Inga Tinna flytur úr Austurkórnum

Inga Tinna Sigurðardóttir hefur sett sína glæsilegu íbúð á sölu.
Inga Tinna Sigurðardóttir hefur sett sína glæsilegu íbúð á sölu.

Inga Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Dineout hefur sett glæsilega íbúð sína við Austurkór á sölu. Íbúðin er 153 fm að stærð og er í húsi sem byggt var 2016. Inga Tinna hefur nostrað við íbúðina og búið til ævintýraheim sem kemur ekki á óvart. Hún hefur einstakt lag á að raða saman hlutum á smekklegan hátt. 

„Íbúðin er dásamleg og heldur svo vel utan um mann. Hún er með æðislegu útsýni yfir höfuðborgina og fjallgarðinn. Ég nýt þess að fara fram úr á morgnanna og líta yfir með heitan og góðan kaffibolla við hönd, það er líkast lifandi listaverki. Gatan er afar róleg og íbúðin er nánast efst í botnlanga. Íbúðin snýr frá götu svo maður verður aldrei var við umferð. Kyrrðin er æðisleg. Íbúðin er fjögurra herbergja. Ég innréttaði eitt herbergið sem líkamsrækt og hefur það komið til góða á Covid tímum. Annað herbergið, sem átti að vera sjónvarpshol, nýti ég sem skrifstofurými. Þriðja herbergið er svo svefnherbergi. Í íbúðinni er fallegt eldhús og stór stofa í opnu rými ásamt tveimur rúmgóðum svölum, baðherbergi og þvottaherbergi. Íbúðinni fylgir svo geymsla og tvö bílastæði með hleðslu fyrir rafbíl,“ segir Inga Tinna í samtali við Smartland. 

Hvað var það við þessa íbúð sem heillaði þig?

„Það sem heillaði mig við íbúðina var klárlega útsýnið, rýmin, stærðin, staðsetningin og kyrrðin. Ég vann svo í nágranna-lottó-inu sem var mikill bónus. Það eru aðeins sex íbúðir í húsinu. Nágrannarnir eru alveg frábærir og það finnst mér mikill kostur.“

Þegar Inga Tinna festi kaup á íbúðinni var hún glæný og var búið að innrétta hana. 

„Mér fannst því algjör synd að fara að skipta út innréttingum, hurðum og slíku. Þess í stað ákvað ég að nýta það sem fyrir var og breyta í takt við það sem mér fyndist flott. Ég hef mjög gaman af slíkum verkefnum og útliti heimila og því var þetta mjög skemmtilegt verkefni. Ég myndi segja að innanhúshönnun og svoleiðis pælingar væru klárlega í toppsæti yfir mín helstu áhugamál. Ég ætlaði einmitt alltaf að fara í nám í innanhúshönnun en fór þess í stað í verkfræði. Hver veit? Ég á það kannski bara eftir. Ég er svo heppin að eiga æðislegan vin sem heitir Arnar Gauti og ég fæ hann oftast til að hjálpa mér og við köstum hugmyndum á milli. Það er ómetanlegt að fá lánaða dómgreind og líka bara svo miklu skemmtilegra.

Það voru allar innréttingar viðarlitaðar þegar ég flutti inn. Eldhúsið, baðherbergið, allar hurðar, allir skápar voru í brúnum við. Ég aðhyllist mjög svart og hvítt og er ekki mikið fyrir viðarlitinn. Allt sem var viðar-litað var filmað og ég hef fengið svo margar fyrirspurnir varðandi það. Þetta er ekkert smá vel gert og þú sérð ekki að innréttingarnar hafi verið filmaðar. Það eru hvergi skil né neitt slíkt. Ég ætlaði í upphafi bara að filma eldhúsið svart en endaði svo á því að filma allar hurðar, alla fataskápa, baðherbergið og fleira. Útkoman er frábær að mínu mati. Ég hef líka fengið spurningar um hvort það sé ekki erfitt að þrífa filmurnar. Það er rosalega auðvelt og bæði hægt að gera með rakri tusku og sérstöku sprey-i sem ég kalla „Fannarinn“. Hann heitir Fannar sem filmaði allt,“ segir hún og hlær og bætir við: 

„Ég lét reisa vegg fyrir skrifstofurýmið og í kjölfarið glerhurð á svartri braut. Mér finnst það bæði fallegt og svo auðvitað hljóðeinangrandi.“

Hvað finnst þér skipta máli þegar heimili er annars vegar?  

„Mér finnst skipta mestu máli að heimilið sé sá staður sem þér líður vel á. Þetta er þinn griðarstaður og þarna eiga þægindin að vera í fyrirrúmi ásamt fegurð í þeirri skilgreiningu og merkingu sem hver og einn hefur. Ég hef mikinn áhuga á hönnun og hönnunarvörum. Ég er alin upp í þannig hugsun en mamma mín er mikið fyrir fallega hönnun og heimili. Ég keypti mér hönnunarstól og vörur fyrir sumarhýruna mína þegar ég var 14 ára og fékk svo minn fyrsta hönnunarstól í fermingargjöf. Það er stóll frá hönnuðinum Macintosh sem ég held mikið upp á. Vinkonur mínar skildu ekkert í því hvað ég var að hugsa að vera kaupa húsgögn á þessum aldri en ég þakka mömmu það í dag. Vinkonur mínar hafa svo sagt í seinni tíð að þær vildu óska þess að þær hefðu gert slíkt hið sama.

Hönnunarvörur eru oftast mjög klassískar og vandaðar og eldast svo vel með manni í hvaða rýmum sem er. Þú getur flutt oft um ævina en þessir hlutir fylgja þér alltaf og verða oft bara fallegri með árunum. Ég nota að minnsta kosti þessi rök þegar ég réttlæti sum kaup fyrir mér. Svo er auðvitað gaman að blanda öðrum hlutum með inn á milli. Ég hef líka mikinn áhuga á list. Mér finnst skipta miklu máli að spá í veggjunum en þeir vilja stundum gleymast. Veggir eru svo mikið skraut-tækifæri og geta breytt híbýlum svo mikið þegar vandað er til verka. Mér finnst fátt skemmtilegra en að pæla í hvar ég komi listaverkum fyrir og með hvaða hætti. Nýja verkið sem ég fékk mér er eftir Loja Höskuldsson. Ég gerði mér ferð til Kaupmannahafnar í sumar til að kaupa verkið á æðislegri listamessu en það er um 2 ára bið eftir verkum eftir hann. Ég er svakalega ánægð með verkið og hlakka til að setja það upp í nýju íbúðinni. Ég er með mikið af verkum eftir Pétur Gaut listmálara en mér finnst hann mála svo æðisleg verk og litapallettan alltaf svo falleg. Ég fylgist mikið með list og á marga uppáhalds þar.“ 

Hver er þín fyrirmynd þegar kemur að heimilum?

„Ég fæ innblástur í gegnum ferðalög, tímarit fyrir heimili og tísku ásamt því að skoða allskonar á netinu. Það er svo margt fallegt til og maður getur mótað það sem maður sér út frá sínu auga og sínum smekk. Samfélagsmiðlar hafa líka fært hönnun og innanhússarkitektúr nær okkur sem er frábært. Bæði Instagram og Pinterest finnst mér góðir miðlar. Þegar ég raða hlutum kemur það út frá auganu og mínum smekk. Ég er gjörn á að endurraða og breyta og fer kannski með sama vasann eða kertastjakann á 10 staði áður en ég ákveð hvað sé rétt. Ég er mikið fyrir Skandinavíska hönnun ásamt ítalskri. Ég hef verið að skoða mikið japanskan stíl núna en þar kemur viðurinn sterkur inn. Ég var svo heilluð af Tókýó þegar ég fór þangað að mig langar að færa japanskt yfirbragð nær mér. Þar er verið að hugsa um andlega þáttinn og að efni, lögun, hlutir og rými fái þig til að líða vel. Ég held ég hafi ómeðvitað lagt áherslu á það út frá því sem mér finnst ganga upp. Aðhyllist jarðliti og mýkt.“

Hvers vegna ertu að selja?

„Ég elska íbúðina í Austurkór en fann að það er kominn tími á breytingar. Mig langaði að færa mig nær miðborginni þar sem vinnan mín snýst frekar mikið um allt sem tengist menningunni í miðborginni. Ég fann penthouse íbúð sem á eftir að innrétta að öllu leyti. Það fær mig til að klæja í fingurna og ég festi kaup á þeirri eign fyrir stuttu. Sú íbúð er með æðislegu útsýni 360 gráður yfir höfuðborgina ásamt því að vera frábærlega staðsett fyrir mínar áherslur í dag. Það er alltaf svo gaman og gott að breyta til. Fyrir mig er það algjörlega nauðsynlegt. Þeir sem standa mér næst spyrja: „Hvernig í ósköpunum ætlar þú að hafa tíma í þetta?“, Ég hugsa: „If there’s a will, there’s a way, right?“ Ég er með æðislegt fólk í kringum mig sem er alltaf boðið og búið að hjálpa. Ætli ég verði ekki að þiggja það, að þessu sinni.“

Af fasteignavef mbl.is: Austurkór 98

Inga Tinna lét filma eldhúsinnréttinga og innihurðarnar. Eins og sést …
Inga Tinna lét filma eldhúsinnréttinga og innihurðarnar. Eins og sést kemur það vel út. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Fyrir ofan borðstofuborðið er Inga Tinna með ljósakrónu frá Flos …
Fyrir ofan borðstofuborðið er Inga Tinna með ljósakrónu frá Flos sem fæst í Casa. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Á veggjunum hanga falleg listaverk. Á milli glugganna er verk …
Á veggjunum hanga falleg listaverk. Á milli glugganna er verk eftir Loja og fyrir ofan má sjá verk eftir Línu Rut. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Hvítur Barcelona-stóll prýðir stofuna. Hann fer vel við stórt verk …
Hvítur Barcelona-stóll prýðir stofuna. Hann fer vel við stórt verk eftir Pétur Gaut. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Hvern dreymir ekki um líkamsræktarherbergi með speglaklæddum vegg eins og …
Hvern dreymir ekki um líkamsræktarherbergi með speglaklæddum vegg eins og sjá má á heimili Ingu Tinnu. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Heimaskrifstofan er rúmgóð og þar ríkir mikill friður til að …
Heimaskrifstofan er rúmgóð og þar ríkir mikill friður til að vinna. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Í svefnherberginu er stór flauelsgafl sem setur svipa á herbergið.
Í svefnherberginu er stór flauelsgafl sem setur svipa á herbergið. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Hvíti Barcelona-stóllilnn og Pétur Gautur skapa góða partýstemningu saman.
Hvíti Barcelona-stóllilnn og Pétur Gautur skapa góða partýstemningu saman. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Það er nauðsynlegt að hafa gott pláss undir skó og …
Það er nauðsynlegt að hafa gott pláss undir skó og töskur. Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
Ljósmynd/Fasteignaljósmyndun.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál