Keravík kaupir 195 milljóna hús á Arnarnesi

Mávanes 7 hefur verið endurnýjað mikið en 2017 var húsið …
Mávanes 7 hefur verið endurnýjað mikið en 2017 var húsið endurhannað af Gláma-Kím. mbl.is/MM

Einbýlishúsið við Mávanes 7 í Garðabæ var teiknað af Guðmundi Kr. Kristinssyni árið 1968. Það var lengi í eigu Ásmundar Stefánssonar hagfræðings en árið 2016 keypti félag Sigurðar Gísla Björnssonar, sem oft er kenndur við Sæmark, húsið í gegnum félagið Gárungana. 

Í febrúar sl. var húsið selt og var það félagið Keravík ehf. sem festi kaup á húsinu. Kaupverðið er 195 milljónir króna. Eigandi Keravík ehf. er fasteignafélagið Pluma ehf. sem átti húsið fyrir. Við það að færa húsið af Plumu ehf. og yfir á Keravík efh. hækkaði verðmiðinn um fimm milljónir. 

Þegar Ásmundur seldi húsið 2015 var ásett verð 110 milljónir. Síðan þá hefur húsið verið endurbyggt. 

Það var arkitektastofan Gláma-Kím sem hannaði endurbæturnar og en húsið var byggt upp frá grunni. 

„Innra fyrirkomulagi hússins var breytt, það stækkað og aðlagað þörfum eiganda. Allar innréttingar voru endurnýjaðar og ytri hjúpur endurgerður og endurklæddur að hluta. Við hönnun og útfærslu á breytingunum var meginmarkmiðið að halda tryggð við þá hugmynda- og formfræði sem lá til grundvallar þegar það var reist. Natni og alúð var lögð í úrlausn og framkvæmd á öllum frágangi,“ segir á vef arkitektastofunnar en þar er hægt að sjá myndir af húsinu. 

Húsið við Mávanes 7 er við hliðina á lóð sem Gylfi Þór Sigurðsson og Alexandra Helga Ívarsdóttir festu kaup á 2020. 

Mávanes 7 leit svona út þegar það var selt 2015.
Mávanes 7 leit svona út þegar það var selt 2015.
mbl.is