Íslensk kona er föst í hræðilegu hjónabandi

Það er mikilvægt að staldra við í hjónaböndum þegar fólk …
Það er mikilvægt að staldra við í hjónaböndum þegar fólk hefur þá tilfinningu að það sé fast og komist ekki í burtu. Ljósmynd/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ein­stak­lings- og fjöl­skylduráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem er er föst í hjónabandi sem hún kemst ekki úr. 

Sæl Elínrós

Mig vantar ráðleggingar frá þér varðandi eiginmann minn. Þannig er mál að maðurinn minn stjórnar öllu á heimilinu og þá meina ég öllu. Ef allt er ekki eins og hann vill hafa hlutina þá bara tryllist hann og byrjar að rakka mig niður fyrir framan börnin og stundum tekur hann kast á þeim líka. Hann meira að segja reynir alla daga að finna eitthvað til að kvarta yfir, hina minnstu smámuni þannig að í rauninni má segja að við öll tiplum á tánum hérna heima. Hann er ekki pabbi barnanna, en hann hagar sér heldur ekki eins og stjúppabbi. Samt lætur hann eins og hann stjórni öllu sem fram fer á heimilinu. Ég hef tekið eftir breytingum hjá bæði stráknum og stelpunni minni og sé að þau eru ekki ánægð með stöðuna eins og hún er núna. Við gengum í hjónaband fyrir 2 1/2 ári síðan en þá var staðan aðeins betri. Krakkarnir mínir hafa spurt mig af hverju hann sé að fá svona brjálæðisköst en ég hef engin svör því ég veit ekki hvað gengur á hjá honum.

Hann talar alltaf um virðingu og að við virðum hann ekki en það er alls ekki rétt. Ég hef rætt við hann að við færum í hjónabandsráðgjöf en það vill hann ekki. Ég og börnin erum orðin svo paranojuð yfir því hvort eða hvenær næsta kast kemur hjá honum og er þetta farið að hafa mikil áhrif á daglegt líf okkar. Ég er orðin þannig að ég hlakka til þegar hann er farinn í vinnuna á morgnana en svo kemur kvíðinn yfir mig þegar hann er rétt ókominn heim úr vinnu milli 3 og 4 á daginn.

Þegar hann er heima og hann sér að ég er að sinna börnunum eða tala við börnin og jafnvel hjálpa þeim með heimalærdóminn þá þarf hann að trufla mig með því að segjast þurfa eitthvað eða að ég verði að gera eitthvað fyrir hann akkúrat á þeirri stundu, og ef ég bið hann að bíða smástund meðan ég klára með börnunum þá verður hann alveg vitlaus í skapinu. Þá tekur við mikil fýla hjá manninum og oft er það þannig í marga daga ef allt snýst ekki einungis um hann og hans þarfir. Ég er orðin svo aðframkomin af þreytu og streitu að standa í þessu og mér finnst ég vera föst í þessum aðstæðum.

Ég er með eigin rekstur og er ég nánast hætt að geta sinnt vinnunni minni vegna heimilisaðstæðna hjá okkur. Við fórum eitt sinn saman til heimilislæknis okkar og þá einmitt tók maðurinn minn kast á mig fyrir framan lækninn og tók læknirinn ákvörðun um að senda mig í blóðprufu á meðan læknirinn tæki manninn minn eintali á stofunni. Það snerist mikið um að maðurinn minn sagðist vilja giftast fleiri konum en bara mér og læknirinn útskýrði það fyrir honum að það væri alls ekki löglegt hér á landi.

Maðurinn minn er erlendur og hann er múslimi og er vanur allt öðruvísi aðstæðum ef það útskýrir eitthvað af þessu sem ég hef verið að lýsa hér. Ég hef farið í viðtöl í Bjarkarhlíð og fleiri stöðum og hef sótt um skilnað í fyrra vegna aðstæðna því ég er hreinlega að fara yfir um en hann vil ekki skilnað. Mér er sagt að ég þurfi að fá mér lögfræðing en ég hef bara ekki efni á því vegna þess að ég skulda töluvert en þær skuldir komu hratt þegar við giftum okkur því ég átti að senda ættingjum hans peninga í hverjum einasta mánuði, því við værum gift og það væri mín ábyrgð og skylda að senda hans fólki eitthvað til að lifa á.

Ég veit vel hvernig ættingjar hans lifa því ég hef sjálf verið á þessum slóðum fyrir nokkrum árum. En ég get í rauninni ekki haldið svona áfram því ég og börnin erum orðin mjög stressuð yfir ástandinu á heimilinu. Ég á eldri börn sem eru uppkomin og skilja þau ekkert í af hverju ég er enn þá gift þessum manni.

Málið er að ég er föst í þessum aðstæðum. Við, ég og börnin mín, þurfum hjálp og þess vegna skrifa ég þér í þeirri von að fá svör um hvað ég geti gert til að bæta ástandið hjá okkur. Getur maðurinn minn lagast eða alla vega róast eða þarf hreinlega að fjarlægja hann af heimilinu?

Nágrannar okkar hafa spurt mig nokkrum sinnum hvort það sé ekki örugglega allt í lagi, því nágrannarnir heyra öskrin í honum nánast daglega. Ég skulda yfirdráttarheimild, lán hér og þar og smálán líka sem ég kemst varla yfir að greiða niður því mín laun hafa lækkað vegna kvíðans sem maðurinn veldur mér. Ég hef aldrei skuldað svona mikið áður. Í hverjum einasta mánuði eigum við að senda ættingjum hans 100 - 250 þúsund krónur en það finnst mér mjög óraunhæft vegna þess að það kostar miklu minna að lifa af þarna úti í heimalandi hans heldur en hér á Íslandi. Hvað á ég að gera? Ég er ráðalaus. Mér finnst eins og við séum ekki í hjónabandi því við sofum ekki saman og höfum ekki gert í næstum heilt ár. Áhugi minn á honum hefur dvínað mikið og ég sé enga aðra leið en skilnað sem hann tekur ekki í mál.

Kveðja,

Ein ráðalaus. 

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sæl og takk fyrir að senda mér bréfið.

Þú þarft ekki samþykki neins þegar kemur að skilnaði. Hins vegar þarftu leiðsögn fagfólks um hvernig sé best að vinna sig út úr þeim aðstæðum sem þú ert í — í dag að mínu mati. 

Til að hjónaband virki að mínu mati þá þurfa báðir aðilar að vera með svipað mikið af löngunum og þörfum til að vera í sambandinu. Það þarf að setja heilbrigð mörk og það þarf að fara eftir heilbrigðum mörkum makans. 

Ég held það þurfi kraftaverk til að maðurinn þinn breytist. Góður ráðgjafi gæti aðstoðað eiginmann þinn í að skilja menningarlegan mun, forsögu sína og heilbrigð mörk. En ef hann hefur ekki áhuga á að vinna í sér og bæta hjónabandið þá veit ég ekki hvernig ástandið ætti að breytast.

Það er ekki sannleikurinn um hjónabandið þitt að þú sért föst. Því þannig er málunum ekki háttað í grunninn. Það er hins vegar eðlilegt að það sé upplifun þín á ástandinu í dag.  

Ég myndi byrja á því að setja heilbrigð mörk inn í sambandið. Stoppa allt sem þú hefur ekki áhuga á að gera lengur og setja spurningarmerki við allt sem fer inn fyrir orkuna þína. 

Ég mæli með að halda áfram í viðtölum í Bjarkarhlíð. Þú átt rétt á að eiga eðlilega samskipti á þínu heimili og heimilið á að vera griðastaður. Það er hjálp á mörgum stöðum en samstarfsaðilar Bjarkahlíðar eru m.a. Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið og fleiri.

Ef þér finnst lífi þínu og barnanna þinna ógnað þá mæli ég með að þú hikir ekki við að hringa í neyðarlínu 112, hvenær sem er sólahringsins. Eins getur þú farið niður á lögreglustöðina á Hverfisgötu, eða til lögreglunnar hvar sem þú ert búsett, rætt við rannsóknarlögreglumann eða -konu þar, greint frá aðstæðunum þínum og beðið um aðstoð. Eitt af því sem lögreglan getur gert er að setja númerið þitt á skrá, svo brugðist sé fljótt við ef þú leitar aðstoðar þangað. Lögreglan hefur bætt mikið verkferla sína í tengslum við heimilisofbeldismál og vinnur í nánu sambandi við félagsþjónustu sveitarfélaga á hverjum stað til að tryggja þolendum eins góða þjónustu og hægt er. Starfað er eftir þolendamiðaðri nálgun í dag. 

Eins vil ég mæla með 12 spora samtökum á borð við Al-Anon og SLAA, þar sem þú getur fengið þér sponsor og fengið þannig lánaða dómgreind frá félaga sem hefur farið í gegnum það sama og þú ert að gera núna. Aðila sem hefur náð sér á strik og kann allar litlu leiðirnar sem þú þarft að fara daglega. 

Ef þú hikar við að setja mörk í sambandinu af því þú óttast ofbeldi eiginmanns þíns hvet ég þig til að vinna með ráðgjafa hjá Kvennaathvarfinu í næstu skrefum fyrir þig áfram. Þar starfar fagfólk sem vinnur daglega með konum sem eru á svipuðum stað og þú ert. Þetta eru konur úr öllum stéttum og á alls konar aldri. Hægt er að fá vistun þar tímabundið með börnin ef það er eina leiðin fyrir þig að komast í öruggt skjól í bili. Eins veit ég að unnið er í úrræði til að veita konum skjól í lengri tíma í náinni framtíð. 

Á heimasíðu Kvennaathvarfsins má finna skilgreiningu á andlegu ofbeldi. Þar segir m.a. að dæmi um andlegt ofbeldi er þegar maki þinn:

  • Öskrar á þig
  • Gerir lítið úr þér
  • Hótar eða ógnar þér
  • Lætur þér líða eins og þú þurfir virkilega á honum að halda
  • Einangrar þig frá vinum og fjölskyldu
  • Kemur á tilfinningu hjá þér um yfirvofandi ofbeldi
  • Áreitir þig stanslaust
  • Niðurlægir þig
  • Lætur þér líða eins og þú sért föst í sambandinu

Peningar koma og fara og það má alltaf semja um þá. Á heilsuna setjum við hins vegar ekki verðmiða. 

Að lokum langar mig að segja eitt. Ég vona að þú finnir kraft innra með þér og fáir alla þá hjálp sem þú þarft til að koma börnum þínum og þér í öruggt skjól. Þú átt skilið skilning, ást og virðingu í leiðsögn út úr þessum aðstæðum.

Ég hafði samband við ríkislögreglustjóra við ritun svarsins. Það verður tekið vel á móti þér ef þú þarft/þegar þú ert tilbúin.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál