðir til þess að við upplifum þreytu og hvatning minnkar. Þess vegna gefur samtalsmeðferð einstaklingum oft nýja orku því þessar hugsanir fá farveg og verða oft að úrlausnum í staðinn fyrir vandamálum sem keyra á „auto pilot“.

Tilfiningarlegur doði er eitthvað sem getur komið fyrir alla og er oft  á tíðum heilbrigð viðbrögð við t.d. sorg og áföllum. En þá er vert að spyrja: Ertu að fresta einhverju sem er gott fyrir þig? Ertu að fresta að byrja borða hollt? Ertu að fresta ræktinni enn eina vikuna? Ertu enn í sambandinu sem veitir þér enga hamingju? Er vinnan löngu hætt að vera krefjandi en þú flýtur bara einhvern veginn áfram í henni? Færðu ekki nægan tíma fyrir sjálfan þig?

Hvað sem því veldur þá þarfnast þú hugsanlega breytinga og stundum eru þær breytingar minni í bæði umfangi og fyrirhöfn en þú hélst í upphafi. Taktu ákvörðun í dag að byrja gera eitthvað eitt á dag sem fleitir þér nær gildum þínum. 

Ef þér liggur eitthvað á hjarta þá getur þú sent póst HÉR.  

mbl.is