Hanna Lilja Oddgeirsdóttir, læknir, opnaði nýverið klínikina Gynamedica. Klínikin er lækninga- og heilsumiðstöð ætluð konum á breytingaskeiði. Gynamedica býður upp á heildræna fræðslu, ráðgjöf og meðferð fyrir konur sem ganga í gegnum hormónaflökt sökum breytingaskeiðs.
Sérhæfðar heilsumiðstöðvar fyrir konur á breytingaskeiði þekkjast víða í löndunum í kringum okkur en hafa ekki sést hér á landi áður.
„Það er mjög misjafnt hversu næmar konur eru fyrir þessum breytingum. Sumar finna lítið fyrir því og fljúga í gegnum þetta tímabil án þess að finna mikið fyrir því og líður bara vel. En svo eru aðrar sem finna mjög mikið fyrir þessum sveiflum og eru viðkvæmar fyrir þessu falli í estrógeni,“ segir Hanna Lilja en einkenni breytingaskeiðs geta verið margslungin og misjöfn á milli kvenna.
Hanna Lilja segir svefntruflanir vera algengt einkenni tíðahvarfa tímabilsins en þá geta svitakóf og skapsveiflur einnig oft verið fyrstu einkenni.
„Það er eins og hitastillirinn í líkamanum fari svolítið úr jafnvægi þegar estrógenið fer að droppa,“ lýsir hún og sagði konur oft ekki tengja svefnleysi og svitakóf við tíðahvörf í upphafi ferlisins.
Sum einkenni breytingaskeiðsins segir Hanna Lilja eiga það til að ágerast. Í mörgum tilfellum með þeim afleiðingum að konur detti út af vinnumarkaði.
„Þetta er ótrúlega mikil breyting fyrir margar og eru kannski vanar að vera með marga bolta á lofti,“ segir Hanna Lilja. „Þú ert með fjölskyldu og starfsframa, kannski með foreldra sem þurfa meiri og meiri stuðning, félagslífið og allt á fullu. En svo allt í einu fara boltarnir svolítið að detta hjá þér,“ útskýrir Hanna Lilja og segir konur á breytingaskeiði oft upplifa mikla vanlíðan. Þá kunni kulnunareinkenni að fylgja breytingarskeiðið og upplifa margar konur mikið óöryggi og lítið sjálfstraust sem getur leitt til brottfalls þeirra á vinnumarkaði.
Hanna Lilja er gestur Berglindar Guðmundsdóttur í Dagmálsþætti dagsins. Þar ræða þær breytingaskeið kvenna í þaula þar sem jákvæð áhrif hormónauppbótarmeðferðar kemur við sögu , nýjustu rannsóknir og framtíðarsýn Gynamedica á Íslenskum markaði.
Þáttinn má sjá í heild sinni hér.