Íslenskur karlmaður vill losna úr ofbeldissambandi

Sumir karlmenn eru fastir í óheilbrigðum samböndum.
Sumir karlmenn eru fastir í óheilbrigðum samböndum. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal, ráðgjafi, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karl­manni sem velt­ir fyr­ir sér hvernig hann eigi að stöðva ofbeldi í hjónabandinu sínu. 

Sæl.

Mig langar að leita ráða hjá þér varðandi eina frásögn  sem send var til þín um daginn „Var í 12 ár í ofbeldissambandi við konu“.

https://www.mbl.is/smartland/samskipti/2020/06/06/var_i_12_ar_i_ofbeldissamandi_vid_konu/

Mér fannst þetta mjög áhugaverð lesning og ég held að þetta sé miklu algengara en nokkurn grunar. Við (karlmenn) erum jú „sterkara“ kynið og eigum ekki að kvarta, allra síst út af samskiptum við konur og að þær beiti okkur líkamlegu ofbeldi. En án vafa þá held ég að þetta sé miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir.

En að mér þá, eftir lestur þessarar frásagnar þá rann upp fyrir mér ljós. Þetta gæti allt eins hafa verið ég sem skrifaði þetta. Ég er búinn að vera í sambandi við konu í þessi 12 ár og reyndar gott betur. Við búum vel og vanhagar í raun ekki um neitt í lífi okkar í dag. Ég er hins vegar ekki sáttur og líður ekki vel, er eiginlega pínu áttarvilltur. Nú hefur allavega kviknað smá ljóstíra og mér finnst ég sjá fram á veginn.

Ég er búinn að upplifa mikið af þessum hlutum sem þessi aðili upplifði. Verið sleginn, kýldur, klipinn, sparkað í mig, hent niður tröppur, hrækt á mig og svo öll skiptin sem hlutum hefur verið kastað í mig eða þeir einfaldlega skemmdir. Sameiginlegt með fyrri frásögn er að alltaf á ég sök eða stóran þátt í þessu, þ.e.a.s. þetta var mér að kenna, það var eitthvað sem ég sagði, gerði eða sagði ekki eða gerði ekki.

Allt þetta hefur valdið mér miklu hugarangri í gegnum árin, hvað get ég gert til að laga þetta. Tel mig hafa reynt það mesta sem hægt er að gera en aldrei virðist það vera nóg. Hvað er nóg? Síðustu ár erum við (ég og börnin) ómeðvitað farin að tippla á tánum í kringum konuna. Verð að játa að mér líður mjög illa yfir þessu og þetta hefur að sjálfsögðu áhrif á börnin. Einnig hef ég velt fyrir mér hvort vandamálið sé alltaf ég, það fer þó allavega ekkert á milli mála í rifrildunum hvar sökin liggur enda er ekki hlutstað á mótrök, sökin er alltaf mín eða einhvers annars.

Svo ég komi nú aftur að þessari frásögn þessa manns úr þessu ofbeldissambandi þá talar hann um að hún gæti verið narsissisti. Svo þegar ég „gúggla“ þetta orð þá get ég heimfært þetta nánast allt saman upp á mína konu.

Þannig að spurning mín til þín í framhaldinu er hvað á ég að gera? Eitt er að ljúka hjónabandinu en svo er hvort maður eigi að láta hana vita að þessu. Telur þú að það myndi hjálpa eða leysa eitthvað? Ef lausnin er að fara í sitthvora áttina þá þurfa börnin þó alltaf að búa við þetta og þær aðstæður vil ég síður bjóða þeim upp á nú þegar ég er búinn að „sjúkdómsgreina“ hana.

 Með kveðju,

Einn áttarviltur, bugaður og hjálparþurfi

Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands.
Elínrós Líndal ráðgjafi svarar lesendum Smartlands. mbl.is/Saga Sig

Sæll og takk fyrir bréfið. 

Svar mitt til ykkar sem búið við andlegt og líkamlegt ofbeldi er alltaf það sama: Það er ekki í lagi að búa við slíkt og þú ættir því að gera allt sem þú getur til að stoppa það. Ég er algjörlega ósammála að til sé sterkara kyn, það er hugsanavilla sem á ekki rætur að rekja til neinna fræða. 

En aftur að þér. Lausnin í þinni stöðu er alltaf að setjast niður með einhverjum sem þú treystir og segja frá. Fáðu aðstoð við að setja góð mörk og að ræða þau við maka þinn.

Dæmi um góð mörk eru: Ég ætla ekki að vera í sambandi þar sem ofbeldi er í gangi. Það er ekki í lagi að vera í sambandi, þar sem öðrum aðilanum er alltaf kennt um allt sem miður fer. Ég ætla að læra að taka ábyrgð á mér og leyfa svo maka mínum að taka ábyrgð á sér. 

Síðan þarftu að spyrja þig: Af öllu því sem ég get verið að gera er þetta sambandið sem mig langar að vera í?

Það er er ákaflega hættulegt að mínu mati að búa í samfélagi sem rómar sambönd og hjónabönd, sama hvað er í gangi inn í þeim. 

Ég vinn ekki við að greina fólk eftir kenningum sálfræðinnar og finnst oft ekki hjálpa mikið í aðstæðum sem þínum að setja merkimiða á einstaklinga. 

Það geta allir sem vilja, unnið í hjónaböndunum sínum og samböndum við annað fólk. Samskipti við annað fólk er ekki fasti sem helst óbreyttur. Þau verða annað hvort betri með tímanum eða verri. Ef hjónabandið þitt er ekki að verða betra með árunum, þá má alltaf setjast niður með góðu fólki og ræða það. 

Heilbrigt samband fær fólk til að vaxa. Þar eru opin samskipti og báðir aðilar eru til staðar fyrir hvorn annan. Fólk umgengst marga og allir aðilar verða betri útgáfa af sér. Það kemur yfirleitt eitthvað upp á, sem fólk lærir af og verður sterkara af. 

Í eitruðum samböndum, þar er óheiðarleiki, þar er rifist á þann hátt að annað hvort fer einhver, það er öskrað eða einhver fær á baukinn. Í þannig samböndum veikist fólk og það er lokað fyrir umheiminum. Hlutirnir eru þá oft faldir. 

Ég vinn út frá þeirri hugmynd að allt sem ekki er ást er boð um áfall (e invitation to trauma). Af því sögðu, þá myndi ég fara að hugsa einstaklega vel um sjálfan mig og börnin mín í þínum sporum. Ef líkaminn á þér skynjar hættu, þá þarftu að hlusta á hann. Vinstra heilahvelið í fólki getur verið einstaklega hæft í að finna rök fyrir því að halda áfram eitt skipti í viðbót og vona að hlutirnir fari betur. Á meðan líkaminn er með allskonar verki og innsýn inn í að hætta sé á ferð. 

Ef þú elskar konuna þína þrátt fyrir átökin, sestu þá niður með henni og segðu henni það. Þau pör sem ég vinn með ná að stoppa að meiða hvort annað. En veruleiki þeirra kvenna sem ég vinn með er vanalega þannig að ef þær missa stjórn á sér, þá er vanalega búið að fara mikið yfir mörkin þeirra. Það hefur þá verið um framhjáhald að ræða, forðun í hegðun, ofneysla áfengis, eða aðrir hlutir sem hafa meitt þær. Þær eru flestar með tengslavanda og tengjast mönnum með sömu áskorun. Þetta hafa rannsóknir dr. Patrick Carnes stutt og sýnt, sem og dr. Patricial Allen og dr. Alex Katehakis ef þig langar að halda áfram að leita þér að upplýsingum og fara dýpra en í „dualískar“ kenningar eins og þá sem þú nefnir hér að ofan. 

Nú er ég ekki að segja að þín kona hafi afsökun fyrir því hvernig hún hagar sér, síður en svo. 

Það að vera góður kærasti eða góður maki að mínu mati er ekki að segja já við öllu. Vera þægur og góður. Heldur að elska sig án skilyrða og síðan maka sinn með skilyrðum (e mörkum). Þú bjargar ekki börnunum þínum frá ofbeldi með því að vera meðvirkur því sem er í gangi inn á heimilinu. Þau verða að vita hvað er í lagi og hvað ekki. Þið eruð fyrirmyndir þeirra í því.  

Heiðarleiki, hreinskipti og jákvætt viðhorf til lífsins er svo mikilvægt til að koma sér af þeim stað sem þú ert á. Þú ert ekki það sem hefur komið fyrir þig í lífinu, heldur það hvað þú hugsar og gerir daglega. 

Kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál