Opnuðu hjónabandið fyrir fjórum árum

Þórhildur Magnúsdóttir heldur úti Instagram-reikningnum Sundur & Saman.
Þórhildur Magnúsdóttir heldur úti Instagram-reikningnum Sundur & Saman.

Þórhildur Magnúsdóttir var gestur bræðranna Gunnars og Davíðs Wiium í hlaðvarpinu Þvottahúsið. Í vor var Þórhildur einnig gestur þeirra og þar ræddi hún um minimalisma. Í þetta skiptið ræddi hún um ástarsambönd en Þórhildur heldur úti Instagram-reikningnum Sundur & Saman. 

Reikningurinn hefur vakið mikla athygli fyrir nýja nálgun á sambönd þar sem áherslan er á að rækta sjálfan sig frá makanum og rækta sambandið. Þórhildur og eiginmaður hennar eru í fjölkæru hjónabandi og ræddi Þórhildur opinskátt um hjónaband þeirra. 

Þórhildur segir að mýtur, ranghugmyndir og óskrifaðar reglur um sambönd geti haft slæm áhrif á sambandið og orðið til þess að einstaklingum finnst þau ekki hafa frelsi til að vera þau sjálf í sambandi. Hún segir algengt að fólk þori ekki að segja hvað þau vilja gera, sérstaklega tengt kynlífi, af ótta við viðbrögð makans. 

Spurð hvað sé skilgreining á heilbrigðu sambandi segir hún lykilatriðið vera að skapa einstaklingsfrelsi, heilbrigð samskipti, eiga gæðastundir og að tjá ástina og þakklætið reglulega. 

Þórhildur segist hafa verið fyrst til að vakna til meðvitundar í sínu sambandi og tekið ábyrgð á því að hugsa um eigin vellíðan og segir að það sé mikilvægt að allir geri sér grein fyrir þessari ábyrgð.

„Það er mikilvægt að vera opin fyrir breytingum í sambandinu. Eftir því sem tíminn líður breytast aðstæður okkar og þarfir og ef við viljum eiga langlíf sambönd er nauðsynlegt að vera sveigjanleg fyrir því að sambandið breytist og mótist eftir mismunandi tímabilum í lífinu okka,“ sagði Þórhildur. 

Þórhildur og eiginmaður hennar ákváðu að opna hjónaband sitt fyrir fjórum árum. Þau fundu strax fyrir því að óttinn um framhjáhald minnkaði. Á sama tíma segir Þórhildur að maki hennar hafi orðið meira spennandi þegar hann hefur möguleikann á að tengjast öðrum. 

Opin sambönd eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og Þórhildur segir að þetta snúist mikið um að hver og einn þekki sig sjálfan og sækist eftir því sem hann vill.

„Opið samband fyrir mér er mjög andlegt ferli. Sjálfsskoðun, sjálfsþekking, sjálfsmeðvitund, læra þekkja tilfinningar sínar og við að vita hvað ég vil,“ segir Þórhildur. 

Hún segir að öll sambönd krefjast vinnu og það að vera í opnu sambandi þvingi fólk til að verða gott í samböndum. Hún vonast til þess að fólk gefist ekki upp á því að stofna til sambanda vegna þess hve erfið þau eru og markmið hennar með Sundur & Saman að gefa fólki tæki og tól til að gera öll sambönd betri.

Viðtalið má finna á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is