„Þú átt heima hjá mömmu þinni og ert í skóla hér“

Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is.
Sara Oddsdóttir ráðgjafi og markþjálfi rekur vefinn saraodds.is. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég ætla að deila með ykkur persónulegri og ljúfsárri reynslu. Fyrir rúmri viku síðan fylgdi ég drengnum mínum sem er tíu að verða ellefu ára í flug, en hann ætlar sér að vera í skóla hjá pabba sínum úti á landi í vetur. Eftir að ég var búin að kveðja hann á flugvellinum, settist ég út í bíl, keyrði á malar bílastæðið hjá Reykjavíkurflugvelli, þarna þar sem bílaleigurnar eru og grét úr mér augun. Öskraði af öllum kröftum og fann fyrir einhverjum djúpum sársauka. Tómleikinn tók yfir,“ segir Sara Oddsdóttir lögfræðingur og markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Drengurinn er vanur að flakka á milli landshluta og ég og pabbi hans erum góðir vinir. Ég veit vel að drengurinn er ekki farinn frá mér og er í góðum höndum hjá pabba sínum, hann fær ást og umhyggju og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af honum. Það liggur engin önnur ástæða að baki þessarar ákvörðunar en sú að drengnum langaði til að prófa að búa hjá pabba sínum og vera þar í skóla. Ekkert vesen né drama. Þessa ákvörðun tók ég í samráði við son minn og föður hans. 

En hvaðan kom þessi djúpi sársauki? Þessi nístandi tilfinning eins og búið væri að skafa allt úr botninum á maganum á mér. Þið vitið þessi tilfinning sem nær niður í maga. Það er ekki eins og ég hitti hann ekki aftur eða hætti að vera mamma hans. Þó drengurinn gæti nánast ekki verið lengra frá höfuðborgarsvæðinu, þá er hann samt hinum megin við hornið. Ég meina, við búum á Íslandi. 

Ég ákvað að staldra við og skoða þennan vanmátt. Tómleikann sem myndaðist á þessu ískalda augnabliki. Nítján ára gömul varð ég fyrst mamma og var þrjátíu og eins árs þegar ég átti son minn. Segja má að ég hafi gegnt foreldrahlutverkinu allt mitt fullorðinslíf, var nánast barn sjálf þegar ég varð móðir. Auðvitað hef ég lært margar lexíur á þessari vegferð líkt og hver annar. Ég hef líka verið minnt all harkalega á hversu hverfult lífið er. Þegar litli drengurinn minn, þá ný orðinn sjö ára, var nær dauða en lífi þegar við lentum í alvarlegu bílslysi, eftir að keyrt var aftan á okkur á rauðu ljósi. Auk þess sem hann var mikið veikur fyrstu tvö árin sín. Þannig ég er alveg búin að reyna á eigin skinni hversu fín lína er á milli feigs og ófeigs. En meira um mig seinna.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun okkar, er ekki sú að ég þurfi tíma fyrir sjálfan mig, finna mig eða eitthvað álíka. Bara alls ekki. Ég elska að vera með börnunum mínum, þau er sjúklega skemmtileg og vel það fram yfir margt. Ég veit vel hversu dýrmætt hvert andartak með honum er og ég er ekki að senda barnið mitt á stað þar sem ég þarf að hafa áhyggjur að honum verði ekki sinnt, þó eðlilega komi ekkert í stað mömmu. Heldur er ástæðan fyrir þessari ákvörðun eingöngu sú að hann langaði til að prófa að búa hjá pabba sínum yfir veturinn og vera í skóla þar.

Ég hef verið spurð hvort þetta sé ekki bara frábært. Fái allan tímann í heiminum fyrir mig. Á meðan aðrir velta fyrir sér hvernig ég geti bara leyft drengnum að fara til pabba síns. Mömmuhjartað á erfitt með að skilja þetta skref. Hann er nú bara tíu, alveg að verða ellefu ára, en hann á líka pabba. 

En málið er að á þessu augnabliki sem hann treysti mér fyrir þessari hugmynd gat ég alveg sagt nei. Slegið þessa hugmynd út af borðinu og málið þannig útrætt. Allavega í bili. Almáttugur hvað það hefði verið milljón sinnum auðveldara fyrir mig að segja strax nei. „Þú átt heima hjá mömmu þinni og ert í skóla hér.“ Svoleiðis hefur það alltaf verið og mun alltaf vera. Það hefði verið mun þægilegra fyrir mig. En hefði það verið betra fyrir hann? 

Ég ákvað að grípa þessa hugmynd með honum og skoða. Hann á pabba sem elskar hann út af lífinu og er góður maður þrátt fyrir að við búum ekki saman. Pabbi hans er sjómaður og nú þegar litli strákurinn minn er að verða eldri þá þarf hann hugsanlega meiri nærveru við föður sinn. Hann á líka föðurfjölskyldu fyrir austan sem er og verður alltaf fjölskylda hans. Á þessu augnabliki hafði ég val. Val um að skapa öruggt rými fyrir hann til að tjá löngun sína um að vera meira með föður sínum. Hann var að kalla á aukna nærveru við pabba sinn og þar sem hann er sjómaður einkenndi fjarvera hans því líf fyrstu ár sonar okkar. Ég ákvað að skoða þetta betur með syni mínum og meta kosti og galla þess að fara úr því umhverfi sem hann þekkir best. Þrátt fyrir að vera alvanur heimabæ föður síns þá er þetta stórt skref fyrir lítinn mann.

Ég komst að þeirri niðurstöðu að í raun stæði ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að velja hagsmuni sonar míns fram fyrir mína. Ekki að honum eigi eftir að vegna betur hjá pabba sínum eða vegna þess honum langaði að vera þar. Alls ekki. Það er ekki aðalatriðið hér. Heldur vegna þess að hagsmunir hans felast í því að hann fái tækifæri til að stíga inn í hugrekkið sitt. Velja fyrir sig. Standa með sér. Láta reyna á sig. Læra að vega og meta kosti og galla þegar hann stendur frammi fyrir ákvörðun og taka svo afleiðingunum. Ég vil taka fram að ég geri mér fullvel grein fyrir því að börn eiga ekki að þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og slík ábyrgð á ekki að hvíla á börnum. Enda var honum ekki stillt upp við vegg. Hann er ekki að velja á milli mömmu sinnar eða pabba. 

Ég stóð frammi fyrir þeirri ákvörðun að leggja mína hagsmuni til hliðar fyrir hans. En þegar ég skoðaði þetta enn dýpra þá eru raunverulegir hagsmunir okkar þeir sömu. Mínir raunverulegu hagsmunir felast ekki að láta eftir tímabundnum löngunum mínum, hversu erfitt sem það kann að vera. Og trúið mér að þetta var erfitt. Heldur felast þeir í frumskyldu minni gagnvart honum sem er að virða hann sem einstakling og skila honum af mér út í lífið eins vel og ég get. Að gera allt sem í mínu valdi stendur til að skapa aðstæður svo hann megi öðlast sjálfsþekkingu. Mín frumskylda gagnvart honum er í raun sú að skila af mér einstaklingi sem kann að hlusta á og skilja tilfinningar sínar, langanir og þrár, og hefur hugrekki til að standa með sér. Með þessari ákvörðun fann ég að þetta var miklu stærra en bara það að hann væri að fara í skóla til pabba síns. Þarna var hann að stíga sín fyrstu skref inn í sjálfstæði sitt og akkúrat þarna gat ég stutt hann í því. Það besta sem ég gæti gefið honum væri að veita honum rými til að tjá sig óhræddur við mín viðbrögð eða ótta við að hann væri að svíkja mig eða pabba sinn. Ekki síður mikilvægt að gera honum grein fyrir því að hann mætti alltaf skipta um skoðun, hvenær sem er.  

Mitt hlutverk, sem móðir, er að skapa rými þar sem barnið mitt getur tjáð sig fumlaust og fær tækifæri til að láta reyna á sig. Mitt hlutverk er að skila af mér einstaklingi sem virðir sín mörk og annarra. Mitt hlutverk er að skila af mér einstaklingi sem þekkir sínar langanir, öðlast þor til að segja þær upphátt og kjark til að láta á þær reyna. Frumskylda mín sem móðir er að skapa aðstæður svo að drengurinn minn megi þekkja sitt hjartalag og öðlist hugrekki til að fylgja því eftir. Á þessu augnabliki gat ég rænt hann þessu hugrekki og þar með skilið eftir ör á hans hjartastað.

Á þessu augnabliki þurfti ég líka að stíga inn í hugrekkið mitt. Sleppa tökum á því sem ég vildi helst og skoða ótta minn. Hausinn á mér fór fram og til baka með þetta. Sagði við sjálfan mig: Sara hvað ertu að pæla, þú ert ekki að fara láta barnið fara í skóla fyrir austan. Hvaða rugl er þetta… ég fór í milljón hringi í hausnum með þetta. Hvað ef þetta, hvað ef hitt. En ég ætla að láta þetta duga í bili og segi ykkur frá mínu ferðalagi í næsta pistli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál