Hvers vegna ætti fólk að gera kaupmála?

Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Berglind Svavarsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Gifting er ekki bara ástarhátíð því hún snýst líka um erfðarétt og önnur praktísk mál. Berglind Svavarsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, segir að það færist í vöxt að fólk geri kaupmála og erfðaskrár – sérstaklega ef fólk á börn úr fyrri samböndum. En hvers vegna skiptir máli að gera það? 

Berglind segir að nútímafólk sé mun meðvitaðra um réttindi sín og vilji almennt hafa hlutina á hreinu.

„Sem betur fer er fólk orðið mun meðvitaðra í dag um sín réttindi og hvað þurfi að gera til að gæta að þeim réttindum svo sem með kaup mála eða erfðaskrá. Það fer alveg eftir aðstæðum hjónaefna hverju sinni hvort þau ættu að huga að því að gera kaupmála. Sérstaklega þyrfti þó að gæta þess þegar fólk á börn úr fyrri samböndum eða á eignir fyrir. Þegar fólk gengur í hjónaband verða eignir þess hjúskapareignir nema þær séu sérstaklega gerðar að séreignum. Munurinn á þessu tvennu er að hjúskapareignir koma almennt til helmingaskipta milli hjóna við skilnað eða andlát en hvor aðili heldur sínum séreignum. Í þeim tilfellum sem aðilar eiga eignir sem þeir vilja halda sem séreign utan hjúskapareignar og þegar bæði eða annar hvor aðilinn á í vændum umtalsverðan arf þá getur verið skynsamlegt að gera kaupmála,“ segir Berglind.

Hún segir að strangar kröfur séu gerðar til forms kaupmála en gildisskilyrði er að skrá kaupmálann hjá sýslumanni.

„Ef kaupmálinn varðar fasteign, skip eða loftfar þá þarf að þinglýsa honum á viðkomandi eign. Það er hægt að gera kaupmála hvenær sem er meðan hjónaband varir og það er líka hægt að breyta honum, fella hann niður, tímabinda eða skilyrða hann. Þá geta hjón enn fremur ákveðið í kaupmála að eign skuli vera séreign meðan bæði eru á lífi en hlíta reglum um hjúskapareign að öðru hvoru látnu,“ segir hún.

Þegar Berglind er spurð að því hvort það skipti máli að gera erfðaskrá þá segir hún að það geti verið gagnlegt að gera erfðaskrá ef fólk á börn úr öðrum samböndum.

„Þegar maki fellur frá í hjónabandi þá hefur eftirlifandi maki rétt til setu í óskiptu búi með börnum beggja séu þau fyrir hendi.

Ef þau eiga börn frá fyrra sambandi þá getur verið skynsamlegt að taka fram í erfðaskrá að eftirlifandi maki hafi rétt til setu í óskiptu búi en annars þarf hann að fá samþykki stjúpbarna.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »