Yfirgaf Stokkhólm vegna veirunnar og hjálpar fólki að komast í form

Sara Snædís Ólafsdóttir heldur úti vefnum Withsara sem er mjög …
Sara Snædís Ólafsdóttir heldur úti vefnum Withsara sem er mjög vinsæll.

Sara Snædís Ólafsdóttir er yfirkennari hjá BECORE, sem er eitt fremsta fitness boutique studio-ið í Stokkhólmi. Hún byrjaði í starfinu í byrjun árs í fyrra og hefur verið að þróa Barre æfingarkerfið hjá þeim. Nú er hún hinsvegar komin tímabundið til Íslands og ákvað að bjóða upp á árangursrík leikfimismyndbönd á vefnum Withsara, sem hjálpa fólki að halda sér í formi heima. 

„Við fluttum til Stokkhólms fyrir 3 árum síðan. Okkur langaði að prófa eitthvað nýtt, breyta aðeins um umhverfi, víkka sjóndeildarhringinn og bæta í reynslubankann. Ég var ólétt af mínu öðru barni og maðurinn minn fór í Mastersnám við Konunglega tækniháskólann. Í fæðingarorlofinu mínu fór ég síðan að kenna Barre og Yoga en ég hafði verið að kenna í mörg ár á Íslandi áður en ég flutti út,“ segir Sara Snædís. 

Í lok mars ákváð fjölskyldan að koma heim til Íslands vegna veirunnar. 

„Þegar ástandið var aðeins farið að vinda upp á sig ákváðum við að koma heim, keyptum okkur miða heim og vorum síðan komin til Íslands tveimur dögum seinna.  Daginn áður en við lentum var öllum Íslendingum sem koma frá áhættusvæðum skipað að fara í sóttkví þannig við brunuðum beint upp í Fljótshlíð þar sem fjölskyldan á sumarhús og eyddum tveimur góðum vikum þar. Þar byrjaði Withsara ævintýrið og tók ég upp mín fyrstu æfingarmyndbönd í bústaðnum okkar,“ segir hún og bætir við: 

„Það var skrýtið að vera nánast að flýja til Íslands með svona stuttum fyrirvara en okkur fannst mikilvægt að komast heim til fjölskyldunnar og vera með stuðningsnet. Við sjáum alls ekki eftir því núna og erum búin að nýta tímann vel, en hlökkum líka til að fara aftur heim til okkar þegar ástandið róast.“

Hvað áætlið þið að vera lengi á Íslandi?

„Við eigum miða tilbaka í lok apríl en eins og staðan er í dag er ekki hægt að sjá neitt fyrir. Við tökum bara einn dag í einu og gerum það besta úr honum og sjáum svo hvernig staðan verður þegar líða tekur á mánuðinn,“ segir hún. 

Sara Snædís segir mikilvægt að hugsa vel um heilsuna á …
Sara Snædís segir mikilvægt að hugsa vel um heilsuna á meðan veiran geisar.

„Barre er æfingarkerfi sem styrkir djúpvöðvana, eykur styrk og vöðvaþol, bætir líkamsstöðu og lengir og tónar vöðvana. Meginþorrinn af æfingunum eru gerðar við stöng og svo einnig á dýnu. Einnig hef ég séð um að þjálfa nýja kennara hjá Becore ásamt endurmenntun núverandi kennara. Ég sé einnig um Barre og Yoga kennslu fyrir höfuðstöðvar Spotify ásamt því að leiða yoga tíma í studio-inu hjá Lululemon og Altromondo yoga,“ segir Sara Snædís aðspurð um æfingarnar og bætir við: 

„Withsara er platform sem tvinnar saman það sem ég brenn fyrir það er að segja heilsu, hreyfingu og yoga. Mig langaði að bjóða upp á árangursríkar heimaæfingar sem væru uppbyggðar eins og að vera í studio-i, þannig að umhverfið er hvetjandi og persónulegt. Mér var hugsað til þeirra ótal kvenna sem langar að æfa meira og fara oftar í ræktina en hafa ekki tíma, svigrúm eða orku. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á fækkaði tímum sem ég kenni í Stokkhólmi og við fjölskyldan ákváðum að fara til Íslands. Við fórum beint í sóttkví í Fljótshlíðinni og þá hugsaði ég með mér að nú væri kjörinn tími láta Withsara verða að veruleika og bjóða upp á góðar heimaæfingar, enda væri væntanlega meiri þörf fyrir slíku nú en áður,“ segir hún. 

Sara Snædís segir að viðbrögðin hafi farið fram úr björtustu vonum og vinsældir síðunnar miklar.  

„Meðlimir á síðunni koma víðsvegar að úr heiminum, þar á meðal ótal konur (og reyndar karlar líka) frá Íslandi, sem mér þykir allra vænst um.  Mér þykir frábært hvað íslenskar konur hafa tekið síðunni vel og er yndislegt að fá að þjálfa svona margar íslenskar konur þrátt fyrir að vera ekki búsett hér eins og er. 

Hver æfing er 30 mínútur og er blanda af djúpum styrktaræfingum, pilates og yoga.  Æfingarnar kalla fram svita og bruna í öllum vöðvum líkamans og vinna vel á djúpvöðvunum. Engin þörf er að eiga áhöld til þess að framkvæma æfingarnar. Ef ég notast við eitthvað í æfingunum þá eru það hlutir sem hægt er að grípa í af heimilinu, eins og handklæði eða bók. Ekkert æfingarmyndband er eins, en eiga þau það sameiginlegt að styrkja allan líkamann en í hverjum tíma er ég með eitt þema og þá legg ég meiri áherslu á ákveðinn líkamspart eins og dýpri rassæfingar eða kviðæfingar,“ segir hún. 

Á hverjum mánudegi birtir hún þrjú ný myndbönd fyrir vikuna.

„Hægt er að gera hverja æfingu eins oft og hver og einn vill og taka æfingarnar hvenær sem og er hvar sem er. Einnig fá meðlimir ótakmarkað aðgengi af eldri myndböndum ef þeir vilja taka auka æfingu. Æfingarnar henta öllum og er ég dugleg að sýna útgáfur sem henta lengri komnum ásamt þeim sem vilja taka aðeins léttari útgáfu. Ég geri allan tímann með, útskýri og sýni æfingarnar og hvet fólk áfram í hverju einasta myndbandi. Það skiptir mig miklu máli að hafa upplifunina persónulega og hvetjandi.“ 

Myndböndin hennar Söru Snædísar eru mjög fagmannlega unnin. Þegar hún er spurð út í vinnsluna á þeim kemur í ljós að hún gerir þau á símann sinn. 

„Í byrjun tók ég myndböndin upp sjálf á iphone-inn minn og stillti honum upp á borð og bók og notaði sólarljósið úr sveitinni. En núna er ég komin með aðeins betra ljós og hljóðnema til þess að auka gæði og upplifun við æfinguna og maðurinn minn er mín hægri hönd þegar kemur að tæknilegu hliðinni.“ 

Hvað mælir þú með að fólk geri til að lifa þetta samkomubann af?

„Að mínu mati skiptir máli að finna leiðir til þess að halda sér eins heilbrigðum og hægt er þrátt fyrir þær takmarkanir sem settar hafa verið. Halda áfram að borða heilsusamlegan og næringarríkan mat og hreyfa sig. Þó að ekki sé hægt að hreyfa sig á sama hátt og áður er alltaf hægt að finna sér aðrar leiðir, eins og að fara í göngutúr, út að skokka eða gera æfingar heima við. Það skiptir miklu máli að halda rútínu á svefninum. Fara að sofa á svipuðum tíma og vakna upp um svipað leyti.  Það tryggir meiri gæði á svefninum, eykur orkustigið fyrir næsta dag og hvetur mann til þess að halda betri rútínu í þessu ástandi. 

Einnig mæli ég með því að ef fólk er með börnin sín heima og báðir aðilar að eru að vinna heiman frá að muna eftir mikilvægi þess að gefa sér tíma fyrir smá einveru og ró yfir daginn. Það hleður orkutankinn og hjálpar manni að halda jafnvægi.“

Hvað gerir þú til að láta þér líða betur í þessu ástandi?

„Ég passa mig að hreyfa mig á einn eða annan hátt, stundum tek ég æfingu, aðra daga fer ég út að leika eða í danskeppni í stofunni með stelpunum mínum. Það sem hentar hverju sinni er nákvæmlega eins og það á að vera! Ég reyni líka eftir bestu getu að borða næringarríkan mat því það skilar sér í meiri orku, betra jafnvægi og aukinni vellíðan!“ 

Hvað drífur þig áfram?

„Ég vil vera fyrirmynd fyrir fólkið í mínu lífi, þar helst dætur mínar.  Það sem drífur mig einnig áfram er að vera í kringum hvetjandi og jákvætt fólk sem gefur mér innblástur og að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér, bæði stór og smá.“

HÉR getur þú smellt til að finna æfingar við hæfi.  

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál