Var búin að hella sér í glas þegar hún missti vatnið

Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. …
Tinna Guðrún og Hlynur Kristinn Rúnarssons stjórna Það er von. Rebekka Hrafntinna er fyrir miðju.

Rebekka Hrafntinna, 33 ára tveggja barna móðir og alkahólisti í bata, er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Það er von. Rebekka er uppalin á Eskifirði og flutti til Akureyrar árið 2009.

Það var mikið frelsi sem fylgdi því að vera barn úti á landi. Rebekka segir að þrátt fyrir það hafi hún verið misnotuð frá sex til níu ára aldurs sem seinna varð til þess að hún flúði í hugbreytandi efni. Hún var 14 ára gömul þegar hún prófaði að drekka áfengi í fyrsta skipti og fann hún einhverja lausn í því.

Þegar Rebekka Hrafntinna var í 10. bekk lenti hún í stóru áfalli þar sem henni var nauðgað, sem ýtti undir drykkju. Í þættinum segir hún frá því hvernig hún notaði áfengi til að losna undan áföllunum. Þegar hún var 24 ára lenti hún í annarri nauðgun sem varð til þess að neyslan ágerðist og þróast.

Árið 2013 byrjar hún með manni og varð hún ólétt fljótlega en á þeirri meðgöngu og eftir hana varð hún veik. „Ég fékk rosalega mikið fæðingaþunglyndi en um leið og tækifæri gafst datt ég í það,“ segir Rebekka Hrafntinna. 

„Þegar ég missti vatnið með seinni strákinn, þá var ég heima í kósý og búin að hella í hvítvínsglas, sem betur fer ekki búin að fá mér sopa, þá púff, fór vatnið,“ segir hún spurð út í drykkju á meðgöngu.

Rebekka og barnsfaðir hennar giftu sig árið 2019 og voru þá farin að drekka óhóflega, sambandið var stormasamt og hafði áhrif á börnin. Í hlaðvarpsþættinum talar hún opinskátt um þau bjargráð sem í boði eru fyrir foreldra og börn, sektarkenndina sem hún finnur fyrir gagnvart börnunum og aðrar tilfinningar. „Ég var búin að reyna allt einhvern veginn, sálfræðingar í mörg ár, HAM, gera allt sjálf en niðurstaðan mín var alltaf að fara að drekka aftur en ekkert lagaðist.“

Rebekka flutti til Danmerkur í tíu mánuði til þess að passa börn en réði engan veginn við drykkjumenningu Dana. „Þetta er Danmörk, það má drekka í hádeginu. Ég var nýkomin út þegar ég fór á djammið og fannst morguninn eftir í snjóskafli af snjóruðningskonu.“ Líf Rebekku hefur breyst mikið og hefur hún getað fyrirgefið flestum sem hafa brotið á henni. „Ég hef fyrirgefið fyrir áföllin síðan ég var barn og unglingur.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál