Keypti mynd Steinunnar Ólínu í Góða hirðinum

Kristbjörg Sigurjónsdóttir keypti málverk í Góða hirðinum sem Steinunn Ólína …
Kristbjörg Sigurjónsdóttir keypti málverk í Góða hirðinum sem Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hafði lánað í kvikmyndaverkefni. Samsett mynd

Kristbjörg Sigurjónsdóttir ljósmyndari keypti málverk eftir Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur í Góða hirðinum fyrir um einu og hálfu ári síðan. Hún varð heldur betur hissa þegar kom í ljós að leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir væri að auglýsa eftir málverkinu. Kristbjörg bíður nú eftir því að Steinunn Ólína komi og sæki málverkið sitt.

Þegar Steinunn Ólína auglýsti eftir málverkinu á Facebook lýsti hún því hvernig hún lánaði kvikmyndafyrirtæki málverkið en svo hafi það týnst. Málverkið hefur líklega lent í Sorpu og farið þaðan í Góða hirðinn. Kristbjörg keypti það í netverslun búðarinnar fyrir 12.500 krónur en Kristbjörg á enn kvittunina.

Móðir Kristbjargar sagði Kristbjörgu frá færslu Steinunnar Ólínu. „Ég fór inn á síðuna hjá henni og hún var með mynd af málverkinu. Þetta er bara málverkið sem ég keypti í fyrir einu og hálfu ári síðan í netverslun Góða hirðisins. Hún er búin að hanga uppi hjá mér í eitt og hálft ár. Þetta er mjög falleg mynd,” segir Kristbjörg sem sá sjálfa sig í málverkinu. Kristbjörg hefur alltaf elskað bjöllur en myndin sýnir einmitt bláa bjöllu stoppa fyrir ljóshærðri konu í brúnum frakka og röndóttum sokkabuxum.

Málverkið er búið að hanga uppi á vegg hjá Kristbjörgu …
Málverkið er búið að hanga uppi á vegg hjá Kristbjörgu í eitt og hálft ár en hún hafði ekki hugmynd um sögu verksins. Ljósmynd/Kristbjörg Sigurjónsdóttir

Kristbjörg segir það ekki fara á milli mála að þetta sé sama myndin. Hún hafði því samband við Steinunni Ólínu og sagðist vera með myndina. Steinunn Ólína á eftir að koma að sækja myndina en Kristbjörg segir að það hafi ekki komið til greina að halda myndinni eftir að hún komst að forsögunni. „Ég fengi enga ánægju af því að eiga mynd sem ég veit að einhver annar á og er að leita að. Sama hvað mér finnst hún flott. Mig langar ekki í þessa mynd lengur, þetta er hennar mynd,“ segir Kristbjörg. 

„Ég er eiginlega bara fegin að það var ég sem keypti þessa mynd. Ég veit ekki hvort einhver annar hefði tekið eftir þessari færslu eða verið heiðarlegur. Ég náttúrlega keypti þessa mynd og á hana í dag en ég lít ekki á það þannig. Ég myndi ekki vilja að þetta kæmi fyrir mig,“ segir Kristbjörg sem líður vel í hjartanu að geta komið myndinni aftur til eiganda síns. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

Sigga Dögg kynfræðingur Betra kynlífs svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda