Heimurinn er á röngunni ... og mér leiðist

Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi.
Sara Oddsdóttir markþjálfi og ráðgjafi. mbl.is/Árni Sæberg

„Og mér leiðist! Ég kemst hvorki í sund né jóga þessa dagana sem er mín leið til að næra mig andlega og líkamlega. Vinnan mín, sem gengur út á að hitta fólk, er með öðru sniði. En ég er að velta fyrir mér þessum félagslega þætti sem við nærum þegar við förum í vinnuna, jógasalinn, ræktina, skólann og svo framvegis,“ segir Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Maðurinn er félagsdýr, en félagsdýr er dýrategund sem hefur mikil samskipti við önnur dýr, sérstaklega af sömu tegund og býr sér til eins konar samfélag. Samfélagið getur verið vinnustaðurinn, líkamsræktin, skólinn og auðvitað heimilið. Hvort sem það er þitt heimili, vinafólks eða fjölskyldu þá er ein af grundvallarþörfum okkar að tilheyra samfélagi. Við getum líka tilheyrt fleiri en einu samfélagi. Við þurfum öll að vera séð og að sjá aðra. 
Gefa og þiggja.

Eins og staðan er í dag þá er aðgengið að samfélaginu sem við tilheyrum ekki það sama og venjulega. Við nýtum okkur ýmsar leiðir til að sinna því sem við erum vön að sinna. Ég get talað við viðskiptavini mína á Zoom og gert jóga heima, en það er ekki það sama. Þessi grunnþörf okkar að tilheyra og vera séð verður ekki nærð á sama hátt með Zoom eða jóga inni í stofu. Auðvitað fagna ég því að það sé hægt yfirhöfuð en það nærir ekki grunnþörfina að tilheyra samfélagi. Því jógasamfélagið mitt er ekki heima í stofu, heldur í Sólum þar sem ég stunda jóga. 

Það að mér leiðist er í raun tómið eða skortur á tengingu við samfélagið sem ég tilheyri. Við viljum oft ekki tala um erfiðar tilfinningar. Tilfinningar eins og einmanaleiki eru nokkuð sem margir, þar á meðal ég, finna fyrir einmitt núna. Mér leiðist ekki, heldur er ég einmana. Ég veit alveg að það er ekki varanlegt ástand og það að vera einmanna skilgreinir mig ekki. Ég er alveg jafn sterk og hamingjusöm þó svo ég sé einmana. Þetta er aðeins skortur á að tilheyra því samfélagi sem ég tilheyri og mér þykir vænt um. Þar sem ég er séð og metin að verðleikum. 

Allt tilfinningarófið er eðlilegt, sumar tilfinningar eru auðveldari en aðrar en allar heilbrigðar. Erfiðar tilfinningar eru til dæmis skömm, ótti, reiði og einmanaleiki. Að halda aftur af erfiðum tilfinningum eða loka á þær er ekkert annað en viðnám gagnvart okkur sjálfum. Með því höfnum við hluta af okkur sjálfum. 

Að skoða erfiðu tilfinningarnar, eins og ég er að skoða einmanaleikann, þarf ekki að vera svo slæmt. Þú getur hugsanlega öðlast betri sjálfsþekkingu en oft er óttinn við að kíkja þangað inn stærri en það sem bíður þín. Með því að skoða erfiðu tilfinningarnar færðu ekki bara tækifæri til að sjá hvað þú óttast heldur líka hvað þú þráir. Kannski koma gömlu sárin, sem þú passar svo vel að enginn sjái, í veg fyrir að þú þorir að sækja það sem þú raunverulega vilt. En með því að hafna því að sárið sé til staðar hafnar þú í leiðinni hluta af þér. 

Vertu þess í stað forvitinn, það gæti gefið þér færi á endurskoða hvað þú hefur lokað á og þráir í raun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál