„Eiginmaður vinkonu minnar er að gefa mér undir fótinn“

Það getur verið vandasamt að blanda sér í deilur fólks …
Það getur verið vandasamt að blanda sér í deilur fólks sem maður getur ekki leyst. Að setja heilbrigð mörk er alltaf fyrsta skrefið út úr þannig vanda. Ljósmynd/Unsplash

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er komin í vanda, þar sem eiginmaður vinkonu hennar er að gefa henni undir fótinn. Hann er líklegast á örvandi efnum.

Sæl Elínrós

Ég er í smá uppnámi og veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þessu. Þannig er að besta vinkona mín er gift manni sem er aðeins að færa sig upp á skaftið í okkar samskiptum. Hjónaband þeirra er búið að vera erfitt og hefur vinkona mín deilt sínum hjartans málum með mér. Ég hef passað vel að brjóta ekki trúnað hennar. Nú er maðurinn hennar hinsvegar farinn að hringja í mig oft í viku sem mér finnst óþægilegt. Fyrst hélt ég bara að hann liti á mig sem vinkonu sína af því ég er vinkona eiginkonu hans en nú held ég að ég þurfi að játa að hann er að gefa mér undir fótinn. Mér finnst ég ekki geta rætt þetta við vinkonu mína því ég veit að það mun allt springa í loft upp hjá þeim. En ég vil að þessi símtöl hætti. Ég hef prófað að svara honum ekki og þá hringir hann bara aftur og aftur og aftur.

Mér skilst að þessi eiginmaður vinkonu minnar noti örvandi efni eins og kókaín og amfetamín. Ég veit ekki hvort það sé hægt að klína því yfir á þessa furðulegu hegðun mannsins. Hvað myndir þú gera í þessari stöðu?

Kveðja, Þ

Elínrós Líndal starfar sem fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal starfar sem fjölskylduráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar.

Takk fyrir að senda inn erindið. 

Ég myndi ráðleggja þér að finna góða leið til út úr þessum samskiptum sem fyrst. 

Til að styðja þig í þeirri ákvörðun þá er gott fyrir þig að muna að vinir í raun, setja  kærleiksrík mörk, benda á lausnina og treysta síðan ferlinu. 

Þar sem þessi samskipti virðast vera komin langt yfir mörkin þín gæti verið áhugavert fyrir þig að skoða hvar þú hefðir viljað stoppa samskiptin fyrst? Svona hluti skoðar þú með fagaðila og er grunnvinnan í að setja mörk. 

Mér finnst skynsamlegt og heilbrigt að þú hafir ekki áhuga á að svara þessum símtölum. Ef þú vilt setja góð mörk, getur þú sent ein skilaboð eftir næsta símtal sem þú myndir þá skoða að svara ekki. Þessi skilaboð geta verið á þá leið að þig langi ekki að blandast í þetta mál og þú biðjir hann um að virða þau mörk sem þú setur í þessu máli. Síðan getur þú óskað honum góðs gengis.

Síðan er alltaf gott að raða og flokka. Þetta er í raun og veru ekki þinn vandi, heldur þeirra. Hans vandi ekki þinn. 

Enda trúi ég því að þú hafir ekki áhuga á að rugla reitum með manni sem er eiginmaður vinkonu þinnar og í neyslu í þokkabót. Það mun vera gott fyrir þennan aðila að fá sterk mörk. Þá gæti hann áttað sig á að hann er kominn langt út fyrir eitthvað sem gæti þótt eðlilegt að ástunda. Í raun er hann að meiða sig fyrst, síðan konu sína og væntanlega börnin þeirra líka.

Að vera vanmáttug í svona aðstæðum er eðlilegt. Að fá lánaða dómgreind í þessu er nauðsynlegt. Þegar við fáum lánaða dómgreind frá fagfólki, stækkar okkar svæði í lífinu, við setjum betri mörk og fáum verkfæri til að lifa því lífi sem okkur langar að lifa. 

Af því þú spyrð hvað ég myndi gera langar mig að segja eitt að lokum.

Mér líður ekki vel í kringum fólk í virkri neyslu og vil reyna að halda umhverfinu í kringum mig og börnin mín þannig að það sé ekki mengað af slíku. 

Ég reyni að taka því ekki persónulega ef fólk (eða vinir mínir) velja slæman félagsskap eða einhverskonar efni fram yfir vináttuna við mig.  

Ég vona að þú setjir þig í fyrsta sæti í þessu máli og vinkona þín og eiginmaður hennar nái að vinna út úr sínum málum, í rólegheitum með fagaðila. 

Gangi þér sem allra best. 

Kær kveðja, Elínrós. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál