Konur á einhverfurófi greindar of seint

Ljósmynd/Snæþór Sigurbjörn Halldórsson

„Konur á einhverfurófi eru sjaldan til umræðu og langar mig að vekja athygli á því. Þegar einhverfa er í umræðunni þá snýr hún yfirleitt að strákum og maður heyrir allt of sjaldan um stúlkur í þessu samhengi. Hugsanlega spilar arfleifð Hans Asperger inn í að hluta til en hann tengdi einhverfu eingöngu við karlmenn þegar einhverfa var að uppgötvast. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar,“ segir Þórey Kristín Þórisdóttir, klínískur sálfræðingur og heilsumarkþjálfi. 

Það skal játast að tíðni greininga er mun lægri hjá kvenkyninu. Fyrir hverja konu sem fær greiningu í Bandaríkjunum fá 4 karlmenn greiningu. Í sumum löndum er tíðnin 16 á móti einum. Þar að auki hafa greiningarviðmiðin oft verið mjög karllæg sem getur orðið til þess að stúlkur fái ekki greiningu fyrr en of seint.

Nýlegar rannsóknir síðastliðin ár hafa leitt í ljós að mun fleiri konur eru á einhverfurófi en talið var. Ýmsar kenningar eru uppi til að skýra það. Félagslegi hlutinn kemur þarna sterkt inn, en félagslegir erfiðleikar eru eitt af einkennum einhverfu. Kvenfólk er betra í að hylja þessi einkenni þar sem þær eru betri í að herma eftir hegðun annarra eins og t.d. félagsfærni. Það er ekki þar með sagt að konur skilji félagslega hlutann betur heldur eru þær betri í að aðlagast félagslegum venjum.

Rannsóknir hafa þar að auki fundið kynjamun sem sýnir að stúlkur á einhverfurófinu eigi auðveldara en strákar með að vera í nokkuð stöðugu vinasambandi. Stúlkur á einhverfurófinu eru einnig síður líklegri til eiga við ytri hegðunarvandkvæði að stríða eins og t.d. ofvirkni eða hvatvísi. Vandamál þeirra eru líklegri til að vera innri og koma fram í kvíða, þunglyndi eða átröskun. Stúlkur eiga það einnig til að skora lægra á kvarða yfir endurtekna hegðun. Þetta getur orðið til þess að nánum aðstandendum og starfsmönnum opinberra stofnana (leikskóla eða skóla) yfirsjást einkennin hjá stúlkum þar sem þau eru minna áberandi en hjá strákum. Að vera „róleg eða passív“ er frekar samþykkt sem æskileg hegðun þegar talað er um stúlkur heldur en stráka, sem verður enn frekar til þess að þær fara undir radarinn.

Margar konur sem hafa verið að greinast seint tala um mikinn létti þegar þær hafa fengið rétta greiningu og þá aðallega varðandi sjálfsskilning. Oft og tíðum hefur þessi hópur fengið aðrar greiningar líkt og persónuleikaröskun, þunglyndi eða kvíða. Ein stúlka sem greindist um þrítugt lýsti því þannig að þegar að hún mætti í vinnuna aðlagaði hún sig öllum félagslegum venjum á vinnustaðnum en þegar heim var komið sökk hún í djúpa holu þunglyndis. Að „þykjast“ vera eðlileg var andlega og líkamlega tæmandi sem leiddi til örmögnunar og depurðar.

Ein tók saman síðastliðin 5 ár fyrir rétta greiningu og setti saman í eina setningu „4-5 árum eytt í þunglyndis- og kvíðameðferð.... ár sem fóru í samtalsmeðferð og aldrei var minnst á að ég gæti haft eitthvað annað en þunglyndi.“

Það er svo mikilvægt að beina athyglinni í auknum mæli að stúlkum. Rétt greining ýtir undir viðeigandi meðferðarúrræði og aukinn sjálfskilning á því af hverju ákveðin viðbrögð við umhverfinu og fólki eru eins og þau eru. Að fá rétta greiningu getur verið afgerandi fyrir bætta líkamlega og andlega heilsu einstaklinga. Það á enginn að þurfa að burðast með ranga greiningu og tilheyrandi ranga nálgun í meðferðarúrræðum sem auka á andlega vanlíðan.

Heimildir:

The Experiences of Late-diagnosed Women with Autism Spectrum Conditions: An Investigation of the Female Autism Phenotype, BBC News, Autism.org.uk og Organization for Autism Research

Hægt er að senda Þórey fyrirspurnir á info@mindtherapy.dk 

Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.
Þórey Kristín Þórisdóttir, sálfræðingur og heilsumarkþjálfi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál